Fréttir

Nýtt Neytendablað

Neytendablaðið er komið út og ætti að hafa borist félagsmönnum. Að venju kennir ýmissa grasa;

Endingartími lyfja getur verið mun lengri en dagsetning á pakkanum segir til um. Rannsókn frönsku neytendasamtakanna sýndi að algeng verkjalyf halda fullri virkni árum og jafnvel áratugum eftir síðasta neysludag.

Við fjöllum um sýndarverslanir „dropshopping“ sem spretta upp eins og gorkúlur og hefur kvörtunum vegna þeirra fjölgað mjög. Það er margt að varast í þessum viðskiptum og ættu neytendur að sýna varkárni á vefnum.

Liþíumrafhlöður eru almennt öruggar en notkun þeirra hefur stóraukist á undanförnum árum. Samhliða hefur eldsvoðum af völdum liþíumrafhlaða fjölgað. Við fjöllum um málið og gefum góð ráð.

Einhverra hluta vegna skila rafhlöður sér ekki í endurvinnslu eins og ætla mætti. Reyndar eru skilin svo léleg að því fer nærri að við Íslendingar eigum Evrópumet í þeim efnum. Ein ástæðan er sú að rafhlöður leynast í gömlum rafrækjum í skúffum og skápum, geymslum og bílskúrum. Íris Gunnarsdóttir hjá Úrvinnslusjóði fræðir okkur um málið.

Er eðlilegt að bílasölur innheimti fulla söluþóknun fyrir uppítökubifreiðar? Við teljum að svo sé ekki.

Hvert getur fólk leitað sem er í fjárhagsvanda og hvaða úrræði eru í boði? Við ræðum við Söru Janusardóttur hjá embætti umboðsmanns skuldara en umsóknum um aðstoð fer fjölgandi. Ungt fólk er í mestum vanda og fólk sem býr einsamalt er langstærsti einstaki hópur umsækjenda.

Er kanill meinholl lækningajurt eða krydd sem ætti að neyta í hófi? Eru kannski báðar fullyrðingar réttar? Við fjöllum líka um gæði ólífuolíu og hvað ber að hafa í huga við geymslu olíunnar.

Danir hrinda af stað átaki sem er ætlað að fá barnafjölskyldur til að borða hollari og umhverfisvænni mat.

Hleðslutæki verða samræmd sem mun létta neytendum lífið og sýnir fram á mikilvægi staðalastarfs.

Neytendasamtökin vinna að skýrslu um tryggingamarkaðinn. Við birtum stuttan útdrátt úr skýrslunni. Þá minnum við félagsmenn á rafræna heimilisbókhaldið okkar og rifjum upp áratuga gömul heilræði fyrsta formanns samtakanna.

Ef þú ert ekki þegar félagi er einfalt mál að bæta úr því hér.

Fréttir í sama dúr

Réttlát græn umskipti – alþjóðadagur neytendaréttar

Aðalfundur 10. apríl

Bætur vegna „þjálfunarflugs”

Málaskrá vor 2025

Framboð til stjórnar

Fast lágt raforkuverð í Noregi

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.