Fréttir

Ofgnótt af notuðum fötum

Jarðarbúar kaupa sífellt meira af nýjum fötum og er talið að eftirspurnin eigi eftir að þrefaldast til ársins 2050. Það er ekki síst vegna stækkandi millistéttar í fjölmennustu löndum heims, Kína og Indlandi. Sífellt meiri ásókn í ræktunarland setur takmörk á það hversu mikið er hægt að framleiða af bómull og þá eru jafnvel teikn á lofti um að framleiðsla á ýmsum gerviefnum sé að ná þolmörkum. Mengunin sem hlýst af framleiðslu á fatnaði er mikil. Talið er að fimmtungur vatnsmengunar í heiminum sé tilkomin vegna textílframleiðslu og um fjórðungur allra kemískra efna sem framleidd eru í heiminum eru notuð í fataframleiðslu.

Viskósframleiðsla í fjarlægum löndum
Framleiðsla á viskós (viscose rayone) er að mörgu leyti umhverfisvæn þar sem hráefnið er að mestu unnið úr trjákvoðu (sellulósa) en hins vegar þarf 5,5 kg af alls kyns kemískum efnum til að framleiða eitt kíló af viskós. Eitt af þeim efnum sem þarf til framleiðslunnar er koldisúlfíð, sem er mjög varasamt efni. Viskósframleiðsla getur því verið óumhverfisvæn og skaðleg þeim sem vinna við hana nema farið sé eftir ströngum ferlum. Það þarf því vart að koma á óvart að viskósframleiðslan hefur að mestu færst til landa þar sem vinnulöggjöf og umhverfislöggjöf er slakari en gengur og gerist á Vesturlöndum.
Bresku umhverfisverndarsamtökin Changing Markets skoðuðu ástandið í kringum tíu stærstu viskósverksmiðjur heims. Verksmiðjurnar eru í Kína, Indlandi og Indónesíu þar sem 83% af viskósframleiðslu heimsins fer fram. Víða mátti sjá merki þess að skaðlegum efnum væri sleppt út í vötn og ár og í einhverjum tilfellum voru íbúar hættir að drekka vatn úr nærliggjandi brunnum. Ástæða þess að sjónum var sérstaklega beint að viskósframleiðslu er sú að mjög auðvelt er að gera framleiðsluna umhverfisvænni og að á þessum markaði eru tiltölulega fáir aðilar og því ætti að vera auðveldara en ella að ná fram úrbótum.

Sænskt og umhverfisvænt
Hér í eina tíð var viskós framleitt í Svíþjóð og nú er verið að skoða hvort það geti verið vænlegur kostur að hefja þar viskósframleiðslu að nýju. Helsti kosturinn er sá að framleiðslan yrði umhverfisvænni sem myndi þó jafnframt þýða hærra verð. Hins vegar myndi sparast á móti í flutningskostnaði, sænsk skógrækt nyti góðs af og eins gætu gæðin orðið meiri, þ.e. efnið slitsterkara og rakadrægara. Í ljósi þess að eftirspurn eftir sjálfbærum textíl fer vaxandi ætti sænsk umhverfisvæn viskósframleiðsla að eiga framtíðina fyrir sér.

Ofgnótt af notuðum fötum
Á sama tíma og eftirspurnin eftir nýjum fötum eykst dregur úr eftirspurn eftir notuðum fatnaði. Í frétt á vef BBC er fjallað um hið óhóflega magn af notuðum (og oft lítið sem ekkert notuðum) fötum sem gefin eru til góðgerðarmála. Í Bretlandi fara um 10-20% í endursölu í verslunum Oxfam og annarra góðgerðarsamtaka. Restin er seld til dreifingaraðila sem flokka fötin og selja áfram til landa eins og Pakistan og Malasíu þar sem þau eru seld eða endurunnin. Nú lítur hins vegar út fyrir að mörg lönd hafi fengið sig fullsödd af fatasendingum frá Vesturlöndum. Rúanda, Kenía, Úganda, Suður-Súdan og Búrúndi tilkynntu nýlega að þau myndu stöðva innflutning á notuðum fötum frá og með 2019 en Bandaríkin eru stærsti útflytjandi heims á notuðum fötum.

Frétt úr 2. tbl. Neytendablaðsins

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.