Fréttir

Okurveitan?

Skuldar Orkuveita Reykjavíkur – vatns- og fráveita sf. notendum milljarða?

Orkuveita Reykjavíkur -vatns og fráveita sf. (OR) gæti hafa innheimt vatnsgjöld sem nema milljörðum króna undanfarin ár, umfram það sem lög leyfa. Þá greiddi vatnsveitan arð sem nam 2 milljörðum kr. til eiganda síns í fyrra. Svör OR við fyrirspurnum Neytendasamtakanna voru ákaflega loðin og óljós og hafnaði OR að svara frekari spurningum og samstarfi svo hægt væri að varpa ljósi á málið. Neytendasamtökin sendu því fyrirspurn til samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins þar sem spurt var um heimild OR til að greiða út arð og hvernig fjármagnskostnaður skyldi reiknaður. Svar ráðuneytisins barst 14. nóvember og eru skýr: „Það er mat ráðuneytisins að sveitarfélögum er óheimilt að greiða sér arð úr rekstri vatnsveitna. (…) Það er mat ráðuneytisins að hugtakið „fjármagnskostnaður“ í skilningi 10. gr. laga [um vatnsveitur sveitarfélaga], verður ekki túlkað með þeim hætti að það geti náð yfir áætlaðan kostnað/arðsemiskröfu sveitarfélaga af bundnu eigin fé í vatnsveitum.“

Neytendasamtökin skora á stjórn Orkuveitunnar og kjörna fulltrúa eigenda að skoða málið í kjölinn, krefja stjórnendur svara og tryggja að fyrirtækið endurgreiði notendum vatnsveitunnar oftekin vatnsgjöld undanfarinna ára. 

Neytendasamtökin fagna því að samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið hafi hafið skoðun  gjaldskrár allra  vatnsveitna í landinu.

Þann 15. mars 2019 kvað samgöngu- og sveitstjórnarráðuneytið upp úrskurð í kærumáli árvökuls félagsmanns Neytendasamtakanna á hendur OR um að veitan hefði oftekið vatnsgjöld af neytendum sem nam „að lágmarki“ 2% árið 2016. Orkuveitan tilkynnti þann 16. ágúst  að hún hyggðist endurgreiða 2% af ofteknum gjöldum ársins 2016.

Samkvæmt ofangreindum úrskurði samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins er ólöglegt að hafa hagnað af vatnsveitu: „Í greinargerð með frumvarpi því sem varða að lögum um vatnsveitur sveitarfélaga er tekið fram að ekki skuli ákveða í gjaldsskrá hærra gjald en nemur meðalkostnaði af því að veita þjónustuna.“ Þá segir jafnframt í úrskurðinum: „OR hefur ekki heimild til að taka arð af vatnsveitu umfram það sem fyrirtækið þarf til að standa undur fjármagnskostnaði, né heldur að ofmeta fjármagnskostnað veitna eins og vísbendingar eru um. OR er heldur ekki heimilt að slá eign sinni á oftekin gjöld … OR getur því ekki slegið eign sinni á oftekin gjöld vegna reksturs vatnsveitu OR mörg undanfarin ár.“

Úrskurður ráðuneytisins segir því beinlínis að Orkuveitan hafi oftekið vatnsgjöld í mörg ár. Þrátt fyrir það hefur hún ekki endurgreitt nema hluta oftekins gjalds eins árs. Ráðuneytið komst að því að oftaka vatnsgjalds hafi numið að lágmarki 2% árið 2016, en Orkuveitan miðaði endurgreiðslu sína einungis við 2% án þess að gera tilraun til að reikna út raunverulega oftöku gjaldsins.  Neytendasamtökin hafa ekki fengið fullnægjandi svör þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og geta því ekki lagt mat á upphæð oftökunnar.

Í tilkynningu frá Veitum föstudaginn 16. ágúst 2019 kemur fram að Veitur endurgreiðir notendum oftekin gjöld ársins 2016 að upphæð alls 440 mkr eða 11,9% af vatnsgjöldum þess árs. Í framhaldi af því sendu Neytendasamtökin fyrirspurn til Orkuveitunnar og óskuðu svara. Svörin sem fengust voru ýmist ófullnægjandi eða vöktu upp frekari spurningar. Þá vísaði OR í greinargerð með lögum sem fallin eru úr gildi, máli sínu til stuðnings. OR hafnaði að svara frekari spurningum Neytendasamtakanna og einnig boði um samstarf um að komast til botns í málinu.

Eftir standa ókannaðar vísbendingar um að OR gæti hafa oftekið vatnsgjöld sem hugsanlega nema milljörðum króna.  Meðal þess sem Neytendasamtökin mælast til að verði skoðað sérstaklega er:

-Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal gjaldskrá taka mið af meðalkostnaði við að veita þjónustuna. Þá megi telja til stofn- og fjármagnskostnað vegna fyrirhugaðra framkvæmda samkvæmt langtímaáætlunum. Svör OR eru á þá leið að þessar langtímaáætlanir séu ekki til. Þar sem þessi gögn er ekki að finna er OR óheimilt að reikna fjármagnsgjöld inn í vatnsgjaldið eins og fyrirtækið hefur gert undanfarin ár.

-Í úrskurði samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins segir meðal annars að arðsemi Veitna vegna vatnsveitu „…umfram fjármagnskostnað sé að lágmarki 2%.“ Samt sem áður ákveða Veitur að greiða einungis 2% til baka. Neytendasamtökin fengu ekki svör þegar kallað var eftir rökstuðningi OR við því að einungis væri miðað við lágmarkið en ekki fundin út raunveruleg oftaka.

-Í ársreikningi ársins 2018 kemur fram að OR hafi greitt eigendum sínum tveggja milljarða króna arð. Það er óheimilt samkvæmt minnisblaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um Gjaldskrár vatnsveitna frá 25.10.2019.

-Í svörum OR kemur fram að félagið telji sér heimilt að miða við arðsemismarkmið eigenda í útreikningi gjaldskrá vatnsgjalds. Það er óheimilt samkvæmt minnisblaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um Gjaldskrár vatnsveitna frá 25.10.2019.

-Samkvæmt svörum OR hefur enginn óháður aðili eftirlit með lögmæti gjaldskrár OR eða sannreynir að vatnsgjaldið sem nú sé verið að innheimta sé lögum samkvæmt. Þá hefur fyrirtækið ekki leitað eftir slíkri aðstoð og höfnuðu boði Neytendasamtakanna um aðstoð við að koma því á. 

-Samkvæmt ársreikningum félagsins var hagnaður áranna:
2018, 2,8 milljarðar króna,
2017, 3,4 milljarðar króna,
2016, 3,5 milljarðar króna,
2015, 2,6 milljarðar króna,
2014, 2,6 milljarðar króna,
Hagnaður OR á tímabilinu nemur alls 14,9 milljörðum króna og ljóst að oftekin vatnsgjöld eru að líkindum meginstofn þessa hagnaðar.  

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.