Fréttir

Ólöglegir vextir og óviðunandi upplýsingagjöf

Enn eru veitt lán með ólöglega háum vöxtum og samanburður á neytendalánum er ómögulegur þar sem fyrirtæki birta ekki lögbundnar upplýsingar. Neytendasamtökin kalla eftir aðgerðum.

Um áramót tóku í gildi mikilvægar breytingar á lögum um neytendalán sem fólu meðal annars í sér að hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK) var lækkað úr 50% í 35%, auk stýrivaxta Seðlabanka Íslands. Í áraraðir hafa smálánafyrirtækin reynt að koma sér undan framangreindu hámarki með ýmsum leiðum s.s. flýtigjaldi, sölu rafbóka samhliða lánveitingum og flutning starfseminnar til annarra landa. Um mitt síðasta ár gaf Almenn innheimta ehf. það út að fyrirtækið myndi ekki lengur innheimta ólögmætar kröfur. Þó hefur innheimtukostnaður vegna ólögmætra lána ekki verið felldur niður.

Þrátt fyrir lagabreytingarnar má lesa á vef Kredia.is, eins smálánafyrirtækjanna sem hafa um árabil stundað ólögmæta starfsemi á Íslandi, að enn sé innheimt hærra ÁHK en heimilt sé. Þar stendur: „ Í flestum tilfellum miðum við [svo] ca 50% ÁHK …“

Þá bendir fljótleg yfirferð yfir vefsíður nokkurra annarra lánveitenda til þess að fleiri en Kredia veiti neytendalán á ólöglega háum vöxtum. Þá birta sumir lánveitendur jafnvel ekki upplýsingar um ÁHK, eins og þeim er skylt samkvæmt lögum, og því er ómögulegt að vita raunverulegan kostnað lánanna nema eftir umsóknarferli.

Neytendasamtökin kalla eftir því að tafarlaust verði gripið til aðgerða stjórnvalda, svo ekki verði veitt dýrari lán en lög leyfa, nógu eru 35% vextir háir samt, þó ekki sé lengra seilst. Þá kalla Neytendasamtökin eftir því að allir lánveitendur birti þær upplýsingar sem þeim er skylt samkvæmt lögum, meðal annars um ÁHK. Án upplýsinga um ÁHK er neytendum ógerlegt að bera saman raunverulegan kostnað lána og eftirlit með að fyrirtæki haldi sig innan ramma laganna hvað varðar hámark ÁHK gert erfiðara.

Fréttir í sama dúr

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Staðan í Vaxtamálinu

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.