Í aðdraganda gjaldþrots Base Parking leituðu fjölmargir neytendur til Neytendasamtakanna; ferðalangar sem gert höfðu samning við Base Parking um geymslu á bíl meðan á ferðalagi stæði. Var bifreiðum lagt við Flugstöð Leifs Eiríkssonar þangað sem starfsfólk Park Basing sótti þær. Í mörgum tilfellum voru bifreiðarnar þó ekki sóttar og stóðu þær því á stæðum Isavia, jafnvel til lengri tíma. Isavia gerir þá kröfu að neytendur greiði kostnað vegna þess sem varðar í sumum tilfellum tugi þúsunda og jafnvel á annað hundruð þúsund krónur. Neytendasamtökin telja þessar kröfur Isavia ósanngjarnar.
Base Parking (sem nú heitir Siglt í stand ehf.) starfaði á Keflavíkurflugvelli með vitund Isavia og var samningur með fyrirtækjunum. Neytendur fóru eftir fyrirmælum Base Parking, sem voru með fullri vitneskju stjórnenda Isavia, og lögðu bifreiðum sínum í bílastæði Isavia á Keflavíkurflugvelli, undir því yfirskini að þær yrðu sóttar skömmu síðar. Samkomulag um fyrirkomulagið var milli Isavia og Base Parking.
Neytendasamtökin funduðu með forsvarsmönnum Isavia þar sem þau fóru fram á að Isavia felldi niður kröfur á hendur neytendum, sem voru í góðri trú. Ennfremur að Isavia beini kröfum sínum að Base Parking, sem augljóslega uppfyllti ekki samning sinn. Þrátt fyrir ítrekanir hafa samtökin enn ekki fengið svör frá Isavia um hvort eða hvernig fyrirtækið ætli að bregðast við. Þvert á móti hafa samtökin fregnað frá óánægðum neytendum að Isavia ætli sér að innheimta umdeildar kröfur sínar að fullu.
Telja Neytendasamtökin eðlilegt að Isavia taki tillit til aðstæðna, og þess að Base Parking starfaði á umráðasvæði Isavia og með vitund þess. Því fara samtökin fram á að Isavia beini kröfum sínum að þrotabúi Base Parking en ekki grandalausum neytendum.
Leiðbeiningar til viðskiptavina Base Parking
-Hafir þú verið viðskiptavinur Base Parking og fengið innheimtukröfu frá Isavia skaltu fara fram á að krafan verði felld niður þar sem þú hafir átt í viðskiptasambandi við Base Parking, ekki Isavia. Sé ekki fallist á það geturðu greitt kröfuna með fyrirvara og farið með málið fyrir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Hér eru upplýsingar um hvernig það er gert. Neytendasamtökin bjóða félagsmönnum sínum aðstoð við að útbúa mál fyrir nefndina.
-Hafir þú verið viðskiptavinur Base Parking og ekki fengið þjónustu sem þú hefur greitt fyrir skaltu hafa samband við viðskiptabanka þinn og óska eftir endurgreiðslu (e. chargeback).