Raforkumarkaðurinn einkennist af fákeppni en fimm fyrirtæki selja rafmagn til almennings. Verðmunur er lítill milli þessara aðila og er verð þess sem lægst býður 6,61 kr. fyrir hverja kílóvattstund en 6,91 kr. hjá þeim sem selur á hæsta verði. Mismunurinn á lægsta og hæsta verði er því aðeins 4,5%.
Neytendasamtökin ákváðu að bjóða út rafmagnsverð fyrir félagsmenn sína og var útboðið gert í samstarfi við Hagvang. Ástæða útboðsins var tvíþætt; í fyrsta lagi að reyna að fá hagstæðara verð á rafmagni fyrir félagsmenn samtakanna og í öðru lagi að ýta undir samkeppni á þessum markaði.
Nú liggja niðurstöður útboðsins fyrir og aðeins eitt fyrirtæki sendi inn tilboð, en það var Orkusalan sem er dótturfyrirtæki RARIK sem bauð 0,65% afslátt frá gildandi verðskrá sinni. Ljóst er að hér er um svo takmarkaðan ávinning að ræða fyrir neytendur að ákveðið var að hafna þessu tilboði.
Þessi niðurstaða er vonbrigði. Að mati Neytendasamtakanna staðfestir þessi niðurstaða þá fákeppni sem er á þessum markaði. Neytendur hafa lítinn ávinning af því að beina viðskiptum til annars aðila en þeir eru þegar í viðskiptum við. Því hafa Neytendasamtökin vakið athygli Samkeppniseftirlitsins á niðurstöðu útboðsins og kalla eftir aðgerðum.