Fréttir

Pakkaferðir til Kína í ljósi faraldurs

iStock.com/waynerd

Samkvæmt fljótlegri leit á vefnum bjóða að minnsta kosti þrjár ferðaskrifstofur uppá pakkaferðir til Kína. Í ljósi COVID-19 faraldursins sem nú geisar og á upptök sín í Wuhan er eðlilegt að ferðamenn staldri við og velti fyrir sér hvað skuli gera. Rétt er að taka fram að þegar þetta er skrifað hefur landlæknir lýst yfir óvissustigi. Sóttvarnarlæknir hvetur fólk til að halda ró sinni og fylgjast vel með þeim upplýsingum og leiðbeiningum sem birtar eru á vef landlæknis. Á vef landlæknis eru einnig birtar ráðleggingar til ferðamanna. Þar er mælt með að „ferðamenn sleppi ónauðsynlegum ferðalögum til Kína, þar sem faraldur nýrrar kórónaveiru er í gangi.“

Hér er gagnvirkt kort sem sýnir útbreiðslu faraldursins.

Neytendasamtökin hafa sent fyrirspurnir til ferðaskrifstofanna um hvort ferðum til Kína verði haldið til streitu og ef svo sé, til hvaða ráðstafana verði gripið. Þá óskuðu samtökin eftir upplýsingum um hvernig ferðaskrifstofurnar hygðust bregðast við óski ferðamaður eftir að hætta við fyrirhugaða ferð.

Í svörum ferðaskrifstofunnar VITA kom fram að þau fylgist grannt með framvindu mála í Kína og munu gera það áfram. „Að sjálfsögðu verður ekki farið með fólk í óvissu, en ferðin er eftir tvo mánuði og við höfum beðið átekta,“ segir Guðrún Sigurgeirsdóttir hjá VITA í svari sínu.

Þá kom fram að þeir sem kosið hafi að hætta við ferðina hafi fengið fulla endurgreiðslu og það sama myndi gilda ákveði VITA að fella ferðina niður.

Öllum farþegum Nonna Travel, sem áttu bókaða ferð til Kína hefur verið boðið að fá fulla endurgreiðslu eða láta greitt staðfestingargjald liggja inn hjá ferðaskrifstofunni þar til ný brottfarardagsetning liggur fyrir.

Heimsferðir sendu í morgun póst til farþega sinna þar sem fram kom að báðum Kínaferðum sem ráðgert var að fara í í apríl væri aflýst. Þá var farþegum boðið að fá ferðir sínar endurgreiddar eða nýta greiðslur til að kaupa sér nýja ferð.

Neytendasamtökin árétta að í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun segir að ferðamaður geti afpantað ferð áður en hún hefst gegn greiðslu þóknunar. Þó á ferðamaður rétt á fullri endurgreiðslu (að staðfestingargjaldi meðtöldu) ef afpöntunin er „… vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaða.“

Neytendasamtökin telja að þetta ákvæði eigi við um pakkaferðir til Kína um þessar mundir og fagna því að ferðaskrifstofur líti það sömu augum.

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.