Smálán – stór sekt
Persónuvernd hefur sektað Creditinfo Lánstraust hf. vegna skráninga lántakenda smálána á vanskilaskrá. Sektarupphæðin, 37.859.900 kr., er sú langhæsta sekt sem Persónuvernd hefur gert nokkru fyrirtæki að greiða enda eru brot Creditinfo víðtæk og afar alvarleg. Nemur sektarupphæðin 2,5% af veltu fyrirtækisins árið 2021, en hámarkssektarheimild Persónuverndar er 4%. Þá lagði Persónuvernd 7.500.000 kr. sekt á smálánafyrirtækið eCommerce2020 og 3.500.000 kr. á Almenna innheimtu.
Málið er einn angi baráttu Neytendasamtakanna og launþegahreyfingarinnar gegn smálánaóáraninni, en í júní 2020 sendu samtökin kvörtun til Persónuverndar vegna vanskilaskráningar á smálánakröfum sem voru til innheimtu hjá Almennri Innheimtu. Var það skoðun Neytendasamtakanna að Creditinfo veitti smálánafyrirtækjunum sannkallað skálkaskjól og að skráningarnar brytu í bága við bæði starfsleyfi Creditinfo og lög.
Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem borin eru uppi af félagsgjöldum. Því fleiri félagar, þeim mun öflugri samtök. Þú getur skráð þig hér.
Þak á innheimtu nauðsynlegt
Með úrskurði Persónuverndar er góður sigur unninn fyrir neytendur. En betur má ef duga skal. Svo virðist sem smálánafyrirtæki hafi skipt um viðskiptamódel. Í stað þess að krefjast ofurhárra vaxta er lagður ofurhár innheimtukostnaður á innheimtu smálána. Þannig eru dæmi um að smálánakröfur fimmfaldist á sex vikum í innheimtuferlinu. Búið er að setja 35% hámark á kostnað (áhk) neytendalána en ekkert þak er á innheimtukostnaði lánanna. Því er ljóst að gera þarf breytingar á innheimtulögum líkt og Danir og Svíar hafa gert, en þar er hámark á innheimtukostnaði 100% og markaðssetning fyrirtækja sem bjóða lán með hærri kostnað (áhk) en 25% bönnuð.
Kvörtun Neytendasamtakanna
Þann 16. júní 2020 kvörtuðu Neytendasamtökin til Persónuverndar þar sem þau töldu Creditinfo Lánstraust hf. hafa gerst brotlegt við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og starfsleyfi félagsins, útgefið af Persónuvernd.
Kvörtun Neytendasamtakanna sneri nánar tiltekið að eftirfarandi:
- Að fram hafi farið vinnsla persónuupplýsinga hjá lántökum þ.m.t. skráning upplýsinga um meint vanskil smálána á vanskilaskrá, hjá Creditinfo, þrátt fyrir að fyrir lægi að um væri að ræða ólögmætar kröfur. Slík vinnsla er í andstöðu við ákvæði laga um persónuvernd og skilyrði starfsleyfis Creditinfo.
- Að Creditinfo hafi gerst brotlegt við starfsleyfis félagsins og 15. gr. pvl. með því að hafa ekki, að eigið frumkvæði, leiðrétt ranglega skráðar upplýsingar á vanskilaskrá eftir að hafa orðið ljóst að um ranga eða ólöglega skráningu væri að ræða eða eftir að hafa fengið ábendingu þar um frá lántökum eða Neytendasamtökunum.
- Að Creditinfo sé og hafi verið óheimilt að skrá vanskil á greiðslu „höfuðstóls“ svokallaðra smálána í vanskilaskrá Creditinfo.
- Að Creditinfo sé og hafi verið óheimilt að skrá vanskil vegna krafna sem ekki eru í raunverulegri löginnheimtu, þ.e. þar sem engin innheimtumeðferð er hafin á grundvelli réttarfarslaga, sbr. 2.1. gr. í starfsleyfi Creditinfo.
- Að Creditinfo sé óheimilt að heimila smálánafyrirtækjum, svo sem Kredia, Orka Ventures, NúNú Lána ehf., að vakta fjárhagsstöðu einstaklinga nema fyrir liggi ótvírætt samþykki hins skráða, sbr. 10. gr. pvl.
Þá töldu samtökin að skýrleika skorti í starfsleyfi félagsins m.a. hvað varðar heimild til skráningar einstaklinga í vanskilaskrá félagsins vegna meintra vanskila við erlenda lögaðila sem halda því fram að erlend lög gildi um viðkomandi lánssamning.
Neytendasamtökin fagna úrskurði Persónuverndar enda hafa þau lengi bent á þær brotalamir í starfsemi fyrirtækisins sem Persónuvernd telur ámælisverðar.
Ný reglugerð veikir rétt neytenda
Neytendasamtökin og ASÍ gerðu árið 2020 alvarlegar athugasemdir við starfsleyfi Creditinfo og í kjölfarið voru gerðar verulegar umbætur á því. Í kjölfarið virðist sem Creditinfo hafi hreinlega pantað reglugerð frá ráðuneytinu til að ógilda umbætur í starfsleyfinu því með nýrri reglugerð eru umbætur nýs starfsleyfis að miklu leyti hafðar að engu.
Í ítarlegri umsögn um reglugerðardrögin bentu Neytendasamtökin og ASÍ á fjölmörg atriði sem samtökin töldu að græfu undan réttindum neytenda. Í heildina litið er lítið sem ekkert tillit tekið til athugasemda samtakanna og er mjög miður að stjórnvöld dragi taum einkaaðila sem safna fjárhagsupplýsingum um einstaklinga, á kostnað neytenda. Samtökin gera meðal annars athugasemdir við eftirfarandi:
- Fólk fer fyrr inn á vanskilaskrá. Áður var reglan sú að óheimilt var að skrá aðila á vanskilaskrá fyrr en löginnheimta væri hafin, en nú er heimilt að skrá skuldara á vanskilaskrá eftir einfalda tilkynningu lögmanns. Liggur fyrir að í tengslum við smálán hafa sumir lögmenn nýtt sér slíkar tilkynningar til þess að koma einstaklingum á vanskilaskrá, án þess að halda áfram innheimtu, vitandi að óvissa væri um réttmæti krafna. Skorti þar á úrræði eftirlitsaðila til að beita sér í slíkum málum. Hefur ráðherra hér með veitt slíkum vinnubrögðum stoð í reglugerð, sem áður var talin óheimil. Með þessari breytingu hefur ráðuneytið farið gegn sjónarmiðum Persónuverndar og sjónarmiðum samtakanna.
- Viðmið til vanskilaskráningar var 60.000 kr. samkvæmt starfsleyfi Creditinfo sem Persónuvernd gefur út. Þegar Creditinfo fékk fyrst starfsleyfi var þessi upphæða 30.000 kr. Ef horft er á verðþróun ætti þessi upphæð í dag að vera rúmar 100.000 kr. Þessi fjárhæð hefur með reglugerðinni verið lækkuð niður í 50.000 kr. Þarna er augljóslega verið að ganga erinda Creditinfo sem hefur hag af því að vanskilaskráningar séu sem flestar.
- Samtökin gera kröfu um 40 daga frest frá vanskilum til skráningar en hann er samkvæmt reglugerðinni 14 dagar. Að mati Neytendasamtakanna er það óeðlilega skammur tími, sé tekið mið af alvarleika þess að vera skráður á vanskilaskrá. Gefa þarf fólki tækifæri til að bregðast við og óeðlilegt að fresturinn sé svo skammur að fólki sé refsað ef það bregður sér í frí, veikist eða er einhverra hluta vegna ekki sítengt.
Rennur reglugerðin undan rifjum Creditinfo?
Sérstaka athygli og tortryggni vekur að Creditinfo fundaði með ráðuneytinu áður en drög að reglugerðinni voru send út til almenns samráðs. Kom þetta í ljós eftir að Neytendasamtökin kölluðu eftir upplýsingum um samskipti ráðuneytisins og Creditinfo á þeim tíma sem reglugerðin var til vinnslu.
Sé það stefna ráðuneyta að funda með hagsmunaaðilum vegna vinnslu frumvarpa og reglugerða telja Neytendasamtökin augljóst að gæta þurfi jafnræðis. Öllum er gert kleift að senda inn umsögn við drög á samráðsgátt en ekki hafa allir tækifæri á persónulegum samskiptum við það fólk sem semur frumvörp og reglugerðir þar sem hægt er að koma sjónarmiðum á framfæri, t.d. með glærukynningu eins og var í þessu tilfelli.
Neytendasamtökin telja auk þess mjög óheppilegt að ráðuneytið hafi ekki beðið eftir niðurstöðu Persónuverndar um brot Creditinfo, áður en reglugerðin var gefin út. Úrskurður Persónuverndar sýnir hversu mikilvægt það er að öll umgjörð um starfsemina sé eins skýr og góð og mögulegt er.
Þá sýnir úrskurðurinn fram á mikilvægi þess að stjórnvöld efli stofnunina. Það er afar íþyngjandi fyrir neytendur að þurfa að bíða eftir úrlausn mála sinna í rúmlega þrjú ár. Úrskurður Persónuverndar sem og nýleg sátt Fjármálaeftirlitsins sýna jafnframt fram á mikilvægi eftirlitsstofnana fyrir neytendur. Hér sannast enn að fyrirtæki þurfa virkt eftirlit því annars freistast sumir forsvarsmenn þeirra til að beygja reglur og brjóta á neytendum.