Neytendasamtökin leggjast hart gegn áformum stjórnvalda um að slá af samkeppni sláturleyfishafa. Í Samráðsgátt stjórnvalda liggja drög að frumvarpi til laga sem þyngja munu byrðar neytenda en létta pyngjur þeirra, nái þau fram að ganga. Þá eru þar heldur engar mælanlegar hagsbætur til handa bændum. Virðast samtökunum sem frumvarpið gagnist einungis milliliðunum milli bænda og neytenda; sláturleyfishöfum..
Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem reiða sig á árgjöld félagsmanna. Því fleiri félagar, þeim mun öflugri samtök. Gerast félagi.
Neytendasamtökin hafa fullan skilning á stöðu íslenskrar matvælaframleiðslu. Mörg dæmi um að stjórnvöld komi einstaka geirum til aðstoðar með sértækum hætti, sé þess þörf, án þess að undanþága frá samkeppnislögum komi til. Neytendasamtökin gagnrýna harðlega að sleginn sé skjaldborg utan um einn hlekk í keðjunni, afurðastöðvarnar, en öðrum gert að bera byrðarnar. Nær væri að efla bændurna sjálfa.
Samkeppni er nauðsyn
Frumvarpið er óforsvaranleg tilraun sem fleyta mun okkur áratugi aftur í tímann án þess að skila þeim afar óljósa ábata sem stefnt er að. Nóg er fákeppnin á Íslandi, þó þessi sýn verði ekki að veruleika. Reynslan sýnir okkur einmitt að samkeppni er helsta vörn neytenda gegn háu verðlagi. Lærðar greinar hafa verið skrifaðar um gagnsemi frjálsrar samkeppni og áhrif á vöruverð, nýsköpun og gæði, og fæst væru reiðubúin að hverfa til fyrri tíma þegar einokun og opinber verðstýring var við lýði. Þess vegna kemur þessi stefnubreyting stjórnvalda eins og skrattinn úr sauðarleggnum.
Mjög víðtæk heimild
Markmið frumvarpsins virðist einna helst ætlað að koma til móts við erfiðar aðstæður sauðfjárbænda en einnig eru þó nefndir erfiðleikar í nautakjötsframleiðslu og „fleiri greina“. Ekki skal lítið gert úr áskorunum í íslenskum landbúnaði, sem þó býr við ríka tollvernd og öflugt styrkjakerfi. Hins vegar er hvorki að að sjá að lagabreytingunni sé beint að þeim landbúnaðargreinum sem veikastir eru, né að þeim afurðarstöðvum sem höllustum fæti standa. Þvert á móti er heimildin svo víðtæk að öll kjötframleiðsla, hvaða nafni sem hún nefnist, er undir sem og allar afurðastöðvar óháð styrk þeirra á markaði. Telja Neytendasamtökin að um mistök hljóti að vera að ræða við frumvarpsgerðina enda geti það ekki verið markmið að opna á svo víðtæka heimild.
Tímabundin heimild
Ráðgert er að undaþáguheimildin gildi „einungis“ til ársins 2026 án þess að sú tímalengd sé rökstudd. Markmið frumvarpsins er að ná fram nauðsynlegri hagræðingu án þess að hún sé skilgreind nánar með tölulegum markmiðum, né heldur fyrir hvern, en væntanlega á kostnað neytenda. Því verður tæpast séð hvernig vinda ætti ofan af afleiðingum lagasetningarinnar og það þarf ekki mikinn spámann til að sjá að freistandi verður að framlengja undanþáguna eða festa hana enn frekar í sessi. Þegar sum fyrirtæki hafa komist upp á bragðið með að starfa í vernduðu umhverfi verður ekki svo auðveldlega snúið af þeirri braut.
Hægt að hagræða án undanþágu
Samkeppnislög eru grundvallarleikreglur í frjálsu markaðshagkerfi og að þeim ætti aldrei að víkja til hliðar, nema í ýtrustu undantekningatilvikum þegar afar ríkir almannahagsmunir koma til. Hagræðing innan tiltekinna geira á ekki – og þarf ekki – að vera háð því að samkeppnislögum sé vikið til hliðar. Í 15. gr. núgildandi samkeppnislaga er fyrirtækjum heimilt að leiða saman hesta sína til að stuðla að aukinni hagræðingu, skilvirkni og nýsköpun með þeim skilyrðum að jákvæð áhrif samstarfsins vegi þyngra en þau neikvæðu. Í frumvarpinu í Samráðsgáttinni er engin tilraun gerð til að vega og meta jákvæðar og/eða neikvæðar afleiðingar lagasetningarinnar. Þá er heldur ekki lagt mat á það hvers vegna afurðarstöðvar geti ekki nýtt sér heimild 15. gr. samkeppnislaga til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu. Það sem ekki er mælt, verður ekki gert.
Aðför að neytendum
Frumvarpsdrögin og hugmyndir sem að baki því liggja eru mati Neytendasamtakanna óboðlegar. Frumvarp sem heimilar fyrirtækjum að víkja sér undan mikilvægum ákvæðum samkeppnislaga er aðför að neytendum, því aðför að samkeppnislögum er aðför að neytendum. Engar rannsóknir eða greiningar liggja fyrir um áhrif umræddra lagabreytinga á hagsmuni bænda né neytenda.
Neytendasamtökin leggjast hart gegn því að frumvarpið nái fram að ganga og hvetja alla til að leggjast á plóg neytenda til að afstýra þessu slysi.