Fréttir

Samkeppni slátrað – um hvað snýst málið?

iStock.com/recep aktas

Fréttir um kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska hafa ekki farið fram hjá neinum. Að öllu eðlilegu myndi sameining svo stórra fyrirtækja vera háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Lögum var hins vegar breytt gagngert til að heimila samþjöppun og samráð.

Alþingi samþykkir umdeild lög

Forsaga málsins er sú að umdeild lög um undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum voru samþykkt á Alþingi í mars síðastliðnum. Lögin veita kjötafurðastöðvum – hvaða nafni sem þær nefnast – undanþágu frá samkeppnislögum og mega þær því hafa með sér hvers konar samráð. Í raun gætu allar kjötafurðastöðvar landsins sameinast í eitt stórfyrirtæki án þess að Samkeppniseftirlitið fengi nokkuð að gert.

Veigamiklar breytingar á frumvarpi

Neytendasamtökin ásamt VR, Félagi atvinnurekenda og Samtökum verslunar og þjónustu gagnrýndu mjög meðferð málsins. Markmið frumvarpsins var ekki síst að koma til móts við erfiða stöðu sauðfjárbænda og átti undanþágan einungis að ná til afurðastöðva í eigu eða undir stjórn bænda. Atvinnuveganefnd gerði hins vegar svo viðamiklar breytingar á frumvarpinu á milli annarrar og þriðju umræðu þingsins að í raun var um nýtt frumvarp að ræða. Frumvarpið fór því ekki í gegnum hefðbundið umsagnarferli og þrjár umræður á þingi eins og lög og stjórnarskrá gera ráð fyrir.

Ekki brugðist við varúðarorðum

Samtökin sendu því erindi á atvinnuveganefnd og fóru fram á að frumvarpið yrði dregið til baka. Af því varð ekki og sendu samtökin þá erindi á matvælaráðuneytið og bentu á alvarlega annmarka málsins. Í bréfi sem Matvælaráðuneytið sendi atvinnuveganefnd er áhyggjum lýst af málsmeðferð og bent á ýmsa þætti sem orka tvímælis. Ekki var þó brugðist við þessum áhyggjum. Þvert á móti sagðist matvælaráðherra – sem áður sat í atvinnuveganefnd og samþykkti hið umdeilda frumvarp – ekki ætla að aðhafast neitt í málinu.

Erfitt að vinda ofan af skaðlegu samráði

Samkeppniseftirlitið gerði alvarlegar athugsamdir við málið. Ólíkt því sem haldið hefur verið fram eru engin dæmi þess í nágrannalöndunum að kjötafurðastöðvum sé heimilt að sameinast án nokkurra takmarkana. Þá er ekki ljóst hvort, og þá með hvaða hætti, Samkeppniseftirlitinu er ætlað að hafa eftirlit með fyrirtækjum á þessum markaði þegar þeim hefur verið veitt heimild til samráðs. Samkeppniseftirlitið bendir einnig á að breytingar á þeim mörkuðum sem frumvarpið heimilar verða að miklu leyti óafturkræfar. Það gæti þannig reynst ógerlegt að vinda ofan af skaðlegum samrunum og samráði.

Samkeppnislög grundvallarleikreglur

Neytendasamtökin eru svo sannarlega ekki mótfallin aukinni hagræðingu í landbúnaði enda  skili hún sér til bænda og neytenda. Samkeppnislög eru hins vegar slíkar grundvallarleikreglur í frjálsu markaðshagkerfi að þeim ætti aldrei að víkja til hliðar nema afar ríkir almannahagsmunir komi til og þá aðeins í ýtrustu undantekningartilvikum.

Í 15. grein samkeppnislaga er kveðið á um undantekningu frá banni við samráði fyrirtækja. Þannig er viðurkennt í samkeppnisrétti að við tilteknar aðstæður getur samvinna fyrirtækja verið til þess fallin að stuðla að aukinni hagræðingu og skilvirkni. Ekkert liggur fyrir um það hvers vegna afurðastöðvar gátu ekki nýtt sér þessa heimild til að ná fram þeirri hagræðingu sem er talin nauðsynleg. Ekki er að sjá að það hafi einu sinni verið reynt.

Til að Samkeppniseftirlitið heimili undanþágu í samræmi við 15 gr. þurfa jákvæð áhrif samstarfsins að vega þyngra en þau neikvæðu. Þannig má segja að breytingarnar á búvörulögunum hafi verið óþarfar, nema þá aðeins að afurðastöðvarnar ætli sér ekki að veita neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi samvinnu eða samruna sem þau vilja ráðast í.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.