Stefna Neytenda-
samtakanna

Samþykkt á aðalfundi Neytendasamtakanna 28. október 2023.

 

Hlutverk 

Hlutverk Neytendasamtakanna er að standa vörð um og efla hag og réttindi neytenda.

Sterkir, öruggir og fróðir neytendur eru forsenda fyrir heilbrigðu hagkerfi, öflugu atvinnulífi og sjálfbærri þróun í umhverfislegu, félagslegu og efnahagslegu tilliti. Blekkingar og afvegaleiðing heyra sögunni til. Neytendur njóta skjóls laga, eftirlits og eftirfylgni stjórnvalda með réttindum þeirra og vernd.

Framtíðarsýn

Neytendur hafa rödd sem tekið er eftir og geta tekið meðvitaðar ákvarðanir.

Í framtíðarsýn Neytendasamtakanna geta allir nýtt sér krafta sína sem neytendur og tekið meðvitaðar ákvarðanir, óháð aðstæðum og búsetu. Blekkingar og afvegaleiðing heyra sögunni til. Neytendur njóta skjóls laga, eftirlits og eftirfylgni stjórnvalda með réttindum þeirra og vernd. Það er hlustað á rödd neytenda, bæði sem einstaklinga og sem hóps.

Sjónarhorn og nálgun ákvarðanatöku byggist á þörfum neytenda í daglegu lífi og á öflugum neytendarannsóknum og gögnum um hagi neytenda. Grunnkröfur neytenda, settar fram af Sameinuðu þjóðunum, eru leiðarljós samtakanna í baráttu og hagsmunagæslu.

Gildi

Gildi Neytendasamtakanna er eitt og það er byggt upp í kringum þá nálgun sem við viljum að einkenni vinnubrögð okkar og viðhorf:

Heilindi

-Við skiptumst á skoðunum og tökum ábyrgð á því sem við segjum og gerum.

-Við leggjum áherslu á að hlusta á skoðanir annarra, taka þær alvarlega og svara með virðingu.

-Við setjum okkur í spor neytandans og skoðum málin út frá sjónarhóli hans.

Grunnkröfur neytenda

Neytendasamtökin vinna í samstarfi norrænna, evrópskra og alþjóðlegra neytendasamtaka. Leiðarvísir og grunnur að starfi Neytendasamtakanna eru átta grunnkröfur neytenda settar fram af Sameinuðu þjóðunum. Allur almenningur, án tillits til tekna eða félagslegrar stöðu, á að njóta lágmarksréttinda sem neytendur í samræmi við eftirfarandi grunnkröfur:

  1. Réttur til að fá grunnþörfum mætt

Að hafa aðgang að nauðsynjavörum og þjónustu, en þar falla undir t.d. matvæli, fatnaður, húsnæði, heilbrigðisþjónusta, menntun, vatn og hreinlæti.

  1. Réttur til öryggis

Að njóta verndar gagnvart vörum, framleiðsluháttum og þjónustu sem ógna öryggi og lífi neytenda.

  1. Réttur til upplýsinga

Að fá nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið upplýsta ákvörðun og njóta verndar gegn misvísandi og röngum upplýsingum.

  1. Réttur til að velja

Að geta valið milli fjölbreytts varnings og þjónustu á samkeppnishæfu verði og af fullnægjandi gæðum.

  1. Réttur til áheyrnar

Að hagsmuna neytenda sé gætt við ákvarðanatöku hjá stjórnvöldum og við þróun á vörum og þjónustu.

  1. Réttur til úrlausnar

Að eiga rétt á sanngjarnri úrlausn á réttmætum kröfum, sem og bótakröfum í tengslum við kaup á ófullnægjandi vörum og þjónustu.

  1. Réttur til neytendafræðslu

Að eiga rétt á þekkingu og færni til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um val á vörum og þjónustu auk þess að hafa þekkingu á grundvallarréttindum og skyldum neytenda.

  1. Réttur til heilbrigðs umhverfis

Að lifa og starfa í umhverfi sem ógnar ekki velferð núlifandi né komandi kynslóða.

Þá bæta Neytendasamtökin við níundu grunnkröfunni í samræmi við kröfur norrænna systursamtaka:

  1. Réttur til stafrænnar neytendaverndar

Að jafnt aðgengi allra sé tryggt, að öryggi og heiðarleiki ráði ferð í stafrænum vörum og þjónustu, og að neytendur geti gert sér fulla grein fyrir öllum skilmálum.

Sjálfbærni er sífellt að verða mikilvægari í neytendahreyfingum um heim allan.  Þess vegna líta Neytendasamtökin einnig til hinna 17 heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Meginmarkmið Neytendasamtakanna

Stefna Neytendasamtakanna er byggð á grunnkröfum neytenda og í kringum þrjú meginmarkmið. Hvert og eitt þeirra á að hafa áhrif á starfsemi okkar og stuðla að því að framtíðarsýn samtakanna verði að veruleika.

Að neytendur verði meðvitaðir og gagnrýnir

Neytendasamtökin vinna að því að neytendur búi yfir þekkingu og gagnrýnni hugsun til að geta tekið upplýstar og sjálfbærar ákvarðanir.

-VIÐ erum sýnileg og tökum þátt í almennri umræðu um neytendamál og stöndum fyrir herferðum í einstaka málum.

-VIÐ beitum okkur fyrir öflugum neytendarannsóknum til að efla þekkingu.

-VIÐ fræðum neytendur um mál sem þá snertir með fjölbreyttum leiðum.

Að neytendur njóti fullra réttinda og verndar

Neytendasamtökin gæta hagsmuna neytenda og krefjast þess að tekið sé mið af kröfum neytenda og að umgjörð neytendamála sé sterk.

-VIÐ köllum eftir skýrri neytendastefnu stjórnvalda og að neytendamál séu sett á oddinn.

-VIÐ vekjum athygli á brotalömum í neytendamálum með virku samtali við stjórnvöld og atvinnulífið.

-VIÐ sinnum öflugri ráðgjöf við félagsmenn og vísum þeim leið um réttindi þeirra og skyldur.

Að neytendur fái hagsmunum sínum og réttindum framgengt

Neytendasamtökin eru til staðar fyrir neytendur, upplýsa um réttindi þeirra og annast milligöngu fyrir félagsfólk til að ná fram þeim rétti.

-VIÐ forgangsröðum baráttumálum sem geta leitt til kerfisbreytinga og haft jákvæð áhrif á daglegt líf neytenda.

-VIÐ vinnum með hagsmunasamtökum og einstökum fyrirtækjum með það fyrir augum að ná fram breytingum og endurbótum..

-VIÐ höfum áhrif á lagasetningu, meðal annars með umsögnum um þingmál og almennri hagsmunagæslu.

Forgangsröðun

Verkefni Neytendasamtakanna eru víðfeðm. Þegar forgangsröðun er nauðsynleg notast Neytendasamtökin við eftirfarandi spurningar:

– Er málið neytendamál?

– Hafa Neytendasamtökin tækifæri til að hafa áhrif og ná árangri?

– Hefur málið fordæmisgildi eða skírskotun fyrir neytendur almennt?

– Samræmist málið stefnu samtakanna?

– Eru eða ættu aðrir hagsmunaaðilar að vinna að málinu?

– Er neytandi félagsmaður?

Notkun stefnunnar

Stefna Neytendasamtakanna er eitt mikilvægasta stýritæki samtakanna á eftir lögum félagsins og varðar starf þeirra og skipulagningu. Stefnan er lesin og nýtist af mörgum hópum. Meðal þeirra mikilvægustu eru:

Félagsmenn

– til að félagsmenn sjái ávinning af aðild sinni og geti metið árangur samtakanna.

Starfsmenn og stjórnendur

– svo þau geti skipulagt, unnið og fylgst með daglegu starfi og tengt það beint við stefnuna.

Ráðandi öfl í stjórnmálum og viðskiptum

– svo þau skilji hlutverk Neytendasamtakanna, markmið þeirra og mikilvægi fyrir efnahag og umhverfi svo þau geti unnið með þeim að markmiðunum.

 

 

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.