Stjórn er kosin til tveggja ára og er þannig skipuð:
Formaður:
Breki Karlsson (kjörinn 2024-2026)
Kjörin 2023 til 2025:
Auður Alfa Ólafsdóttir, varaformaður
Benjamín Julian
Flóki Guðmundsson
Guðmundur Gunnarsson
Pálmey Helga Gísladóttir
Virpi Jokinen
Kjörin 2023 til 2025:
Hildigunnur Hafsteinsdóttir
Margrét Dóra Ragnarsdóttir
Salka Sól Styrmisdóttir
Sigurður Másson, ritari stjórnar
Stefán Hrafn Jónsson
Þórarinn Stefánsson, gjaldkeri stjórnar
Starfsreglur stjórnar Neytendasamtakanna
1. gr. Hlutverk stjórnar
Verkefni stjórnar er lýst í 12. gr. samþykkta samtakanna (www.ns.is/log).
Í upphafi hvers kjörtímabils skal stjórn kjósa stjórnarmenn sem sinna störfum varaformanns, gjaldkera og ritara stjórnar. Öllum stjórnarmönnum er frjálst að bjóða sig fram í þau störf og ræðst kosning af atkvæðamagni. Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt ræður hlutkesti.
Hlutverki varaformanns er lýst í 11. gr. og hlutverki ritara í 13. gr. samþykkta samtakanna.
Gjaldkera stjórnar ber að fylgjast með bankayfirlitum samtakanna og að unnið sé samkvæmt reglum um fjármál í samþykktum samtakanna og starfsreglum þessum.
Stjórn ákvarðar laun framkvæmdastjóra og formanns. Stjórnarliðar þiggja ekki laun vegna stjórnarsetu.
Stjórn skal gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi og fara eftir siðareglum stjórnar samtakanna.
2. gr. Hlutverk framkvæmdastjóra
Verkefni framkvæmdastjóra er lýst í 7. og 12. gr. samþykkta samtakanna (www.ns.is/log). Framkvæmdastjóri gerir á hverju ári tillögu að rekstraráætlun næsta árs og ber hana undir stjórn til samþykktar. Allar skuldbindingar sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á rekstrarhæfi samtakanna og ekki er gert ráð fyrir í rekstraráætlun þarf stjórn að samþykkja sérstaklega. Framkvæmdastjóra ber að tilkynna stjórn um atburði eða atriði sem geta haft veruleg áhrif á rekstur samtakanna og ekki eru tilgreind í rekstraráætlun.
Framkvæmdastjóri getur borið fjárhagsleg álitamál undir gjaldkera stjórnar. Telji gjaldkeri að málið eigi erindi við stjórn skal það tekið upp á stjórnarfundi.
3. gr. Fundir stjórnar
Stjórnarfundum er lýst í 13. gr. samþykkta samtakanna (www.ns.is/log).
Leitast skal við að halda stjórnarfundi þannig að stjórn hittist í raun, en formaður getur lagt til að fundur verði alfarið haldinn á netinu. Óski stjórnarmaður þess, getur hán sótt stjórnarfund með rafrænum hætti.
Þegar mikið liggur við og ekki er gerlegt að halda fund, getur meirihluti stjórnar tekið ákvarðanir á milli funda með rafrænum og sannanlegum hætti, en þó þannig að ákvörðunin sé færð í fundargerð næsta stjórnarfundar.
Á fundum stjórnar skal formaður leggja til þau mál og þau gögn sem þarf að fjalla um á fundinum. Fyrir hvern fund skal formaður, með rafrænum hætti, senda stjórn fundarboð með dagskrá fundarins og öll fundargögn skulu fylgja með fundarboði, nema ómögulegt sé að senda slík gögn samhliða fundarboði eða ef um trúnaðargögn er að ræða. Stjórnarmönnum er jafnframt heimilt að fara fram á það fyrir hvern fund stjórnar að tiltekin atriði skuli rædd.
Á stjórnarfundum skal formaður leggja áherslu á að leggja fram mál án þess að stjórna útkomunni.
Á fundum stjórnar skal framkvæmdastjóri upplýsa stjórn um fjárhagsstöðu samtakanna og skulu rauntölur bornar saman við rekstraráætlun á þriggja mánaða fresti, og oftar óski stjórn þess. Stjórn getur óskað eftir því að framkvæmdastjóri sendi rafrænt yfirlit yfir stöðu bankareikninga, yfirlit yfir útistandandi kröfur næstu 30 daga og yfirlit viðskiptakrafna til greiðslu næstu 30 daga.
Fundargerð skal haldin um fundi stjórnar þar sem ákvörðunartökur eru rekjanlegar. Birta skal fundargerð á vefsíðu samtakanna, þó skal ekki birta upplýsingar um þau mál sem trúnaðar þarf að ríkja um. Bóka skal trúnaðarmál sérstaklega utan fundagerðar.
4. gr. Ábyrgð stjórnar
Um ábyrgð stjórnar Neytendasamtakanna á rekstri og starfsemi samtakanna er fjallað í 12. gr. samþykkta samtakanna (www.ns.is/log). Stjórnarmenn eru ábyrgir fyrir því að góðir stjórnarhættir séu viðhafðir og skulu hafa eftirlit með því að samtökin geti staðið við skuldbindingar sínar.
5. gr. Hæfi og hagsmunatengsl
Um almennt hæfi stjórnarmanna til meðferðar einstakra mála fer samkvæmt almennum hæfisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og samþykktum Neytendasamtakanna, sér í lagi 10. gr. Skal sá sem er vanhæfur ekki taka þátt í meðferð máls eða undirbúningi þess. Stjórnarmenn gæta sjálfir að hæfi sínu og skuldbinda sig til þess að gera formanni samtakanna viðvart ef þeir telja sig ekki hæfa til meðferðar máls. Stjórn er heimilt að meta hæfi viðkomandi stjórnarmanns ef vafi er um það hvort viðkomandi sé hæfur eður ei. Stjórnarmaður skal ekki taka ákvörðun sem varðar aðila tengda honum og hafi viðkomandi stjórnarmaður ekki talið sig vanhæfan til meðferðar slíks máls skal hann þó gera stjórn grein fyrir tengslum sínum og mun stjórn þá meta hæfi hans.
Stjórn þiggur ekki boðsferðir, gjafir eða styrki sem tengjast stjórnarsetu þeirra nema slíkt hafi skýrt gildi fyrir samtökin og hafi verið borið undir stjórnarfund. Ákvarðanir um þátttöku stjórnar- eða starfsmanna í boðs- eða kynnisferðum skulu teknar af stjórn.
6. gr. Þagnar- og trúnaðarskylda
Stjórnarmönnum ber að gæta þagnarskyldu um það sem þeir kunna að verða áskynja í störfum sínum og leynt á að fara. Stjórnarmenn skulu undirrita yfirlýsingu um trúnaðarskyldu þegar þeir taka sæti í stjórn samtakanna.
7. gr. Meðferð persónuupplýsinga
Þegar unnið er með persónulegar upplýsingar eða upplýsingar sem eru til þess fallnar að geta verið persónugreinanlegar, þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til ákveðins einstaklings, skal farið með slíkt samkvæmt lögum um persónuvernd nr. 77/2000. Þegar ekki lengur er málefnaleg ástæða til þess að varðveita slík gögn, t.a.m. með vísan til laga um persónuvernd, skal þeim eytt.
8. gr. Fjármál
Meðferð fjármuna er samkvæmt viðurkenndum bókhalds- og reikningsskilavenjum og endurskoðun reikninga í höndum kjörinna skoðunarmanna og/eða löggiltra endurskoðenda. Upplýsingar um fjárhag og rekstur eru gegnsæjar, settar fram á einfaldan og skýran máta. Allar lánveitingar til stjórnarmanna, starfsmanna eða annarra aðila eru óheimilar. Gjaldkeri stjórnar og formaður hafa skoðunaraðgang að öllum reikningum félagsins.
9. gr. Fjölmiðlar og ábyrgð út á við
Formaður samtakanna kemur að jafnaði fram fyrir hönd samtakanna á opinberum vettvangi, t.a.m. í samskiptum við fjölmiðla. Þó skal leitast við að sýna breidd samtakanna og sérfræðiþekkingu starfsfólks samtakanna með því að starfsfólk svari fyrir sín sérfræðisvið þegar það á við.
Stjórnarmönnum, öðrum en formanni samtakanna, er heimilt að koma fram fyrir hönd samtakanna á opinberum vettvangi með samþykki formanns eða meirihluta stjórnar.
Reglur þessar taka þegar gildi.
Samþykkt á stjórnarfundi, 13. desember 2024.