Fréttir

Svör stjórnmálaflokka – 1 af 5

Um stjórnskipan neytendamála

Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem standa vörð um og efla réttindi neytenda. Við erum öll neytendur og því afar mikilvægt að stjórnmálaflokkar hafi skýra stefnu í neytendamálum og að neytendur séu upplýstir um hana, ekki síst nú í aðdraganda Alþingiskosninga. Stjórn Neytendasamtakanna sendi stjórnmálaflokkum sem bjóða sig fram til alþingis fimm spurningar og óskaði svara. Hér er fyrsta spurningin og svör flokkanna við henni:

Neytendasamtökin vilja stórefla neytendavernd með því meðal annars að eyða óvissu um stjórnskipan neytendamála og telja að efla þurfi eftirlitsstofnanir á sviði neytendamála (meðal annars Neytendastofu). Hver er afstaða flokksins til þess? Hvaða endurbótum mun flokkurinn vinna að á þessu sviði á næsta kjörtímabili og hvernig?

Framsóknarflokkurinn
Neytendamál hafa tengingu við flesta þætti samfélagsins. Við erum sammála því að það sé óvissa um stjórnskipan neytendamála og því sé nauðsynlegt að gera heildarúttekt á löggjöf um neytendavernd og neytendarétt og hvernig megi styrkja stöðu íslenskra neytenda. Samhliða ætti að skoða þær tillögur sem fram koma í þingsályktunartillögu sem flutt var á Alþingi af þingmönnum sex flokka (þ.á.m. Framsóknar) sl. vetur um fjögurra ára áætlun um ýmis mál til hagsbóta fyrir neytendur. Þetta verkefni þarf vandaðan undirbúning og að henni þurfa að koma fleiri hagaðilar en bara Neytendasamtökin, en við teljum þetta skynsamlega leið til vinna nauðsynlegum endurbótum framgang. Við leggjum ekki fram neinar fyrirfram tilbúnar lausnir á þessu sviði en viljum leita þeirra með samvinnu og samtali um umbætur við Neytendasamtökin og aðra ef við fáum umboð kjósenda til þeirrar vinnu.

Píratar
Í kosningastefnu Pírata fyrir komandi kosningar er sérstaklega fjallað um eflingu neytendamála:
„Efla skal gæða- og eftirlitsstofnanir sem tryggja heilbrigði og sanngirni hagkerfisins. Setja skal sjálfstætt embætti skattrannsóknarstjóri á fót á ný. Samkeppniseftirlitið og Fiskistofa skulu fá nægt fjármagn til að sinna eftirliti sínu og framtíð Neytendastofu tryggð. Tryggja skal umboðsmanni alþingis fjármagn til að hefja frumkvæðisrannsóknir á ný.“
Í kosningastefnunni segir jafnframt, þar sem fjallað er um að auka aðgengi fólks að réttlæti: „Við viljum efla starf Neytendasamtakanna, ekki síst við að leysa ágreining milli leigutaka og leigusala.“
Það er kominn tími til þess að þingið sinni einu stærsta hagsmunamáli almennings, neytendamálum. Þar er af nægum málum að taka eins og Neytendasamtökin hafa kynnt þingflokki Pírata á kjörtímabilinu sem er að líða, svo sem varðandi smálán og greiðslusögu fólks hjá CreditInfo.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn
Við þurfum sterka eftirlitsaðila sem eru nógu sjálfstæðir til að standa í lappirnar og þora að taka ákvarðanir. Eins og er hefur Neytendastofa ekki nægilega burði til þess. Eðlilegt væri að taka mið af því hvernig þessum málum er háttað í þeim löndum sem við berum okkur saman við þ.e. norðurlöndin. Auka þyrfti fjármagn og setja Neytendasamtökin á fjárlög eins og tíðkast í samanburðarlöndum okkar.
Flokkurinn mun leggja fram frumvörp til lagabreytinga til að styrkja stöðu neytenda og líta til nágrannalanda okkar til samræmingar og upplýsinga. Það er skoðun flokksins að sterk neytendavernd sé til hagsbóta bæði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Vinstri hreyfingin – Grænt framboð
Í stefnu VG um neytendamál er mikilvægi neytendaverndar áréttað sem og samhengið við umhverfisvernd. Þar stendur jafnframt að enn skorti verulega á að stuðningur hins opinbera við neytendur og neytendavernd geti talist nægilega öflug og brýn þörf er fyrir heildstæða löggjöf á sviði neytendamála. Lögð er áhersla á skilvirkt markaðseftirlit og öflugt samstarf eftirlitsaðila sem og mikilvægi þess að réttindi neytenda séu tryggð m.a. með eftirliti um birtingu auglýsinga.
Síðastliðna tvo þingvetur hefur þingflokksformaður VG, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, verið fyrsti flutningsmaður á tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára áætlun um ýmis mál til hagsbóta fyrir neytendur. Þar segir meðal annars í greinargerð að tryggja þurfi Neytendastofu nægilegt fjármagn til þess að anna málafjölda og sinna lögbundnu eftirliti og að með því að því að styrkja leiðbeiningar- og kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna mundi réttarstaða neytenda batna mikið. Kemur að auki fram að nauðsynlegt sé að eftirlitsaðilar hafi viðunandi valdheimildir og geti þannig sinnt öflugu eftirliti, þ.m.t. haft ríka frumkvæðisskyldu til rannsókna, sem og aukið vitund neytenda og veitt samkeppnislegt aðhald. Þá þurfi að skoða skörun milli verkefna Neytendastofu og annarra eftirlitsaðila.
VG er reiðubúið að fylgja eftir þessum atriðum hvort tveggja með lagabreytingum og auknu fjármagni.

Viðreisn
Óvissa og flókin stjórnsýsla er aldrei til bóta. Neytendamál hafa því miður verið hálfgerð hornreka í íslenskri stjórnsýslu. Því þarf að breyta. Fyrsta skrefið er vönduð greiningarvinna á stöðunni og á lærdómi annarra þjóða. Í framhaldinu þarf að móta heildarstefnu í neytendamálum ásamt tímasettum aðgerðum og fullnægjandi stuðningi við eftirlitsstofnanir á sviði neytendamála. Þetta er vel gerlegt og ætti að geta leitt til hraðra kerfisbreytinga á kjörtímabilinu.

Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið að því að efla neytendavernd ekki síst með því að tryggja eðlilega og sanngjarna samkeppni á neytendamarkaði. Flokkurinn telur skynsamlegt að huga að því að sameina Samkeppniseftirlitið og hluta Neytendastofu, en um leið gera samstarfssamning við Neytendasamtökin um að sinna ákveðnum verkefnum sem nú eru á sviði Neytendastofu. Nú þegar hefur verið gerður samningur við Neytendasamtökin sem var aukið við á þessu ári um utanumhald ákveðinna verkefna. Samstarf ríkisins og Neytendasamtakanna hefur gefist vel og því ber að auka það og efla í tengslum við uppstokkun á stjórnskipan og eftirlitsstofnana á sviði neytendamála.

Sósíalistaflokkur Íslands
Sósíalistaflokkurinn hefur ekki markað sér sérstaka stefnu í neytendamálum eða einstaka atriðum sem lúta að þeim, að öðru leiti en því að flokkurinn starfar í anda sannrar jafnaðarmennsku og þar eru almannahagsmunir, sem einnig eru hagsmunir neytenda, ávallt framar sérhagsmunum.
Flokkurinn er á því að það þurfi að stórefla neytendavernd út frá hagsmunum hins almenna neytenda og koma málaflokknum þannig fyrir að hann sé raunveruleg hjálp fyrir neytendur gagnvart sölumennsku og braski nútíma viðskiptahátta. Mín tillaga yrði sú að Neytendasamtökin fengju framlög frá ríkissjóði til að manna að minnsta kosti fimm stöður svo samtökin gætu haldið uppi öflugri neytendavernd. Samtökin/Neytendastofa fengi öflugar heimildir til rannsókna á hvers kyns aðstæðum sem upp gætu komið, til dæmis varðandi upprunavottun matvæla og eða innhaldslýsingar þeirra. Einnig þyrfti að koma á sterkari ákvæðum um sannleiksgildi auglýsinga og tilboða.

Samfylking – Jafnaðaramannaflokkur Íslands
Samfylkingin telur að það þurfi að styrkja og skýra regluverk í neytendamálum, ekki síst með því að styðja við eftirlitsstofnanir á borð við samkeppniseftirlitið og neytendastofu.
Hringlandaháttur á sviði neytendaverndar hefur haft neikvæð áhrif á íslenska neytendur og ýtt undir fákeppni. Við teljum að sterk samkeppni með öflugu og sanngjörnu samkeppniseftirliti sé lykill að heilbrigðu umhverfi fyrir neytendur.
Samfylkingin leggst gegn þeim áformum núverandi ríkisstjórnar sem uppi eru um að leggja niður Neytendastofu í skrefum. Samfylkingin vill að gerð verði heildarendurskoðun og þarfagreining á stöðu neytendamála hér á landi og komumst við í ríkisstjórn mun það vera að koma á betri neytendavernd að Norrænni fyrirmynd.
Samfylkingin sem Evrópuflokkur styður aukið samstarf milli Norðurlandanna og Evrópusambandsins á sviði neytendaverndar og við teljum að það séu frekari tækifæri til samvinnu. Þar má til að mynda nefnda frekari samvinnu og eftirliti í kjölfar komandi tilskipana þaðan er varða neytendavernd á stafræna innri markaðinum sem mun varða Ísland og íslenska neytendur.
Önnur norræn ríki hafa öfluga neytendavernd og mættu stjórnvöld líta til reynslu þeirra og skoða vel kosti og galla þess að setja á fót embætti umboðsmanns neytenda sem hefði ríkar valdheimildir. Neytendaréttarsvið gæti heyrt undir slíkt embætti svo dæmi sé tekið. Neytendamál eru mjög mikilvæg og brýnt að þeim sé búinn skýr rammi til framtíðar. Órökstuddar breytingar líkt og gripið var til á síðasta þingi eru málaflokknum síst til framdráttar.

Miðflokkurinn
Það þarf að bæta vernd neytenda á Íslandi en það þarf að meta hvort fleiri eftirlitsstofnanir séu rétta leiðin til þess með þeim kostnaði sem því fylgir. Besta neytendaverndin fellst í árvekni og þekkingu neytenda sjálfra og samtökum þeirra eins og Neytendasamtökin sannarlega eru. Þá er mikilvægt að neytendur séu upplýstir um uppruna og innihald þeirra vöru sem þeim stendur til boða. Við sjáum að þegar markaðsaðstæður eru eðlilegar þá velur fólk íslenska framleiðslu. En það er hart að henni sótt, nú eru flutt inn matvæli og seld þannig að neytendur eiga oft á tíðum erfitt með að átta sig á uppruna þeirra. Þetta þarf að laga.

Flokkur fólksins
Flokkur fólksins er heilshugar fylgjandi því að stórefla neytendavernd og að stjórnskipan neytendamála sé gerð skýrari. Að okkar mati þarf aðallega að stórauka fjárveitingar til Neytendastofu og sambærilegra eftirlitsstofnana svo þær geti tryggt sér nægan mannafla til að ráða við verkefni sín á sviði neytendaverndar með sóma og viðunandi málshraða. Neytendur þurfa að geta gengið að einum stað þar sem þeir fái leiðbeiningar um réttindi sín og í hvaða farvegi þeir geti lagt mál sín hjá þeim stofnunum og úrskurðarnefndum sem viðkomandi mál fellur undir í hverju tilviki, hjá sérstöku embætti sem yrði komið á fót eða hjá óháðum samtökum neytenda sem fengju fjármagn til þess verkefnis.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.