Fréttir

Þá getum við eins flutt sand til Sahara

Fram hefur komið í fjölmiðlum að erlendir ísmolar séu seldir í íslenskum verslunum á mun lægra verði en þeir íslensku. Jafnframt hefur verið gagnrýnt að upprunalands á erlendum ísmolum sé ekki sérstaklega tilgreint á umbúðum. Guðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, skoraði á mig „að fara yfir þessi mál og krefjast vottunar og ærlegrar merkingar á upprunalandinu.“

Mér er bæði ljúft og skylt að verða við áskorun Guðna. Ég gerði mér ferð út í búð og skoðaði innfluttu ísmolana og umbúðir þeirra. Í þeirri verslun sem ég heimsótti voru upplýsingar um framleiðanda og upprunaland á umbúðum. Sérstaklega var tekið fram að ísmolarnir væru úr hreinu norsku vatni.

Nú er mér tjáð að í verslunum hér séu ísmolar frá fleiri löndum og er talað um Bretland og Bandaríkin í því efni. Rannsókn mín var ekki vísindaleg en hún gefur til kynna að upprunamerkingar á umbúðum séu til staðar, alla vega á norska ísnum.

Það er síðan áleitin spurning hvers vegna í ósköpunum verið er að flytja ís til Íslands? Og hvernig stendur á því að erlendur ís sem búið er að flytja jafnvel þúsundir kílómetra yfir hafið í frystigámi getur verið ódýrari en íslenskur ís, sem væntanlega er framleiddur úr íslensku lindarvatni? Er álagningin hjá framleiðendum íslensks íss svona mikil? Eru kannski viðskiptatækifæri fólgin í því hjá íslenskum bændum og öðrum athafnamönnum að frysta íslenskt lindarvatn og selja það á vægara verði en núverandi framleiðendur?

Þó að margar erlendar stórborgir hafi gripið til þess ráðs að hreinsa og endurvinna vatn til að dæla því aftur til notenda sem drykkjarvatn verður að teljast líklegt að vatn, sem er sagt vera hreint norskt vatn, sé fengið úr norskri náttúru fremur en endurvinnslustöð, án þess að hægt sé að fullyrða neitt í þeim efnum.

Margir horfa öfundaraugum til Íslands, sem býr yfir gnægð drykkjarvatns á sama tíma og vatnsskortur gerir vart við sig víða erlendis. Því kemur það mjög á óvart að unnt sé að flytja frosið erlent vatn með tilheyrandi kostnaði og umhverfisáhrifum yfir hafið til Íslands og selja á lægra verði til neytenda en vatnið sem streymir fram úr fjallalindum hér um allt land.

En aftur að upprunamerkingum. Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir upprunamerkingum á öllum matvælum og á síðasta þingi Neytendasamtakanna, sem haldið var 22. október sl., var svohljóðandi áhersla Neytendasamtakanna samþykkt:

„Neytendasamtökin gera kröfu um upprunamerkingar á öllum matvælum, hvort sem þær eru í lausu í verslunum, í neytendaumbúðum, magninnkaupum (þ.m.t. á ópökkuðum varningi), á veitingahúsum eða í mötuneytum.“

Neytendasamtökin lýsa furðu sinni yfir því að erlendir ísmolar geti verið seldir á lægra verði en þeir sem framleiddir eru hér á landi. Ætli það sé góður markaður fyrir íslenskan sand í Sahara?

Ólafur Arnarson
formaður Neytendasamtakanna

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.