Fréttir

Um tímann, vatnið og rafmagnið

Í gegnum tíðina hefur verið litið svo á að aðgengi að hreinu vatni séu hrein og klár mannréttindi. Samfélagslegur sáttmáli ríkir um að skylda öll sveitarfélög til að afhenda heimilum landsins vatn á viðráðanlegu verði og með afar hóflegri arðsemi.

Lengi vel laut rafmagnið sömu lögmálum. Rafvæðingin í byrjun síðustu aldar var lífskjarabylting og aðgangur að raforku á sanngjörnu verði er enn grundvöllur velsældar heimilanna í landinu.  Stærstu fyrirtækin sem framleiða um 90% af raforku á Íslandi, eru enn í eigu almennings, heimilanna í landinu, sem þó nota aðeins um 5 % raforkunnar. 

Eftirspurn eftir raforku fer vaxandi, og virðist óseðjandi. Sífellt fleiri orkufrek fyrirtæki krefjast      meiri raforku. Heimilin eru ekki varin fyrir þessari ásókn. Í núverandi kerfi eru þau í samkeppni við Bitcoin-verksmiðjur um raforkuna, bæði hvað varðar verð hennar og afhendingaröryggi. Sá sem borgar mest fær raforkuna.Það er óásættanlegt að heimilin í landinu séu í beinni samkeppni við stór og öflug alþjóðafyrirtæki sem með langtímasamningum geta tryggt sína raforkuþörf áður en grundvallarþörfum fyrir raforku í samfélaginu á viðráðanlegu verði er mætt.    

Íslenskri raforkulöggjöf ber að vera í samræmi við regluverk Evrópusambandsins. Regluverkið gerir ráð fyrir að ríkin komu upp vörnum fyrir viðkvæma notendur raforku og viðkvæmir notendur eiga rétt á raforku á sanngjörnu verði. Markmiðið er að koma í veg fyrir að stórnotendur geti keypt svo mikla orku að ekki verði næg orka eftir fyrir viðkvæma notendur og stuðli þannig að orkuskorti. Til hóps viðkvæmra notenda teljast almennir heimilisnotendur og þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki og stofnanir, sem veita almenningi bráðaþjónustu og tryggja öryggi þeirra. Það er gert ráð fyrir að þessi hópur sé ávallt í forgangi hjá öllum sem koma að raforkuþjónustu; framleiðendum, flutningsfyrirtækjum, raforkusölum og dreifiveitum.

Samfélagssátt um raforku til heimila

Í júní á síðast ári skilaði starfshópur um orkuöryggi tillögum sem fjalla um það hvernig á að koma í veg fyrir ástand af því tagi, að framboð fullnægi ekki eftirspurn. Starfshópurinn, sem í sátu fulltrúar allra hagaðila, náði saman um niðurstöðu sem ráðherra orkumála kallaði eftir, þ.e. að tryggja raforkuöryggi til almennings.     

Fyrir Alþingi liggur frumvarp þar sem lausn starfshópsins virðist hafa gufað upp að verulegu leyti. Í stað þess að koma í veg fyrir raforkuskort til viðkvæmra notenda, og þar með neyðarástand, gerir frumvarpið ráð fyrir fyrirkomulagi sem gripið er til þegar neyðarástand hefur þegar skapast. Í stað þess að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann er gert ráð fyrir að reipi sé kastað til barnsins þegar það hefur fallið í hann. Fyrirhyggja víkur fyrir reddingum. Ekkert kemur í veg fyrir að heimilisnotendur verði undir í samkeppni við stórnotendur um raforku.

Að mati Landverndar og Neytendasamtakanna er nauðsynlegt að leiða tillögur starfshópsins í lög til að koma í veg fyrir fyrirsjáanlegan og tilbúinn raforkuskort heimilanna. En í þeim er stórum raforkuframleiðendum gert að tryggja heimilum og þjóðhagslega mikilvæga      starfsemi raforku. Einungis þannig er hægt að tryggja fyrirsjáanleika og raforkuöryggi fyrir viðkvæma notendur og koma í veg fyrir ástand þar sem heimilin í landinu væru án raforku og teknar yrðu óundirbúnar og ólýðræðislegar skyndiákvarðanir í orkumálum til. Samtökin eru ekki ein um þessar áhyggjur. Þær koma einnig fram í umsögn Orkustofnunar, sem og í nýlegum viðtölum við orkumálasstjóra.

Eftirspurn til stærri notenda og stórnotenda eftir ódýrri orku er því sem næst óendaleg. Ef elta á alla þá sem telja sig hafa þörf fyrir raforku í framtíðinni yrði Ísland fljótlega uppselt, og stórum hluta af náttúru, landslagi og víðernum landsins spillt. Heimilin sætu eftir með sárt ennið og umtalsvert hærri raforkukostnað. Í þessum málum fara því saman beinir hagsmunir í rekstri heimila og verndun á náttúru landsins.

Málið er nú til meðferðar á Alþingi. Landvernd og Neytendasamtökin hafa gert      athugasemdir við frumvarpið og vænta þess að Alþingi setji hagsmuni heimilanna í forgang þegar það fjallar um, afgreiðir og vonandi breytir frumvarpinu.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna
Þorgerður M. Þorbjarnardóttir formaður Landverndar

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. maí 2023

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.