Fréttir

Úrskurðir í bílastæðamálum

iStoc.com/alazur

Neytendasamtökin vekja athygli á tveimur nýlegum úrskurðum kærunefndar vöru- og þjónustukaupa sem varða innheimtu bílastæðagjalda.

Mikið hefur verið kvartað yfir bílastæðagjöldum og þá ekki síst vangreiðslugjöldin en þau leggjast á bílastæðagjald sé krafa ekki greidd innan tilskilins tíma.

Í báðum málum var fallist á kröfu neytenda, annars vegar vegna skorts á sönnun fyrir notkun bílastæðis og hins vegar vegna ófullnægjandi upplýsinga um vangreiðslugjaldið á skiltum bílastæðisins.

Skortur á sönnun fyrir notkun bílastæðis

Í öðru málinu var neytandinn krafinn um 4.559 krónur fyrir notkun á bílastæði, þar af 3.500 krónur í vangreiðslugjald. Neytandinn mótmælti kröfunni og bar fyrir sig að hann hefði ekki lagt bíl sínum á stæðinu umræddan dag.

Kærunefndin óskaði eftir ljósmyndum frá rekstraraðila bílastæðisins sem gætu staðfest viðveru bifreiðarinnar. Rekstraraðilinn neitaði að afhenda gögnin með vísan til persónuverndarsjónarmiða.

Nefndin taldi að með því hefði rekstraraðilinn ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að þjónusta hefði í raun verið veitt. Þar að auki lagði nefndin áherslu á að neytanda yrði ekki gert að greiða vegna viðveru á bílastæði nema það hefði sannanlega verið hann sem nýtti sér þjónustuna í umrætt sinn. Sjá nánar umfjöllun um dóm Hæstaréttar. Var því fallist á kröfu neytandans um að fella niður reikninginn í heild sinni, að fjárhæð 4.559 krónur.

Ófullnægjandi upplýsingagjöf um vangreiðslugjald

Í hinu málinu var óumdeilt að neytandi hafði lagt bifreið sinni á gjaldskylt stæði án þess að greiða fyrir þjónustuna samdægurs. Hann var í kjölfarið rukkaður um alls 5.750 krónur vegna viðverunnar, þar af voru 4.500 krónur í vangreiðslugjald sem var síðar lækkað í 2.250 kr.

Kærunefndin taldi að upplýsingaskilti á bílastæðinu hefðu hvorki veitt nægilega skýrar upplýsingar um innheimtu vangreiðslugjalds, ef ekki væri greitt samdægurs, né fjárhæð gjaldsins sem var talin tiltölulega há. Á þeim grundvelli féllst nefndin á endurgreiðslu vangreiðslugjaldsins að fjárhæð 2.250 krónur.

Nefndin féllst hins vegar ekki á frekari endurgreiðslu þar sem neytandinn hefði mátt gera ráð fyrir að kostnaður hlytist af innheimtu bílastæðagjaldsins fyrst hann greiddi ekki samdægurs líkt og venjan er í viðskiptum sem þessum.

Sjá einnig grein Neytendasamtakanna um bílastæðabaráttuna.  

Fréttir í sama dúr

Nýtt Neytendablað

Réttlát græn umskipti – alþjóðadagur neytendaréttar

Aðalfundur 10. apríl

Bætur vegna „þjálfunarflugs”

Málaskrá vor 2025

Framboð til stjórnar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.