Bresku neytendasamtökin Which? kalla eftir tafarlausum aðgerðum breskra flugmálayfirvalda gegn flugfélaginu Wizz Air vegna ógreiddra bóta til farþega þess. Meðal annars kalla samtökin eftir því að flugmálayfirvöld gangi formlega úr skugga um hvort lög hafi verið brotin og eftir atvikum svipti eða afturkalli starfsleyfi flugfélagsins. Samkvæmt Which? skuldar Wizz Air 1601 farþegum sínum 2,2 milljónir punda, sem samsvarar 390 milljónum króna í ógreiddar bætur, útlagðan kostnað og endurgreiðslur fargjalda. Skuld Wizz Air nemur um helmingi allra útistandandi skulda fjögurra stærstu flugfélaganna, þrátt fyrir að farþegafjöldi flugfélagsins sé einungis brot af heildarfarþegafjölda. Önnur flugfélög sem þurfi að taka sér tak eru easy Jet, Ryanair og Tui (sjá: hér og hér). Þá eru málefni fyrirtækisins af sama toga til skoðunar hjá BEUC, regnhlífarsamtökum neytenda í Evrópu.
Staða bótagreiðslna á Íslandi
Neytendasamtökin hafa fengið nokkurn fjölda tilkynninga frá félagsmönnum og öðrum farþegum um erfiðleika við að fá greiddar bætur frá Wizz Air, jafnvel þrátt fyrir tilmæli Samgöngustofu þar um.
Neytendasamtökin hafa því óskað eftir upplýsingum hjá Samgöngustofa, hvort hún búi yfir tölfræði um fylgni flugfélaga við úrskurði og ákvarðanir hennar. Jafnframt fóru Neytendasamtökin fram á að Samgöngustofa gerði úttekt á því hvort Wizz Air hafi brotið á sama hátt gegn réttindum íslenskra farþega og félagið er sakað um annarstaðar, og að hún grípi til viðeigandi aðgerða sé þannig í pottinn búið.
Raunasögur farþega
Neytendasamtökin fengu á sitt borð mál farþega sem ekki fékk greiddar réttmætar bætur frá Wizz air. Sá óskaði eftir milligöngu Samgöngustofu sem hafði samband við flugfélagið. Wizz Air viðurkenndi bótaskyldu og fékk Samgöngustofa vilyrði frá Wizz Air um að bæturnar yrðu greiddar. Þrátt fyrir það stóð félagið ekki við loforð sitt og dró í tæpt ár að greiða farþeganum réttmætar bætur.
Félagsmaður keypti flugmiða af Wizz Air til áfangastaðar í Evrópu. Nokkrum dögum síðar færði flugfélagið dagsetningu flugsins um nokkra daga, sem hentaði farþeganum ekki. Farþeginn reyndi ítrekað, en árangurslaust, að hafa samband við Wizz Air og keypti að lokum ferð með öðru flugfélagi.
Réttindi farþega
Réttarstaða flugfarþega þegar kemur að seinkunum og niðurfellingu flugs er góð, og flest flugfélög gera rétt gagnvart farþegum sínum. Neytendasamtökin hafa tekið saman upplýsingar um réttindi farþega sé flugi aflýst, því seinkað, farþega meinað um far eða vegna farangursvandræða: www.ns.is/flug.
Hægt er að sækja bætur beint til flugfélaga milligöngulaust.
Hér er þjónustusíða Icelandair.
Hér er þjónustusíða Play.
Flugfélög hafa 7 daga til að endurgreiða farþegum vegna niðurfellingar ferða. Í lögum er ekki tilgreind tímamörk vegna bótagreiðslna en Neytendasamtökin telja eðlilegt að sömu tímamörk eigi þar við. Viðurkenni flugfélagið ekki bótarétt, getur farþegi leitað til Samgöngustofu sem úrskurðar um málið innan þriggja mánaða, sjá hér.