Fréttir

Varúð – Notaðir bílar, falin gjöld?

Neytendasamtökin vara við því að lögveð geti hvílt á ökutækjum sem skipta um eigendur. Torvelt er fyrir kaupandur að staðfesta hvort veð hvíli á notuðum bíl við kaup. Samtökin hvetja væntanlega kaupendur til að sýna varúð við kaup á notuðum bílum og tryggingafyrirtæki til að nýta sér ekki þessa gloppu í lögum.  

Neytendasamtökunum hefur borist mál sem snýr að bíl sem var í eigu bílaleigu með áhvílandi tryggingariðgjöld. Í skjóli nýrra laga innheimtir tryggingafélagið vangoldin gjöld eldri eiganda ásamt áföllnum kostnaði af nýja eigandanum.

Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við samtökin og fengið frekari upplýsingar og aðstoð, sé þess óskað. Álag á símkerfið er mikið um þessar mundir og eru félagsmenn hvattir til að senda tölvpóst (ns@ns.is) með nafni, símanúmeri og hvað málið varðar. Sértu félagsmaður, verður haft samband við þig eins fljótt og auðið er. Hægt er að skrá sig hér.

Í upphafi árs tóku gildi lög nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar. Í 12. grein þeirra segir að vangoldin tryggingaiðgjöld, ásamt vöxtum og kostnaði, hvíli sem lögveð á ökutæki í tvö ár og falli ekki niður við eigendaskipti.

„Lögboðið vátryggingariðgjald ökutækis ásamt vöxtum og kostnaði hvílir sem lögveð á ökutækinu og gengur fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á því hvíla í tvö ár frá gjalddaga nema gjöldum til ríkissjóðs. Á grundvelli slíks lögveðs má krefjast nauðungarsölu á ökutæki án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Lögveðið fellur ekki niður við eigendaskipti.“

Nýr eigandi ökutækis gæti því þurft að greiða vangoldnar lögbundnar tryggingar fyrri eigenda, hafi þær ekki verið greiddar.

Því er afar æskilegt að kaupandi ökutækis kanni og fái staðfest hvort til staðar séu vangoldin tryggingaiðgjöld eftir 1.1.2020. Að öðrum kosti getur nýr eigandi (eða síðari eigendur) lent í því að þurfa að greiða þau. Slík könnun er þó í mörgum tilvikum torveld og íþyngjandi, til dæmis með tilliti til persónuverndarlaga. Samtökin brýna fyrir væntanlegum kaupendum að sýna aðgát og fá til dæmis fullvissu frá seljanda um að ekki hvíli vangoldin gjöld á ökutækinu.

Neytendasamtökin telja um augljósan galla í lögum að ræða, sem varla geti verið í samræmi við raunverulegan vilja löggjafans og beri því að leiðrétta hið snarasta. Hvetja samtökin samfélagslega ábyrg fyrirtæki til að nýta sér ekki lagagloppuna, sem neytendur eru svo berskjaldaðir fyrir.

Samtökin, ásamt Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og Bílgreinasambandinu, hafa tekið málið til rækilegrar skoðunar og er ákvörðunar um næstu skref að bíða innan skamms.

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.