Fréttir

Vaxtamálið fyrir EFTA dómstólinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú sent beiðni til EFTA-dómstólsins um ráðgefandi álit um lögmæti skilmála fasteignaláns Landsbankans um breytilega vexti. Um er að ræða eitt þeirra dómsmála sem höfðuð voru í tengslum við Vaxtamál Neytendasamtakanna. Héraðsdómur felldi úrskurð um að leitað skyldi ráðgefandi álits þann 23. júní sl., en Landsbankinn ákvað kæra þann úrskurð til Landsréttar. Landsréttur hafnaði rökum Landsbankans og hefur nú staðfest að leita beri ráðgefandi álits og því er beiðnin um ráðgefandi álit nú formlega komin til meðferðar EFTA-dómstólsins. Frestur málsaðila til að skila inn skriflegum rökstuðningi er til 17. janúar 2023.

Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem reiða sig á árgjöld félagsmanna. Því fleiri félagar, þeim mun öflugri samtök. Gerast félagi

Héraðsdómur hefur leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:

Samræmist það tilskipun 2014/17/ESB, sbr. einkum 24. gr. tilskipunarinnar, og eftir atvikum f-lið 2.mgr. 10. tilskipunar 2008/48/EB, sbr. 19. lið formálsorða tilskipunar 2014/17/ESB,  að í skilmálum fasteignaláns til neytanda, þar sem vextir eru breytilegur, komi fram að vaxtabreytingar taki meðal annars mið af vöxtum Seðlabanka Íslands, vöxtum á markaði og öðrum fjármögnunarkjörum lánveitandans.

Í framangreindri beiðni felst að óskað er álits á því hvort skilmáli Landsbankans samræmist ákvæðum tilskipunar 2014/17/ESB um fasteignalán til neytenda, en ákvæði tilskipunarinnar voru leidd í innlendan rétt með lögum nr. 118/2016 um fasteignlán til neytenda. Tilvitnuð ákvæði í spurningu Héraðsdóms Reykjavíkur til EFTA-dómstólsins kveða á um að viðmiðunarvextir í lánssamningi um breytilega vexti skuli vera skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og sannprófanlegir, annars vegar, og hins vegar, að greina skuli með skilmerkilegum hætti í lánssamningi frá málsmeðferð og skilyrðum breytinga á útlánsvöxtum.

Af hálfu neytenda er í framangreindu máli byggt á því að skilmálar Landsbankans uppfylli ekki framangreindar kröfur þar sem bankinn tilgreini ekki með skýrum hætti í lánssamningi hvernig breytingar á útlánsvöxtum séu ákvarðaðar og vegna þess að bankinn tilgreini ekki viðmið fyrir vaxtabreytingar sem eru hlutlæg, aðgengileg og sannprófanleg fyrir neytanda.

Niðurstaðan í málinu mun aðallega hafa þýðingu fyrir neytendur sem tekið hafa fasteignalán eftir að lög um fasteigna lán til neytenda gengu í gildi þann 1. apríl 2017. Vonir eru bundnar við að dómur EFTA-dómstólsins liggi fyrir innan 9 mánaða.


Um vaxtamálið 

Skilmálar um breytilega vexti í  velflestum neytendalánum eru ólöglegir að mati Neytendasamtakanna, þar sem ákvarðanir um vaxtabreytingar eru verulega matskenndar og ógegnsæjar og þess vegna ekki hægt að sannreyna hvort þær séu réttmætar. Neytendasamtökin hleyptu stokkunum Vaxtamálinu til þess að verja hagsmuni neytenda gagnvart viðskiptabönkunum og greiða leið þeirra neytenda sem sækja vilja rétt sinn af þessu tilefni. Þátttakendur í Vaxtamálinu hafa stefnt Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum í samtals 6 prófmálum.  Máli gegn Landsbankanum hefur nú verið vísað til EFTA-dómstólsins, eins og hér hefur verið rakið. Aðalmeðferð mun hins vegar fara fram í Héraðsdómi Reykjavíkur  í janúar nk. í tveimur málum gegn Landsbankanum og Arion banka, en þar um að ræða lán sem tekin voru fyrir gildistöku laga um fasteignalán til neytenda. Þá er beðið eftir úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í tveimur málum gegn Íslandsbanka um hvort ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins verði aflað. Miðað við niðurstöður Héraðsdóms Reykjavíkur og Landsréttar má telja líklegt að a.m.k. öðru þeirra verði einnig vísað til EFTA-dómstólsins.

Þau sem hafa tekið lán með breytilegum vöxtum gætu átt kröfu um endurgreiðslu …en einungis með því að taka þátt! Mikilvægt er að bregðast við því annars gætu kröfur fyrnst.

Frekari upplýsingar um málið og þátttökuskráning er á www.vaxtamalid.is.  

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.