Fréttir

Vaxtamálið – fyrning krafna

Eftirfarandi var sent til þátttakenda í Vaxtamálinu:

Ráðstafanir til þess að slíta fyrningu

Viðtakendur þessa erindis eru þátttakendur í Vaxtamáli Neytendasamtakanna sem veittu Lögfræðistofu Reykjavíkur (LR) umboð til þess að afla gagna hjá viðskiptabönkunum um lán með breytilegum vöxtum og setja fram kröfur fyrir þeirra hönd.

Tímamót með ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins

Sex dómsmál voru höfðuð í lok árs 2021 í tengslum við Vaxtamálið, sem valin voru sem prófmál til þess að fá fordæmisgefandi úrlausnir um algengustu tegundir skilmála viðskiptabankanna um breytilega vexti. Í tveimur þessara mála leitaði héraðsdómur ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun EES-reglna sem hafa verið leidd í lög á Íslandi, en niðurstaða dómsins lá fyrir þann 23. maí sl. Dómurinn styður í öllum grundvallaratriðum við málstað neytenda gegn bönkunum, og er því afar þýðingarmikill. Í samantekt dómsins segir m.a. um niðurstöðuna:

Um skilmála um breytilega vexti sem á reynir í málunum benti EFTA-dómstóllinn á að almennar vísanir til ófyrirséðrar mögulegrar hækkunar kostnaðar lánveitanda séu eðli málsins samkvæmt ósannreynanlegar fyrir hinn almenna neytanda. Með notkun slíkra þátta sé sæmilega forsjálum neytanda gert ókleift að átta sig á afleiðingum samningsskilmálans fyrir fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Var talið að orðalag eins og það sem birtist í skilmálunum sem til umfjöllunar eru í málunum, eins og „vextir á markaði“ og „breytingar á fjármögnunarkostnaði bankans“ sé ekki gagnsætt, jafnvel þótt það sé málfræðilega skýrt og skiljanlegt. Einnig mælir það gegn skýrleika samningsskilmálanna sem deilt er um að þeir hafi að geyma hugtakið „meðal annars“. Eðli málsins samkvæmt gerir hugtakið ráð fyrir að tekið sé tillit til viðmiða sem neytandi þekkir ekki til við gerð samningsins.

Prófmálin – núverandi staða

Prófmálin tvö, sem EFTA-dómstóllinn fékk til umfjöllunar, verða nú til áframhaldandi meðferðar í héraðsdómi. Nú þegar hefur héraðsdómur dæmt í þremur málum og hefur þeim öllum verið áfrýjað og fer aðalmeðferð fram í þeim fyrir Landsrétti í haust. Gera má ráð fyrir að dómsniðurstöður héraðsdóms og Landsréttar í prófmálunum liggi fyrir seint í haust. Líklegt er að málin rati á endanum fyrir Hæstarétt.

Ráðstafanir til þess að slíta fyrningu krafna

Rétt er að árétta að kröfur um endurgreiðslu ofgreiddra fjármuna fyrnast almennt á 4 árum. Af þeim sökum er hætta á að hugsanlegar kröfur um endurgreiðslu glatist á meðan beðið er niðurstöðu í fordæmisgefandi dómsmálum, hafi lántaki greitt upp lán eða endurfjármagnað það. Því getur verið mikilvægt að grípa til ráðstafana til þess að slíta fyrningunni. Slíta má fyrningu með því höfða dómsmál eða skjóta máli til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

LR hefur til þessa – í samráði við Neytendasamtökin – skotið hátt í 1700 málum þátttakenda í Vaxtamálinu til Úrskurðarnefndar um viðskipti fjármálafyrirtækja í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að mögulegar endurkröfur fyrnist. Viðskiptabankarnir hafa gert kröfu um að málskotunum verði vísað frá nefndinni með þeirri röksemd að greiða þurfi málskotsgjald fyrir hvern og einn þátttakenda í vaxtamálinu, en málskotin voru hins vegar lögð fram í einu lagi fyrir viðskiptavini hvers banka, þar sem kröfur og tilefni byggjast á sömu lagarökum og málsatvikum.

Virðist nú liggja fyrir að nefndin telji sér ekki skylt að ljúka meðferð málanna nema greitt sé málskotsgjald fyrir hvern og einn þátttakanda. Þrátt fyrir að við teljum að málskotin sem þegar hafa verið tekin fyrir af nefndinni teljist slíta fyrningu, verður að benda á að ákveðin óvissa skapast vegna þessarar ákvörðunar nefndarinnar. Þá er ljóst að nefndin mun að líkindum ekki taka fleiri mál til meðferðar nema málskotsgjaldið hafi áður verið greitt fyrir hvern einstakling sem skýtur nýju máli til nefndarinnar.

Við bendum því þátttakendum á, vilji þeir tryggja stöðu sína gagnvart mögulegri fyrningu krafna um endurgreiðslur, að sá kostur er fyrir hendi að óska eftir því að LR leggi fram kvörtun, en forsenda þess er að þátttakandi greiði málskots- og umsýslugjald að fjárhæð kr. 15.000. Þeir þátttakendur sem vilja nýta sér þetta úrræði geta skráð sig rafrænt hér og það gildir jafnt um þá sem þegar hafa skráð sig til leiks í Vaxtamálinu og þá sem vilja bætast í hópinn.

LR ítrekar jafnframt, eins og fram kemur í verkbeiðni þátttakenda, að LR getur samkvæmt samkomulagi gripið til frekari ráðstafana en að ofan greinir. Senda má fyrirspurn á vextir@lr.is til þess að fá nánari upplýsingar.

Lán lífeyrissjóða með breytilegum vöxtum

Eins og skýrt hefur komið fram í öllu kynningarefni um Vaxtamálið hafa spjótin til þessa beinst að stóru viðskiptabönkunum þremur. Að mati LR gefur afdráttarlaus niðurstaða EFTA-dómstólsins tilefni til þess að lögmæti skilmála í húsnæðislánum lífeyrissjóða um breytilega vexti sé tekið til skoðunar. Hefur LR því ákveðið, í samráði við Neytendasamtökin, að bjóða á sömu forsendum og áður, upp á hagsmunagæslu gagnvart lífeyrissjóðum, en ferlið mun byrja á greiningu á skilmálum og vaxtaákvörðunum þeirra. Þeir sem vilja láta skoða réttarstöðu sína vegna lífeyrissjóðsláns þurfa að skrá sig hér og gefa upplýsingar sem tengjast láninu. Vakin er athygli á að fyrra umboð nær ekki til lífeyrissjóðslána.

Með kveðju,

Lögfræðistofa Reykjavíkur

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.