Fréttir

Creditinfo krafið um bætt vinnubrögð

Stjórn Neytendasamtakanna hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

Til Neytendasamtakanna hafa leitað margir sem eru á vanskilaskrá hjá Creditinfo einungis vegna smálána. Í kjölfarið hafa Neytendasamtökin upplýst Creditinfo að smálánafyrirtækin og innheimtuaðilar þeirra nota Creditinfo sem svipu til að fá fólk til að borga lán með ólöglegum vöxtum. Þá er með ólíkindum að Creditinfo verði við óskum þessara fyrirtækja sem brjóta lög og siðferði.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi kröfur um breytta starfshætti Creditinfo:
1. Neytendasamtökin gera þá kröfu að Creditinfo setji engan á vanskilaskrá sem að neitar að greiða ólögleg lán. Sér í lagi þar sem Hákon Stefánsson, stjórnarmaður Creditinfo group hefur opinberlega skorað á fólk að greiða ekki þessi lán.
2. Neytendasamtökin gera þá kröfu að Creditinfo taki alla af vanskilaskrá sem hingað til hafa lent þar vegna ólöglegra smálána, og afmá ummerki um veru þeirra á skránni.
3. Neytendasamtökin gera þá kröfu að Creditinfo hætti að beita lántaka öfugri sönnunarbyrði. Það á ekki að líðast að einstaklingar, sem oft þekkja ekki rétt sinn og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, þurfi að andmæla kröfum sem byggja á ólöglegum lánveitingum, ella lendi þeir á vanskilaskrá og dúsi þar í allt að fjögur ár.

Creditinfo hefur mikil völd yfir fjárhagsupplýsingum og fjárhagslegri framtíð fólks og þeim verður að fylgja samfélagsleg ábyrgð. Dómar hafa fallið um ólögmæti smálána, úrskurðir Neytendstofu eru skýrir og vilji löggjafans er skýr. Ólögleg smálán eiga ekki að líðast.

Það er stjórn Neytendasamtakanna ljóst að smálánafyrirtækin fá einungis starfað í skjóli fyrirtækja sem greiða götu þeirra. Þannig berst einstaklingum fjöldi smáskilaboða í gegnum símkerfið, auglýsingar frá smálánafyrirtækjum birtast í kvikmyndahúsum og í fjölmiðlum, innheimtufyrirtæki taka að sér að innheimta ólöglegar kröfur og smálánafyrirtækin nýta greiðslumiðlunarkerfi fjármálakerfisins. Til eigenda, stjórnenda og starfsmanna þessara fyrirtækja beinir stjórn Neytendasamtakanna þeim tilmælum að sýna samfélagslega ábyrgð og hætta að styðja við smálánafyrirtækin.

Við hvetjum félagsmenn og aðra sem lent hafa á vanskilaskrá Creditinfo vegna smálána að senda þeim beiðni um að láta taka sig af skránni og afmá öll ummerki um veru þar á creditinfo@creditinfo.is og setja ns@ns.isí cc.

Bréfið gæti litið svona út:
Til þess er málið varðar,
Ég lenti á vanskilaskrá vegna ólöglegra smálána. Vinsamlega takið mig af vanskilaskránni tafarlaust og afmáið öll ummerki um veru mína þar. 
Vinsamlega verðið við beiðni minni sem fyrst og eigi síðar en að 10 dögum liðnum. 
Virðingarfyllst,
Nafn. Xxxxx Xxxxx
Kennitala: xxxxxx-xxxx

Fréttir í sama dúr

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Staðan í Vaxtamálinu

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.