Þann 25. maí 2023 var Íslandsbanki sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness í einu af sex dómsmálum í Vaxtamálinu svokallaða eins og sjá má hér Dómnum verður áfrýjað.
Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem borin eru uppi af félagsgjöldum. Þú getur skráð þig hér.
Nú hafa fallið dómar í héraði í þremur af sex dómsmálum sem Neytendasamtökin standa að í Vaxtamálinu (sjá hér), en Neytendasamtökin telja skilmála velflestra lána með svokölluðum breytilegum vöxtum vera ólöglega. Neytendasamtökin hafa því stefnt Arion banka og Landsbankanum fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og Íslandsbanka fyrir Héraðsdóm Reykjaness.
Í febrúar 2023 voru kveðnir upp dómar í héraðsdómi Reykjavíkur í málum gegn Landsbankanum og Arion banka. Þar var Arion banki sýknaður en Landsbankinn fundinn sekur (sjá hér). Málin þrjú hvar í dómur hefur fallið í héraði eiga það sammerkt að lánin voru tekin fyrir árið 2017 þegar gengu í gildi ný lög um fasteignalán til neytenda.
Í tveimur hinna málanna, sem snúa að lánum sem tekin voru eftir gildistöku nýju laganna árið 2017, hefur verið leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og var fyrra málið tekið fyrir í Lúxemborg í 23. mars sl. og það síðara verður tekið fyrir 13. júní næstkomandi. Málið hefur vakið verðskuldaða athygli í Noregi, enda gæti það haft samsvarandi áhrif þar í landi (sjá hér og hér). Vonast er til að álit EFTA dómstólsins liggi fyrir ekki síðar en í haust.
Neytendasamtökin hvetja alla lántaka til að skrá sig til leiks og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kröfur á hendur bönkunum fyrnist ekki. Skráning og allar nánari upplýsingar er að finna á www.vaxtamalid.is.