Smálán sem veitt voru hér á landi á árunum 2018-2020 féllu undir dönsk lög að mati dómstóla en ekki íslensk. Lánin stóðust ekki íslensk lög og ekkert liggur fyrir um það hvort þau stóðust dönsk lög. Neytendasamtökin telja það þó harla ólíklegt.
Fjölbreyttar fléttur
Saga smálánastarfsemi á Íslandi er skrautleg en áður en áður en „dönsku lánin“ komu á markað höfðu eftirlitsstofnanir haft í nógu að snúast. Þannig var deilt um það hvort smálánafyrirtækið E-content ehf. mætti innheimta flýtigjald en það var dæmt ólögmætt af dómstólum. Þá brá fyrirtækið á það ráð að skylda lántakendur til að kaupa rafbók samhliða lánveitingunni en sú tilhögun var einnig dæmd ólögleg. Smálánafyrirtækin dóu þó ekki ráðalaus. Nýtt fyrirtæki eCommerce2020 keypti allar kröfur E-content ehf. en nú var starfsemin rekin frá Danmörku og undir því yfirskyni að dönsk lög giltu um starfsemina. Innheimtufyrirtækið Almenn innheimta ehf. sá eftir sem áður um alla innheimtu. Vextir voru himinháir og langt umfram það sem heimilt er á Íslandi en í dönskum lögum er ekki kveðið á um hámarksvexti. Neytendastofa, og síðar áfrýjunanefnd neytendamála, töldu að íslensk lög ættu að gilda um lánin og því væri kostnaðurinn allt of hár. Vorið 2019 lækkaði eCommerce vexti til samræmis við íslensk lög en áfrýjaði jafnframt ákvörðun Neytendastofu til héraðsdóms.
Dönsk lög gilda um íslensk lán
Héraðsdómur sneri síðan ákvörðun Neytendastofu og Landsréttur staðfesti nýlega dóm héraðsdóms. Niðurstaða dómstóla er því sú að dönsk lög hafi gilt um þau lán sem tekist var á um og veitt voru neytendum á Íslandi, í íslenskum krónum, með lánasamningum á íslensku. Ástæðan fyrir því er sú að Ísland hafði ekki innleitt viðauka Rómarsáttmálans frá árinu 2009, þess efnis að íslensk lög ættu við um lánveitingar til neytenda á Íslandi. Það er því miður allt of algengt að Alþingi innleiði ekki nauðsynlegar réttarbætur fyrir neytendur, geri það seint og eða illa.
Voru lánin þá lögleg?
Þótt dómstólar hafi komist að þeirri niðurstöðu að eCommerce 2020 hafi verið heimilt að fella lánin undir dönsk lög hefur aldrei reynt á lögmæti lánanna í Danmörku, hvorki fyrir kærunefndum né dómstólum.
Neytendasamtökin telja afar ólíklegt að lánin standist dönsk lög. Sem dæmi er það skilyrði í dönskum lögum að smálán megi ekki greiða út fyrr en 48 tímum eftir að lán er samþykkt af lánveitanda. Þessi umþóttunartími var aldrei virtur. Þá er það ekki svo að þótt ekki sé kveðið á um hámarksvexti á neytendalánum í Danmörku sé allt leyfilegt. Það er því afar ólíklegt að danskir dómstólar hefðu samþykkt vexti upp á fleiri þúsund prósent enda rík hefð fyrir sterkri neytendavernd í Danmörku.
Þá hefur umboðsmaður neytenda kveðið upp úr með það að heimildir til úttektar óskilgreindra upphæða á óskilgreindum tíma frá óskilgreindum fyrirtækjum eru ólöglegar og því augljóst að mati samtakanna að skuldfærslur smálánanna hafi brotið í bága við dönsk lög.
Skuldfærslur, vanskilaskráning og eftirlitslaus innheimta
Eitt af því sem Neytendasamtökin gerðu alvarlegar athugasemdir við í tengslum við smálánastarfsemina voru skuldfærslur af reikningum lántakenda án þess að fyrir lægi skýr samningur um slíkt. Þá töldu samtökin að þeir innheimtuhættir sem viðhafðir voru stæðust ekki innheimtulög og hafa gert alvarlegar athugasemdir við gloppu í lögum sem undanskilur eftirlit með innheimtufyrirtækjum í eigu lögmanna. Jafnframt telja samtökin að vanskilaskráning umdeildra smálánakrafna hafi verið óheimil.
Skortur á neytendavernd
Neytendasamtökin telja afleitt að fyrirtæki hafi komist upp með að bjóða neytendum þjónustu hér á landi sem íslensk löggjöf nær ekki yfir. Réttur neytenda til að leita með ágreining sinn til kærunefnda og dómstóla, ef svo ber undir, er þar með úr sögunni. Þá er vandséð hvernig danskar eftirlitsstofnanir hefðu átt að sinna raunhæfu eftirliti með lánastarfsemi sem fór einungis fram á Íslandi. Í samskiptum Neytendasamtakanna við danska fjármálaeftirlitið og umboðsmann neytenda kom reyndar fram að þessir aðilar töldu eftirlitið eiga heima á Íslandi. Þar af leiðandi var ágreiningi ekki vísað til Danmerkur og má segja að smálánafyrirtækið hafi starfað í lagalegu tómarúmi.
Ef saga smálánastarfsemi er skoðuð er augljóst að neytendavernd hefur verið verulega ábótavant. Þess má geta að með lögum sem tóku gildi í upphafi árs 2020 var tekinn af allur vafi um að öll neytendalán sem veitt eru á Íslandi falli undir íslensk lög. Margt hefur áunnist sem betur fer en þó er enn verk að vinna.