Árið 2021 voru samþykkt lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Markmið laganna er að samskipti opinberra stofnana við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað.
Opinberar stofnanir hafa löngum sent mikilvæg gögn til borgaranna með hefðbundnum leiðum líkt og ábyrgðarbréfi en það geta til dæmis verið innheimtubréf, tilkynningar um málsmeðferð, álagðar sektir eða ökupunkta, eða ítrekun sektargerða.
Nú er hins vegar orðin breyting á. Sýslumannsembættin, lögregluembættin, ríkissaksóknari og Fjársýslan eru meðal þeirra sem einungis senda gögn í gegnum stafræna pósthólfið island.is. Frá 1. janúar 2025 mun hið sama gilda um alla opinbera aðila.
Með tilkomu laganna er birting gagna í hinu stafræna pósthólfi jafngild hver kyns öðrum birtingarmáta, líkt og ábyrgðarbréfi eða stefnuvotti. Gögn teljast því birt viðtakanda frá og með þeim tímapunkti sem þau eru gerð aðgengileg í pósthólfinu, óháð því hvort viðkomandi hafi skráð sig inn á pósthólfið eða kynnt sér gögnin. Þessar breytingar hafa þó verið lítið kynntar af hálfu hins opinbera.
Missa af mikilvægum gögnum
Þrátt fyrir að um mjög mikilvægar breytingar sé að ræða hafa þær verið illa kynntar. Meirihluti almennings fer ekki daglega inn á island.is. og því geta mikilvæg gögn hæglega farið fram hjá fólki hafi það ekki valið að fá tilkynningu með SMS-skeyti eða tölvupósti. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar og eru dæmi um að fólk hafi hreinlega ekki vitað af meðferð mála sem þó varða mikilvæga hagsmuni þess.
Jákvætt skref en vanda þarf til verka
Neytendasamtökin fagna tilkomu stafræns pósthólfs í miðlægri gátt en gagnrýna harðlega hvernig staðið hefur verið að innleiðingunni. Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins fyrr á árinu kemur fram að breytingarnar hafi einungis verið kynntar á vef Stjórnarráðsins. Það telja Neytendasamtökin aldeilis ófullnægjandi enda fáir sem venja komur sínar á vef Stjórnarráðsins.
Neytendasamtökin telja það vera lágmarkskröfu að breytingar sem varða mikla hagsmuni séu kynntar almenningi vel og rækilega. Þá er eðlilegt að birting mikilvægra gagna á island.is sé háð því skilyrði að móttakandi staðfesti með einhverjum hætti að hafa fengið gögnin, svo sem með því að opna tilkynningu eða smella á hana til að staðfesta móttöku. Þá væri eðlilegt að slíkum skilaboðum fylgi einnig tilkynning með SMS-skeyti, óháð því hvort fólk hafi valið þá leið eða ekki, í það minnsta þar til þekking á hinu stafræna pósthólfi er orðin almenn.
Þá er einnig mikilvægt að huga sérstaklega að viðkvæmum hópum og tryggja að þeir verði ekki út undan, þá bæði hvað varðar upplýsingagjöf og aðgengi að pósthólfinu.
Neytendasamtökin vekja athygli á því að hægt er að fá afhent gögn með öðrum hætti en í stafræna pósthólfið en þá þarf að óska eftir því í gegnum island.is eða á skrifstofu sýslumanns.