Dópamíndemba

Dópamín og snjöll hönnun er ástæða þess að við getum ekki slitið okkur frá tækjunum.

Á undraskömmum tíma hefur netnotkun orðið óaðskiljanlegur hluti af lífinu og fæstir fara í gegnum daginn án þess að klikka, tékka, horfa, skoða, spila, surfa og læka. Tíminn sem fer í þessa iðju er meiri en flestir gera sér grein fyrir og ef marka má sérfræðinga er einkum tvennt sem kemur til; dópamín og snjöll hönnun.

Anna Lembke, geðlæknir og prófessor við Stanford-háskóla, gaf nýlega út bókina „Dopamine Nation: Finding Balance in the Age of Indulgence“ (Dópamínþjóðin: að finna jafnvægi á tímum sjálfsþægðar). Lembke telur að aukna tíðni kvíða og þunglyndis á Vesturlöndum megi m.a. rekja til þess að heilinn sé „hooked on“ eða háður taugaboðefninu dópamíni. Dópamín kemur við sögu hvort sem um er að ræða atferlisfíkn eða vímuefnafíkn. Einkennin eru eins en munurinn liggur í magni og styrkleika.

Fasta í mánuð

Í starfi sínu segist Lembke sjá sífellt fleiri sem þjáist af þunglyndi og kvíða, þar á meðal ungt fólk, með góða menntun og við góða heilsu, sem ekki glímir við áföll, fátækt eða annað sem skýrt geti ástandið. Ástæðan sé einfaldlega of mikið dópamín; taugaboðefni sem framkallar vellíðun.

Lembke tekur dæmi af rúmlega tvítugum skjólstæðingi sínum sem þjáðist af lamandi kvíða og þunglyndi. Hann hafði flosnað upp úr námi, bjó í foreldrahúsum og spilaði tölvuleiki daglega langt fram á nótt. „Fyrir 20 árum hefði ég skrifað upp á þunglyndislyf fyrir skjólstæðing með þessi einkenni og beitt hefðbundinni meðferð,“ segir Lembke, en í dag eru ráðleggingarnar af allt öðrum toga eða dópamínfasta. Manninum var því ráðlagt að halda sig alfarið fjarri öllum skjáum og tölvuleikjum í einn mánuð.

Heilinn leitar í jafnvægi

Lembke útskýrir þetta þannig að þegar við gerum eitthvað ánægjulegt losar heilinn smá dópamín og okkur líður vel. Heilinn leggur sig fram um að viðhalda stöðugleika sem þýðir að þegar dópamínframleiðslan fer í gang reynir heilinn að ná jafnvægi og fletja út áhrifin. Þegar ánægjutilfinningin dvínar upplifum við gjarnan smá pirring og leiðindi en ef við bíðum nógu lengi hverfur óþægindatilfinningin og jafnvægi næst. Það er þó mannleg tilhneiging að vinna gegn þessu ferli og sækja aftur í það sem veitti okkur vellíðunartilfinningu, með öðrum orðum að krækja í nýjan dópamínskammt.

Fráhvarfseinkenni

Ef við höldum uppteknum hætti yfir langan tíma myndast þol og við þurfum sífellt meira magn dópamíns til að ná sömu vellíðunartilfinningu og fráhvarfseinkennin verða verri. Þau eru, óháð því hvaða ávanabindandi efni eða hegðun er um að ræða; kvíði, pirringur, svefnleysi, eirðarleysi og óhófleg löngun. Tölvuspilarinn fann sig því knúinn til að halda áfram að spila tölvuleiki, ekki ánægjunnar vegna heldur til að viðhalda venjulegu ástandi.

Þrátt fyrir aukna velsæld í okkar heimshluta hefur tíðni þunglyndis aukist mikið á síðustu þrjátíu árum. Lembke segir erfitt að sjá hvað er orsök og hvað er afleiðing í eltingaleiknum við dópamín. Það sé ekki fyrr en búið er að taka hvíld frá fíkninni sem við sjáum raunveruleg áhrif neyslunnar á líf okkar. Lembke segist þess vegna biðja skjólstæðinga sína, eins og unga manninn, að hætta tölvuleikjaspilun í einn mánuð til að gefa heilanum færi á að ná jafnvægi. Það sé ekki auðvelt en í tilfelli fyrrnefnds tölvuspilara hafði það tilætluð áhrif. Hann náði að vinna bug á fíkninni og setti sér strangar reglur um tölvuleikjanotkun svo sem að spila aðeins tvisvar í viku og ekki meira en tvo tíma í senn. Hann forðaðist leiki sem eru sérstaklega ávanabindandi og spilaði aðeins með vinum, ekki ókunnugum.

Lembke er ein viðmælanda í myndinni „The Social Dilemma“, sem sjá má á Netflix og óhætt er að mæla með.

Hönnuð ávanabinding

Í stórgóðri bók sinni, „Irresistible“, sem kom út 2017, fer Adam Alter meðal annars ofan í saumana á því hvers vegna við höfum ánetjast rafrænum tækninýjungum eins og Netflix, Facebook, Instagram, Fitbit og Twitter á undrastuttum tíma. Samkvæmt honum er hér engin tilviljun á ferð því tæknifyrirtækin hafa her sérhæfðs starfsfólks á sínum snærum sem hafa það eina markmið að framleiða ávanabindandi tækni. Þau séu mörgum skrefum á undan okkur.

Ein aðferð er að gera notkunina „botnlausa“ ef svo má segja. Á Instagram má alltaf sjá nýtt myllumerki til að ýta á, nýja mynd til að skoða og hægt er að skrolla niður opnunarsíðuna endalaust og það sama á við um Facebook. Netflix setur næsta þátt af stað áður en tími gefst til að seilast í fjarstýringuna og Tinder hvetur fólk til að slöngva til hliðar hægri, vinstri í von um betri kost en hönnun Tinder byggir á sama prinsippi og spilakassar.

Þá vakti það athygli Alter að stærstu nöfnin í tæknigeiranum gera sér augljóslega mjög vel grein fyrir neikvæðum afleiðingum nettækjanotkunar. Evan Williams, stofnandi Blogger, Twitter og Medium, keypti bækur í stórum stíl fyrir syni sína en tók ekki í mál að gefa þeim iPad. Steve Jobs sagði í viðtali árið 2010 að börnin hans hefðu aldrei notað iPad og að aðgangur að tækjanotkun á heimilinu væri takmarkaður. Chris Anderson, fyrrum ritstjóri Wired, setti ströng tímamörk á tækjanotkun á heimilinu og bannaði t.d. öll tæki inni í svefnherbergjum. Það ætti því að vera ákveðin vísbending fyrir okkur hin ef þeir sem best þekkja til tækninnar telja nauðsynlegt að takmarka notkunina.

Að slíta sig frá símanum

Snjallsímanotkun getur verið svo ávanabindandi að mörgum reynist mjög erfitt að minnka hana þrátt fyrir góðan ásetning. Þegar notkunin verður þráhyggjukennd er hægt að tala um snjallsímafíkn (nomophobia).

Í bók Alter segir frá Kevin Holesh, forritara sem taldi sig farinn að verja of miklum tíma í símanum á kostnað samveru með fjölskyldunni. Þar sem hann vann við að hanna smáforrit tók hann sig til og hannaði forritið Moment en það mælir hversu miklum tíma fólk ver í símanum. Tíminn sem fer í að tala í símann eða hlusta á tónlist er ekki tekinn með. Alter hlóð forritinu niður og komst að því að á hverjum degi varði hann að meðaltali þremur tímum í símanum og tók hann upp 40 sinnum. Þegar hann spurði Holesh hvort þetta væri dæmigerð notkun sagði hann svo vera og algengt væri að fólk gripi til símans 39 sinnum á dag og þá ekki til að tala í hann heldur til að skoða tölvupóst, senda skilaboð, spila leiki, surfa á netinu og lesa greinar. Að sögn Holesch er algengt að fólk áætli að það eyði helmingi minni tíma í símanum en raunin er.

Tæknin hefur gjörbreytt lífi okkar og tilhugsunin um heim án internets, samfélagsmiðla, tölvuleikja og streymisveita er óhugsandi. Ýmislegt bendir þó til þess að tæknin sé farin að stjórna okkur meira en góðu hófi gegnir og það er ekki vegna skorts á sjálfsaga notenda heldur vita fyrirtækin nákvæmlega hvað þau eru að gera. Vandamálið er að þau eru skrefi á undan og það tekur tíma fyrir samfélög að sjá afleiðingar ofnotkunar nýrrar tækni. Það að Steve Jobs hafi haldið iPad frá börnunum sínum hlýtur þó að segja meira en mörg orð.

Neytendablaðið haust 2021

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Aukefni geta verið allt frá mjög umdeildum efnum sem eru leyfð í einstaka vörum yfir í mjög örugg efni. Kynntu þér málið.
Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.