Droppshipping – við hvern ertu að versla?

Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein fyrir því eða ekki.

Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein fyrir því eða ekki. Það er nefnilega í mörgum tilvikum alls ekki ljóst af hvaða tagi vefverslanir eru.

Dropshipping felur í sér að seljandi vöru heldur úti netverslun og þegar hann fær pöntun er hún send áfram til þriðja aðila sem afgreiðir og sendir vöruna beint til viðskiptavinarins. Þannig útvistar netverslunin framleiðslu, heildsölu, lagerhaldi, afgreiðslu og sendingu, gjarnan til aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ekki virðist til góð íslensk þýðing á hugtakinu dropshipping. Við leggjum því til „sýndarverslun“ sem kemst nærri og er því notað til jafns við dropshipping í greininni.

Þó fyrirbærið hafi lengi verið við lýði virðist sem sýndarverslun hafi færst í aukana á tímum kórónuveirufaraldursins. Neytendasamtök og stofnanir víðsvegar um Evrópu hafa fengið mikinn fjölda kvartana vegna sýndarverslana á undanförnum árum.  Þær varða fölsk tilboð, rangar upplýsingar um vöruframboð, falskar vörur og vörur sem berast seint eða alls ekki. Dropshippingverslanir selja gjarnan vörur frá löndum þar sem ekki eru gerðar eins ríkar öryggiskröfur og í Evrópu. Sænska efnastofnunin (KEMI) gerir reglulega rannsóknir á öryggi vara sem keyptar voru á netinu. Dropshippingverslanir voru teknar með í fyrsta skipti árið 2022 og reyndust 72% vara innihalda of mikið af skaðlegum efnum.

Grjótharðir og illa lyktandi skór

Klas Göran segir farir sínar ekki sléttar í samtali við sænska neytendablaðið Råd och Rön, en hann hafði óaðvitandi keypt skó í gegnum dropshipverslun. Hann keypti sumarskó á netinu eftir að hafa séð auglýsingu á Facebook. Þegar skórnir bárust kom í ljós að þeir voru af litlum gæðum, hálfgerðar töfflur sem voru svo stífar að þær gáfu ekkert eftir. Klas gat því engan veginn gengið í skónum og þess utan var megn efnalykt af þeim. Engar upplýsingar fylgdu með vörunni um það hvert ætti að skila henni en eftir mikið grúsk fann Klas heimilisfang í Malmö. Hann sendi skóna þangað og var neitað um endurgreiðslu en boðinn 50% afsláttur af kaupunum.

Úlfur í sauðagæru

Það er ekki auðvelt fyrir neytendur að átta sig á því hvort vara er keypt í gegnum hefðbunda vefverslun eða dropshipfyrirtæki. Fyrirtækið sem Klas keypti skóna af heitir Bellezea Sverige og líkist dæmigerðri sænskri vefverslun. Allur texti er á sænsku og myndir af vörunum virka vandaðar. Undir flipanum „Um okkur“ má sjá mynd af þremur glöðum ungmennum í bolum merktum fyrirtækinu. Á síðunni er gefið upp netfang og símanúmer. Heimilisfangið er í virtu hverfi í London og greiðslur fara í gegnum Klarna, sem er vel þekkt fyrirtæki í Svíþjóð þó umdeilt sé. Ekkert á þessu stigi kallar sterkt á að viðvörunarbjöllur hringi. Ef málið er skoðað nánar kemur þó í ljós að myndin af því sem ætla mætti að séu starfsmenn er keypt af myndabanka og að vörumerki Bellezea hefur einfaldlega verið skellt á bolina með myndvinnsluforriti. Símanúmerið er hollenskt og 18.766 fyrirtæki eru skráð á heimilisfangið í London.

Henric Jonsson, lögfræðingur hjá ECC-netinu í Svíþjóð, segir mál Klas alls ekki einsdæmi því kvörtunum vegna dropshipfyrirtækja fari fjölgandi. Hann segir aðferðir Bellezea dæmigerðar því látið sé líta út fyrir að fyrirtækið hafi yfir mörgum starfsmönnum að ráða. Raunin gæti hins vegar verið sú að aðeins ein eða örfáar manneskjur standi þar að baki.

Sumar sýndarverslanir veita viðskiptavinum enga aðstoð þrátt fyrir að kvartanir geti verið margar og margvíslegar. Þá er ekki hægt að treysta á umsagnir frekar en á mörgum stórum markaðsvefsvæðum því falsumsagnir eru mjög algengar, eins og lesa má um á ns.is.

Helstu atriði sem gott er að hafa í huga má sjá hér að neðan.

Vandamál með sendingu

  • Algengt er að sendingartími sýndarverslana sé mun lengri en gefið er upp. Í sumum tilvikum fá kaupendur ítrekaðar tilkynningar um seinkun á afhendingu.
  • Pöntun getur farið í gegn hjá sýndarversluninni án þess að varan sé til hjá raunverulegum seljanda. Varan fæst því ekki afhent en kaupandinn greiðir samt samstundis fyrir kaupin.
  • Sum fyrirtæki upplýsa neytendur ekki um aukakostnað sem bætist við sendinguna, svo sem virðisaukaskatt og önnur aðflutningsgjöld.

Vandamál með skil

  • Oft vantar upplýsingar í afpöntunarskilmála um hvert eigi að endursenda vörur vilji neytendur hætta við kaupin, eins og þeir eiga rétt á lögum samkvæmt.
  • Fyrirtæki hafna beiðni neytanda sem vill nýta lögbundinn rétt sinn og hætta við kaup. Einnig er algengt að fyrirtæki hafni endurgreiðslu og bjóði einungis nýja vöru eða afslátt af næstu kaupum.
  • Endursendingarkostnaður getur verið mjög hár og jafnvel meiri en verðmæti vörunnar, sér í lagi ef hún kemur langt að.

 

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.
Aukefni geta verið allt frá mjög umdeildum efnum sem eru leyfð í einstaka vörum yfir í mjög örugg efni. Kynntu þér málið.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.