Næringargildi í litum

NutriScore er einföld næringarmerking sem auðveldar neytendum valið.

„Holl og fjölbreytt fæða er mikilvæg fyrir heilsu og vellíðan,“ segir orðrétt á heimasíðu Landlæknis. Þessu mæla fæstir í mót. Mataræði vegur þungt þegar lífsstílssjúkdómar eru annars vegar og kostnaður samfélagsins vegna sjúkdóma sem mætti fyrirbyggja er mikill. Það er því er til mikils að vinna að beina fólki í átt að heilbrigðari lífsstíl. Skiljanlegar og aðgengilegar upplýsingar um næringargildi matvæla eru afar mikilvægar fyrir neytendur og auðveldar þeim að taka upplýsta ákvörðun. Þær merkingar sem er skylt að setja á umbúðir matvæla um næringargildi, og nær alltaf aftan á umbúðir, geta hins vegar verið illskiljanlegar fyrir marga. Þá bætir ekki úr skák að mörg dæmi eru um villandi fullyrðingar um hollustu á matvælaumbúðum. Jákvæðum kostum matvæla er óspart haldið á lofti en dýpra er á upplýsingar sem snúa að magni viðbætts sykurs og salts, svo að dæmi sé tekið. Það eru þó upplýsingar sem skipta neytendur jafnvel meira máli.

Umferðarljós

Árið 2013 ákváðu heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi að setja á fót merkingarkerfi á innpökkuð matvæli til að auðvelda neytendum að velja hollari mat. Kerfið byggir á umferðarljósamerkjum og eru gefnir litir fyrir hvern næringarþátt. Grænt þýðir að vara innihaldi lítið af fitu, sykri eða salti á meðan rauði liturinn segir til um hátt hlutfall sykurs, salts eða fitu. Appelsínugulur er svo þarna mitt á milli. Merkingin er sett framan á umbúðir enda er markmiðið að auðvelda fólki að sjá mikilvægustu næringarupplýsingar á augabragði.  Merkingin er valkvæð en flestir stórir matvælaframleiðendur taka þátt og vega þar þungt stóru verslunarkeðjurnar, eins og Tesco, Waitrose og Sainsbury, sem selja fjölda matvara undir eigin vörumerki.

Þegar Evrópusambandið var að endurskoða lög um matvælamerkingar, í kringum 2008, gengu fyrstu hugmyndir út á að lögfesta hinar neytendavænu umferðarljósamerkingar. Matvælaframleiðendur brugðust hins vegar ókvæða við. Rök þeirra voru einna helst þau að um of mikla einföldun væri að ræða og að umferðarljósamerking sýndi sum matvæli í afar neikvæðu ljósi. Ekkert varð af þessum áformum en ýmsar mikilvægar breytingar voru þó gerðar á lögum um merkingar matvæla sem síðar hafa verið innleiddar hér á landi. Talið er að aldrei hafi meira fé verið varið í hagsmunagæslu í Brüssel og þegar umrædd löggjöf var til meðferðar hjá Evrópuþinginu og að yfir milljarði evra hafi verið varið til þess sérstaklega að koma í veg fyrir að umferðarljósamerkingin yrði að veruleika.

 

 

Umferðarljósin gefa upplýsingar um magn sykurs, salts og mettaðrar og ómettaðrar fitu með litunum grænn, appelsínugulur og rauður. Merkingin á samlokunni sýnir að hún inniheldur hátt hlutfall mettaðrar fitu, lítinn sykur, lítið hlutfall ómettaðrar fitu og salt í meðallagi. Á döðlunum má svo sjá að hlutfall sykurs er hátt en ekki er gerður greinarmunur á náttúrulegum sætuefnum í vörum og viðbættum sykri.

NutriScore ryður sér til rúms

Frakkar ákváðu að ráðast í gerð næringarmerkingar framan á umbúðir, NutriScore, eða „næringarskor“. Í framhaldinu hefur þessi merking verið að ryðja sér til rúms í Evrópu. NutriScore er í raun ennþá einfaldari merking en umferðarljósin bresku þar sem upplýsingum um næringargildi vöru er komið til skila með því að gefa vörunni eina „einkunn“ frá A til E. Til að hnykkja á boðskapnum er hollasti kosturinn grænn og sá óhollasti rauður en rannsóknir sýna að skilaboðin komast betur til skila ef notast er við liti. Aðferðin er í einföldu máli sú að mæla jákvæð næringaráhrif (magn trefja, próteins, ávaxta, grænmetis og hnetu) og neikvæð áhrif (magn sykurs, mettaðrar fitu og salts) auk hitaeiningafjölda. Stig eru gefin fyrir jákvæða og neikvæða þætti og með ákveðinni reikniaðferð er einkunnin fundin út. Allar matvörur falla undir NutriScore-kerfið að undanskyldu áfengi, kaffi, te og barnamat fyrir yngri en þriggja ára. Nánar um aðferðina hér.

 

Matvöru með D-merkingu ætti að neyta í hófi.

Eins og áður segir reið Frakkland á vaðið árið 2017 og nú hafa sex Evrópulönd ákveðið að innleiða NutriScore. Auk Frakklands eru það Holland, Þýskaland, Belgía, Spánn, Holland. Sviss Lúxemborg. Evrópusamtök neytenda, BEUC, hafa kallað eftir því að NutriScore-merkingin verði innleidd í Evrópusambandinu öllu, þ.e. að framleiðendum verði skylt að nota hana á vörur sínar en í dag er merkingin valkvæð.

Ítalía fer sínar eigin leiðir

Ítalía hefur tekið einarða afstöðu gegn NutriScore-merkingunni með þeim rökum að merkingin ógni hinni margrómuðu ítölsku matarhefð. Merkingin geri til dæmis engan greinarmun á ólíkum matartegundum, sem gæti skaðað ítalskar vörur eins og ólífuolíu, parmesanost og hráskinku.

Ítalir hafa því lagt til sína eigin merkingu, „Nutrinform“, sem er einhvers konar sambland af DGA og rafhlöðu og þykir vægast sagt ruglingsleg. Mikil hleðsla sendir þannig skilaboð um neikvæð áhrif, til dæmis of hátt hlutfall sykurs, en gagnrýnendur benda á að í þessu felist öfugmæli þar sem flestir upplifi litla hleðslu sem eitthvað neikvætt.

 

Nutrinform merkingin þykir villandi.

Gagnrýninni er þó vísað á bug af ítölskum stjórnvöldum enda hafi verið gerð rannsókn á ítölskum fjölskyldum sem sýni að merkingin hafi þótt mjög skýr og skiljanleg. Gögnin að baki þeirri rannsókn hafa þó ekki verið lögð fram. Ítölsku neytendasamtökin Altroconsumo hafa gagnrýnt þessi áform harðlega. Samtökin telja NutriScore mun skiljanlegri merkingu og að hin sér-ítalska merking sé beinlínis villandi. Ítölsk stjórnvöld hafa nú þegar tilkynnt Evrópusambandinu að þar í landi verði Nutrinform opinber næringargildismerking framan á umbúðir.

Hvað er GDA merking?

Samtök matvælaframleiðenda í Evrópu hafa um árabil notað sitt eigið næringargildismerki framan á umbúðir. Það kallast GDA (Guideline daily amount) og segir til um áætlaða neysluþörf. Merkingin hefur alla tíð verið mjög umdeild ekki síst fyrir þær sakir að hún sýnir næringarinnihald í ákveðnum skömmtum af hinum ýmsu matvörum. Þannig geta framleiðendur sjálfir ákveðið hvað er „skammtur“, þ.e. hvort skammtur af kartöfluflögum sé 50 grömm eða 100 grömm, svo dæmi sé tekið. Þá er einnig gagnrýnt hvernig áætluð dagsþörf eða neysluþörf er fundin út. Það skiptir jú máli við hvað er miðað; konu eða karl, kyrrsetumanneskju eða íþróttagarp, unglinga eða eldra fólk.

Útbreiðsla GDA er töluverð og hefur matvælaiðnaðurinn ekki áhuga á merkingum þar sem neikvæðar upplýsingar eru dregnar fram og telur GDA þjóna tilgangi sínum fullvel.

Eins og sjá má eru hér gefnar upplýsingar miðað við 30 g skammt.

Portúgal áhugasamt

Í Portúgal hefur verið áhugi á NutriScore og  létu heilbrigðisyfirvöld þar í landi gera rannsókn til að kanna þekkingu og skilning neytenda á næringargildismerkingum. Einnig var kannað hvers konar merkingar væru líklegastar til að koma réttum skilaboðum á framfæri. Í ljós kom að 40% portúgalskra neytenda eiga erfitt með að túlka hinar hefðbundnu næringargildismerkingar og að einfaldari útfærsla væri vænlegasta leiðin til að ýta undir hollara mataræði. Umferðarljósamerkingar og NutriScore þóttu koma best út en rannsóknin sýndi einnig að næringargildisupplýsingar framan á umbúðum, hvaða nafni sem þær nefnast, ýta undir hollara val. Enn sem komið er hefur Portúgal þó ekki innleitt NutriScore.

Þar sem Ísland er hluti af innri markaði Evrópusambandsins er okkur skylt að taka upp  regluverk sambandsins sem snýr að matvælamerkingum. Það verður því fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls og hvort hugsanlega sé að nást sátt um skiljanlega merkingu sem neytendur geta reitt sig á.

Drykkir fyrir börn
  • belgísk rannsókn

Belgísku neytendasamtökin Test-Achats gerðu könnun á því hvers konar drykki foreldrar sendu börn sín með í skólann. Notast var við NutriScore-kerfið til að reikna út einkunnir á alls 474 tegundum drykkja. 37% drykkjanna fengu A eða B, 23% fengu C og 40% fengu D eða E. Það sem verra var, af 79 drykkjum sem voru sérstaklega markaðssettir með börn í huga, t.d. með teiknimyndafígúrum, fengu 42% D eða E.

Ekki er mælt með að börn yngri en 12 ára neyti sætuefna en þau var að finna í nokkrum drykkjanna. Var jafnvel tekið sérstaklega fram framan á umbúðum að enginn viðbættur sykur væri í drykknum en sætuefni listað á innihaldslýsingunni. Slíkt er óheimilt í Belgíu og kalla neytendasamtökin eftir því að skylt verði að merkja sérstaklega framan á matvæli sem beint er að börnum ef þau innihalda sætuefni.

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.