Að brauðfæða jarðarbúa

EAT-Lancet hefur lagt fram tillögur að mataræði sem er bæði sjálfbært og heilnæmt.

Mannkynið stendur frammi fyrir þeirri stóru áskorun að fæða sífellt fleiri jarðarbúa á sama tíma og matvælaframleiðsla heimsins ógnar loftslagsstöðugleika og lífríki jarðar. Stórfelldra breytinga er þörf og án róttækra aðgerða er útilokað að sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og markmiðum Parísarsáttmálans verði náð. Þótt framleiðsla á mat í heiminum, mæld í hitaeiningum, hafi vaxið í takt við vaxandi íbúafjölda jarðar búa 820 milljónir manna við fæðuskort. Þá borðar umtalsverður fjöldi jarðarbúa allt of mikinn mat og margir búa við lélegt mataræði. Það ætti því að vera forgangsverkefni að að tryggja öllum aðgang að hollri fæðu sem er aflað á sjálfbæran hátt.

Holl fæða og sjálfbær

EAT-Lancet nefndin telur 37 vísindamenn frá 16 löndum úr hinum ýmsu fræðasviðum. Tilgangur vettvangsins er að setja fram markmið byggð á vísindalegri nálgun um það hvernig best sé að fæða jarðarbúa á sjálfbæran og heilnæman hátt. Niðurstaða nefndarinnar er að það sé raunhæft að tryggja öllum jarðarbúum holla næringu og jafnframt tryggja að fæðuöflun sé sjálfbær. Til að svo megi verða þarf þó að ráðast í aðgerðir hið fyrsta.

Áhersla á jurtaríkið

EAT-Lancet leggur til mataræði sem kallast vistkerafæði (e. planetary health diet) en heitið vísar til mataræðis sem er hvorutveggja gott fyrir heilsu fólks og vistkerfi jarðar. Rannsóknir sýna að heilsusamlegt mataræði byggir á fjölbreyttri fæðu úr jurtaríkinu eins og grænmeti, ávöxtum, fræjum, hnetum, baunum, linsum og heilkorni. Minni áhersla ætti að vera á kjöt, mjólkurvörur, unninn mat og viðbættan sykur. Breyting á mataræði jarðarbúa í þessa veru kallar á tvöfalt meiri neyslu á grænmeti, ávöxtum og hnetum en nú er og helmingi minni neyslu á rauðu kjöti og viðbættum sykri. Sérstaklega þarf að draga úr óhóflegri sykurneyslu á Vesturlöndum. Tekið er fram að markmiðið sé ekki að allir jarðarbúar borði nákvæmlega sama mat enda sé mataræði mismunandi eftir menningarsvæðum. Taka þurfi tillit til þess þótt að á heildina litið þurfi að draga stórlega úr kjötneyslu og auka til muna neyslu fæðutegunda úr jurtaríkinu.

Fæðuhringurinn

Vistkerafæði byggir á fjölbreyttri fæðu sem er að langmestu leyti úr jurtaríkinu. Mjólkurvörur, kjöt og fiskur er hluti af fæðuhringnum en fær mun minna vægi. Mataræðið er sveigjanlegt og tekur mið af þörfum fullorðins einstaklings. Finna má ítarlegar upplýsingar um vistkerafæði á eatforum.org

Danir fara vistkeraleiðina

Árið 2022 voru gefnar út nýjar næringarráðleggingar í Danmörku undir yfirskriftinnni Opinberar ráðleggingar um mataræði – góðar fyrir heilsu og umhverfi og byggja þær að miklu leyti á EAT-Lancet ráðleggingunum. Þessi stefnubreyting verður að teljast fréttnæm því neysla Dana á dýraafurðum er mjög mikil og meiri en meðaltalsneyslan í Evrópu. Henni svipar þar mjög til Íslands.

Í lok árs 2022 gaf Loftslagsráð Danmerkur út skýrsluna Klimavenlig mad og forbrugeradfærd (Loftslagsvænt fæði og neysluhegðun). Loftslagsráðið segir hinar nýju mataræðisráðleggingar rétta leið í átt að sjálfbærni og ef farið væri eftir þeim myndi hver Dani að meðaltali minnka matarkolefnisspor sitt um 31–45%. Ef markmiðin eiga að ná fram að ganga þurfa Danir þó að skera verulega niður í neyslu á kjöti og mjólkurvörum og auka neyslu á grænmeti og öðru fæði úr jurtaríkinu. Í nýju ráðleggingunum er fólk hvatt til að borða 600 g á dag af grænmeti, ávöxtum og berjum og ekki meira en 350 g af kjöti á viku. Þá er mælt með neyslu á minnst 75 g af heilkorni á dag og 100 g af baunum.

Ryðja þarf hindrunum úr vegi

Loftslagsráðið danska skoðaði hvaða hindranir stæðu helst í vegi fyrir því að ráðleggingarnar næðu fram að ganga og þar með sá heilsu- og loftslagsávinningur sem lagt er upp með. Danskar rannsóknir sýna að sífellt fleiri neytendur, sér í lagi yngra fólk, vill borða umhverfisvænni mat og minnka kjötneyslu en ennþá er það meira í orði en á borði. Margir þættir hafa þarna áhrif, ekki síst að fólk er almennt vanafast þegar kemur að mataræði og breytir því ekki svo glatt. Þá telja margir að það sé flókið að elda grænmetisfæði og erfitt að finna hráefni. Það hversu fáir borði loftslagsvænt sé í raun ákveðin hindrun því það viðhaldi þeirri trú fólks að flókið sé að elda fæði úr jurtaríkinu og að maturinn metti ekki eins vel og sé verri á bragðið. Það sé því mikilvægt að „normalísera“ jurtafæði til að ná markmiðunum. Eftir því sem fleiri borða jurtafæði því eðlilegra þykir það.

Loftslagsvæn mötuneyti

Í matvælastefnu Kaupmannahafnarborgar frá 2020 er sett fram það markmið að 70.000 mötuneytismáltíðir á degi hverjum séu loftslagsvænar. Það þýðir að borgin ætlar að minnka kolefnisfótspor máltíða um 25% milli áranna 2020–2025. Þessi áform koma í framhaldi af þeirri stefnu borgarinnar að auka hlutfallið á lífrænum mat frá árinu 2001.

Loftslagráð hvetur ríki og sveitarfélög til að tryggja loftslagsvænan mat í öll mötuneyti á vegum hins opinbera en daglega eru framreiddar 650.000 máltíðir í dönskum mötuneytum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Með þessu megi ekki bara minnka neikvæð umhverfisáhrif og bæta lýðheilsu heldur sé þarna tækifæri til að boða fagnaðarerindið, ef svo má að orði komast. Ef breiður hópur fólks fær bragðgóða, nærandi og mettandi grænmetisrétti í mötuneytum sé hægt breyta þeirri fyrirfram gefnu skoðun margra að grænmetisfæði bragðist ekki vel. Þá skipti máli að fólk upplifi að grænmetisfæði sé ekki bara fyrir þröngan hóp fólks sem aðhyllist ákveðna hugmyndafræði.

Loftslagsmerki á mat

Rannsóknir sýna að neytendur vilja kaupa loftslagsvænan mat en skortir upplýsingar. Loftslagsráðið kallar eftir því að stjórnvöld beiti sér fyrir opinberu loftslagsmerki í stað þess að einstaka fyrirtæki setji á fót sín eigin merki. Dönsk rannsókn á neytendahegðun leiddi í ljós að 86% neytenda nýta sér merkingar við matarinnkaup. Flestir leita eftir danska lífræna merkinu Ø og því næst Skráargatinu, sem íslenskir neytendur þekkja vel. Hér má skjóta inn í að lífrænar matvörur voru með 4% markaðshlutdeild árið 2006 en hún var orðin tæp 13% árið 2020. Heilkornamerkið er danskt merki sem er einnig vel þekkt. Árið 2000 borðuðu einungis 7% Dana ráðlagðan skammt af heilkorni en eftir að heilkornamerkið var kynnt til sögunnar jókst hlutfallið í 27%. Loftslagsráðið segir ljóst að opinberar merkingar, sem neytendur treysta, hafi áhrif á neysluhegðun og að ein leið í átt að loftslagsvænni matarvenjum sé innleiðing loftslagsmerkis.

Umhverfisskattur á mat

Ráðið bendir á að út frá loftslagssjónarmiðum ætti verð á vörum að endurspegla þau loftslagsáhrif sem framleiðslan hefur. Ef losunarskattur væri lagður á mat myndi verð hækka á kjöti og mjólkurafurðum og það hefði áhrif á neytendahegðun. Ráðið viðurkennir þó að útreikningarnir geti verið flóknir en hvetur stjórnvöld til að hefja þá vinnu. Eins segir ráðið mikilvægt að vinna að merkingum sem upplýsi neytendur um loftslagsáhrif matvæla. Það sé flókið verkefni en að sama skapi mikilvægt. Þá gagnrýnir ráðið að mun meira fé sé varið í markaðssetningu á dýraafurðum en jurtafæði. Það vinni beinlínis gegn næringarráðleggingum stjórnvalda og geti ruglað neytendur í ríminu.

Vistkerafæði útilokar ekkert

Sævar Helgi Bragason og Þórhildur Fjóla Stefánsdóttir halda úti síðunni vistkerar.is, en þar má finna fróðleik og fjölda girnilegra vistkerauppskrifta. Sævar Helgi segir í samtali við Neytendablaðið að hann hafi fyrst og fremst breytt um mataræði af umhverfisástæðum. Hann neitar sér ekki um neitt en megináherslan er á mat úr jurtaríkinu. „Það sem er svo gott við mataræði vistkera er hversu sveigjanlegt það er, það er fjölbreytt og útilokar ekkert. Hver og einn aðlagar það að sínum þörfum og menningarhefðum.“  Sævar Helgi segir að í upphafi hafi helsta áskorunin verið að læra nýja uppskriftir og finna út hvernig ætti t.d. að matreiða baunir og tofu. Það hafi verið tímafrekt í byrjun en jafnframt mjög skemmtilegt og vel fyrirhafnarinnar virði. Það komi nefnilega oft í ljós að framandi hráefni er sælkeramatur. „Margir eru t.d. smeykir við tofu en það vill svo til að vinsælasta uppskriftin á síðunni er klístrað tofú,“ segir Sævar og hvetur fólk til að kynna sér mataræði vistkerans.

Kolefnisspor Íslendinga of hátt

Mataræði meðal-Íslendingsins er ekki mjög loftslagsvænt enda er neysla á dýraafurðum mikil líkt og í Danmörku. Sigurður Loftur Thorlacius umhverfisverkfræðingur hjá Eflu segir útreikninga sýna að kolefnisspor Íslendinga sé of hátt. „Við erum fjarri því að vera á þeirri braut að stöðva hnattræna hlýnun við 1,5°C, sem er markmið Parísarsáttmálans. Losun okkar þyrfti að vera þrefalt lægri. Ef horft er á losun vegna matar sérstaklega, þá veldur kjötneyslan þar stærstum hluta.“ Sigurður segir bestu leiðina til að draga úr kolefnisspori vera þá að minnka kjötneyslu og minnka matarsóun. 

Meiri áhersla á sjálfbærni

Neytendablaðið spurði Jóhönnu Eyrúnu Torfadóttur, doktor í lýðheilsuvísindum hjá Embætti landlæknis, hvort komið hefði til tals að breyta næringarráðleggingum á Íslandi í átt að vistkerafæði líkt og Danir hafa nú gert. „Já, það hefur verið rætt en nú bíðum við eftir nýjum norrænum ráðleggingum. Þær eru unnar af sérfræðihópi og þar eigum við Íslendingar okkar fulltrúa. Við vitum að það verður lögð miklu meiri áhersla á sjálfbærni og nú þegar Danir eru búnir að stíga skrefið er viðbúið að horft verði til þeirra.“ Jóhanna segir ráðleggingar hér heima hafa þróast í þessa átt undanfarin ár, þ.e. meiri áhersla á grænmeti, ávexti, heilkorn, baunir og linsur.

Mestir styrkir fyrir mjólk og kjöt

Mikil neysla á dýraafurðum er eitt af því sem horfa þarf til í baráttunni við loftslagsbreytingar. Um það er ekki deilt. Samt sem áður renna landbúnaðarstyrkir að mestu leyti til framleiðslu á kjöti og mjólk. Á Íslandi fer langstærstur hluti beingreiðslna til kjöts- og mjólkurframleiðslu eða um 90%. Neytendablaðið spurði Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra hvort ekki þyrfti að endurskoða styrkjakerfið og horfa í meira mæli til loftslags- og lýðheilsusjónarmiða.

Ráðherra svarar því til að mikil tækifæri felist í endurskoðun búvörusamninga sem fram fer á næsta ári og þá verði lögð áhersla á aukna framleiðslu grænmetis. Því markmiði verði náð með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar og sérstökum stuðningi við útiræktun. Í tillögu að nýrri landbúnaðarstefnu er meðal annars lagt til að áherslum í styrkjakerfi landbúnaðarins verði breytt og dregið verði úr framleiðslutengingu. Annars vegar verði stutt við búsetu í sveitum, óháð því hvaða framleiðslugrein er stunduð, og hins vegar verði aukin áhersla lögð á jarðrækt og aðra landnýtingu, landvörslu og loftslagsmál. Jafnframt segir í svari ráðherra að stuðningskerfi landbúnaðarins verði að fela í sér græna hvata þannig að þeim sem stunda loftslagsvænni landbúnað sé umbunað.

Neytendablaðið vor 2022

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.