Hávaði og heyrnartól  

Mikil heyrnartólanotkun barna og unglinga getur skaðað heyrn. Töpuð heyrn verður ekki endurheimt.

Allt að 50% fólks á aldrinum 12–35 ára – eða um 1,1 milljarður unglinga og ungs fólks – eru í hættu á að tapa heyrn vegna langvarandi tónlistarhlustunar með heyrnartólum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar við þróuninni og kallar eftir aðgerðum. 

Foreldrar kannast eflaust við að hafa áhyggjur af skjánotkun barna sinna og beita ýmsum ráðum til að freista þess að minnka skjátímann. Það gæti því verið ákveðinn léttir að sjá börn og unglinga taka sér frí frá þáttaglápi, tölvuleikjum og samfélagsmiðlum og hlusta þess í stað á hlaðvarp eða tónlist. Á undanförnum árum hefur hins vegar komið í ljós að heyrn barna og unglinga getur stafað hætta af mikilli tónlistarhlustun. Góðu fréttirnar eru þó þær að auðvelt er að fyrirbyggja heyrnartap sem orsakast af hávaða.

Raunveruleg hætta á ferð?

Það eru ekki nýjar fréttir að tónlistarhlustun  með heyrnartólum geti valdið skemmdum á heyrn. Árið 2008 gaf vísindanefnd Evrópusambandsins um nýgreinda og vaxandi heilbrigðisáhættu (SCENIHR) út skýrslu þar sem varað var við heyrnarskaða af völdum hljóðspilara. Árið 2013 setti Evrópusambandið samræmdar reglur um hámarkshljóðstyrk í spilurum og snjallsímum. Miðað er við að hljóðstyrkur fari ekki yfir 85 dB og vilji notandi hækka styrkinn þarf að gera það handvirkt og fer hann þá hæst í 100 dB. Markmiðið er að veita notendum tækjanna meiri vörn gegn hávaða. Umræðan um þessi mál fer ekki mjög hátt og er í raun í engu samræmi við varúðarorð sérfræðinga. Því vaknar sú spurning hvort hér sé raunverulega einhver hætta á ferð eða óþarfa áhyggjur og jafnvel forræðishyggja?

Einfalda svarið er já, hættan er raunveruleg. Lengi vel var hættan á heyrnarskaða ungmenna mest tengd við hávaða á börum, klúbbum, diskótekum og tónleikum. Sú hætta er enn til staðar, en stærsta vandamálið í dag er hins vegar talið vera óhófleg tónlistarhlustun með heyrnartólum. Heyrnartólanotkun, hvort sem tólin eru þráðlaus eða ekki, getur skaðað heyrn og gildir þá einu hvort verið sé að hlusta á tónlist eða spila tölvuleiki á háum hljóðstyrk. Það sem veldur sérstaklega áhyggjum er að heyrnartólin sitja alveg upp við eyrun ef ekki beinlínis inni í þeim. Samkvæmt Bandarísku lýðheilsustofnuninni (CDC) getur þessi nálægð við eyrað valdið mögnunaráhrifum, eða „boosting effect“, sem hækkar hljóðið um allt að 9 dB. Áætlar stofnunin að ef hlustað er á tónlist með heyrnartólum á hæsta hljóðstyrk geti hávaðinn verið frá 96 til 112 dB. Svo mikill hávaði er skaðlegur jafnvel þó aðeins sé hlustað í örfáar mínútur, og því oftar og lengur sem fólk er útsett fyrir hávaða því meiri eru líkurnar á heyrnarskaða. Í raun má segja að áhrifin safnist upp þannig að heyrnartap getur verið lúmskt og komið aftan að fólki.

 

Hljóðstyrkur er mældur í desibelum, skammstafað dB.
Hvísl 15 dB
Samtal 50–70 dB
Hávær umferðarniður 80 dB
Hávær rokktónlist 120 dB
Ef hávaði fer yfir 85 dB er hann talinn geta skaðað heyrn óháð tímalengd.
Sársaukamörk eru við 120-140 dB

 

Viðkvæm fyrir miklum hávaða

Eyrun eru í raun mjög viðkvæm líffæri. Þau eru næm og ekki gerð fyrir hávaða tímunum saman, og þrátt fyrir að líkaminn hafi ótrúlega viðgerðarhæfileika verður heyrn sem tapast ekki endurheimt. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur því eðli málsins samkvæmt áhyggjur af þróun mála. Aðgengi að snjallsímum og tækjum, sem og tónlistarveitum, hefur aukist hratt, sem hefur í för með sér mun meiri tónlistarhlustun en áður var. Talið er að 5–10% af tónlistarhlustendum séu líklegir til að þróa með sér heyrnarskaða.

Heyrnartap er hægt að fyrirbyggja

Heilt yfir fjölgar fólki hratt sem glímir við heyrnarskaða. WHO spáir því að árið 2030 muni 630 milljónir manna búa við það mikinn heyrnarskaða að hann komi niður á daglegu lífi, verði ekkert að gert. Fjöldinn verði svo kominn upp í 900 milljónir árið 2050. Það þýðir að tíundi hver jarðarbúi muni glíma við heyrnarskaða með tilheyrandi örorku og kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Eins og áður segir er þó hægt að fyrirbyggja heyrnartap vegna hávaða og áætlar WHO að hægt væri að fyrirbyggja helming allra tilfella með almennum lýðheilsuaðgerðum. Besta ráðið er að takmarka eins og kostur er hávaða í umhverfinu. Það er hægt að gera með því að nota heyrnarhlífar þar sem það á við, leita leiða til að forðast hávaða og stilla í hóf bæði hljóðstyrk og tímalengd tónlistarhlustunar eða tölvuleikjanotkunar. Heyrnartól með hljóðeinangrun eru einnig góður kostur þar sem hávaði í umhverfinu veldur því að notandinn hækkar hljóðstyrkinn.

85 dB ekki öruggt viðmið

Almennt er miðað við að öruggt sé að vera í 85 dB hávaða í allt að átta tíma á dag. En þótt heyrnartól séu stillt þannig að hljóðið fari ekki yfir 85 dB er ekki þar með sagt að þau séu örugg fyrir börn og unglinga. Rick Neitzel, prófessor við Michigan-háskóla, segir í samtali við The New York Times að það sé algerlega órökrétt að tala um 85 dB sem öruggt viðmið. Ástæðan fyrir því að nánast yfirdrifin samstaða hafi náðst um 85 dB mörkin er að hans sögn sú að þau eru ein af fáum nothæfum leiðum til að setja reglur um hávaða á vinnustöðum. Sérfræðingar á þessu sviði, dr. Neitzel og dr. Fligor, segja einnig í samtali við The New York Times að erfitt sé að gefa einhlítt svar við því hvað sé öruggt en þó megi ætla að fyrir flesta sé ótakmörkuð hlustun örugg fari hljóð ekki yfir 70 dB. Neitzel og Fligor hafa rannsakað svokölluð „afþreyingarhljóðáhrif“ (e. recreational sound exposure) og voru þeir ráðgjafar WHO í tengslum við átakið „Gerum hlustun örugga“ (Make listening safe). Þeir benda jafnframt á mikilvægi þess að börn séu heyrnarmæld á þriggja ára fresti hið minnsta.

Heyrnarskemmdir af völdum hávaða geta einnig leitt til eyrnasuðs eða tinnitus. Hljóðið getur verið af ýmsum toga, gjarnan eins og sónn eða hátíðnihljóð, og verið stöðugt eða tímabundið. Eyrnasuð er nokkuð algengt og getur valdið verulegum óþægindum og skert lífsgæði.

Áhyggjur af heyrnarheilsu unglinga

Kristján Sverrisson er forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands og þekkir því vel til þessara mála. Neytendablaðið tók Kristján tali og spurði fyrst hvort vísbendingar væru um það hér á landi að ungt fólk skaðaði heyrnina vegna heyrnartólanotkunar. ,,Okkur skortir sárlega rannsóknir á íslenskum ungmennum og tónlistarfólki en okkur grunar vissulega að ástandið hér á landi sé í engu frábrugðið því sem rannsóknir sýna erlendis.“ Kristján segir að ólíkt því sem áður var sé ungt fólk nú í áhættuhópi, eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi bent á. „Forvarnir hafa skilað árangri, sem sést á því að ákveðnar starfstéttir eiga nú ekki lengur á hættu að tapa heyrn, svo sem sjómenn, bændur og vélvirkjar, en nú er það ekki síst unga fólkið sem horfum til.“ Kristján segist óttast að gegndarlaus tónlistarhlustun, auk annars hávaða sem börn og ungmenni eru úsett fyrir, valdi óbætanlegum heyrnarskaða. „Vandinn er ekki síst sá að heyrnarskerðing getur tekið mörg ár að koma fram. Það getur því liðið einhver tími þar til áhrifin af allri þessari heyrnartólanotkun ungmenna kemur fram.“ Forvarnir skipta meginmáli að mati Kristjáns því töpuð heyrn verður ekki endurheimt. „Ef hávaði eða aðrar orsakir skemma hárfrumur í kuðungi innra eyrans er sá skaði varanlegur og óafturkræfur.“

Kristján Sverrisson

Heyrnarheilsa fær litla athygli

Kristján segir að heilbrigðisyfirvöld mættu sýna málaflokknum meiri áhuga og vill sjá stóraukna áherslu á forvarnarstarf. „Við reynum eftir megni að vekja athygli stjórnvalda og almennings á þeim vanda sem steðjar að heyrnarheilsu fólks á öllum aldri. Heyrnarskerðing rýrir verulega lífsgæði fólks og er samfélaginu dýr. Forvarnir eru langmikilvægasta aðgerðin til að vinna gegn heyrnarskerðingu og þar þarf að gera mun betur“.

Neytendablaðið spurði heilbrigðisráðuneytið hvort yfirvöld hefðu, líkt og WHO, áhyggjur af þróuninni og ef svo væri, hvernig þau hygðust bregðast við. Þau svör fengust hjá ráðuneytinu að Heyrnar- og talmeinastöðin færi með málaflokkinn og lögum samkvæmt bæri stofnunni einnig að sinna fræðslu. Kristján bendir þó á að viðvarandi niðurskurður hafi verið í þessum málaflokki og Heyrnar- og talmeinastöðinni í raun gert ókleift að sinna forvörnum af þeim krafti sem þyrfti.

Neytendablaðið vor 2022

 

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.