Að eltast ekki við tískuna

Besta ráðið gegn fatasóun er að velja vönduð föt af kostgæfni og nýta þau vel .

Fatasóun er eitt heitasta umhverfismálið þessa dagana og ekki að ástæðulausu. Nóg er til af flíkum í heiminum þótt fataframleiðsla myndi stöðvast í einhvern tíma.

Áhersla á gæði

Júlíu Grønvaldt stílisti stundaði nám í Flórens á Ítalíu, í tísku, almannatengslum og listrænni stjórnun við skólann IED. Í samtali við Neytendablaðið sagði Júlía að neytendur séu að verða meðvitaðri en það sé samt mjög ríkt í fólki að eltast við tískuna. „Seljendur halda neytendum við efnið og sjá til þess að hafa alltaf eitthvað nýtt og spennandi á boðstólum. Markmiðið er auðvitað að selja sem mest og föt eru jafnvel ekki hönnuð með það að markmiði að endast. Ítalir eru þó kannski svolítið sér á parti enda leggja þeir mikla áherslu á að ganga í vönduðum og smekklegum fötum. Þetta er eflaust misjafnt eftir héruðum en í Flórens er mikil hefð fyrir textílframleiðslu og leðurvinnslu og fólk er mjög meðvitað um það hvað felst í gæðavöru. Það skoða til dæmis allir miðana innan á flíkum sem ég hef eiginlega aldrei séð neinn gera hér heima.“

Samnýta Gucci-bolinn

Júlía segir að það þessi tilhneiging Ítala til að velja vönduð og góð föt sé umhverfisvæn því fötin ættu að endast betur. „Ég upplifi þó ekki að yngri kynslóðin sætti sig við að ganga lengi í sömu fötum. Það er mikil neysla í gangi og mikill fókus á merkjavöru. Mér fannst því mjög jákvætt þegar vinur minn sagði mér frá því að hann ásamt tveimur öðrum hefði keypt sér Gucci-bol sem þeir skiptast á að nota.“ Júlía segir að einhvern tíma hefði þetta eflaust þótt mjög örvæntingarfullt en þarna komi einn bolur í stað þriggja sem bæði spari pening og sé betra fyrir umhverfið.

Kauptu minna og vandaðu valið

Segja má að það sé ákveðin tíska í dag að vera meðvitaður um neikvæð áhrif tískuvarnings. „Breski hönnuðurinn Vivienne Westwood er þó ein þeirra sem alltaf hefur lagt mikla áherslu á sjálfbærni og tímalausa hönnun og reyndar verið langt á undan sinni samtíð. Hún hefur lengi notað slagorðið Buy Less, Choose Well and Make It Last (kauptu minna, vandaðu valið og nýttu vel). Hún hvetur fólk til að kaupa færri flíkur og vandaðri og segir föt í raun allt of ódýr. Katharine Hamnett er einnig þekkt fyrir að senda skýr skilaboð í sinni hönnun. Hún er aðgerðarsinni og ekki síst fræg fyrir stuttermaboli með alls kyns pólitískum skilaboðum. Hún klæddist einum slíkum í opinberri heimsókn í Downing Street árið 1984 og kom þáverandi forsætisráðherra Margaret Tatcher í opna skjöldu. Fjölmargir fleiri hönnuðir hugsa á sömu nótum og þeim fjölgar eflaust eftir því sem fólk spáir meira í þessi mál.“

Einstakt safn

Júlía vann lokaverkefnið sitt um fyrirtæki sem heitir A.N.G.E.L.O og selur vintage-föt í verslun í Lugo á Ítaliu. Eigandinn, Angelo Caroli, á auk þess ómetanlegt safn af um 120.000 vintage-flíkum og fylgihlutum héðan og þaðan úr heiminum og frá ólíkum tímum. Safnið er mikilvæg heimild um tísku og handbragð fyrri tíma og segir Júlía margar flíkurnar eftirsóttar fyrir sýningar, söfn eða í myndatökur. Safnið nýtist einnig í rannsóknarvinnu hjá hönnuðum, ekki síst þegar horft er til næstu vörulínu. „Viku áður en ég fór með skólanum að skoða safnið hafði teymi frá Louis Vuitton verið á staðnum til að fá innblástur. Tískuhúsin eru jafnvel að koma til skoða sína eigin hönnun frá fyrri áratugum því mörg hver eiga ekki sjálf fjölbreytt safn. Nú er unnið að því hjá Angelo að setja allt safnið á vefinn þannig að fólk hvaðanæva að geti skoðað safngripina og pantað til leigu.“

Hugtakið notuð föt virðist notað jöfnum höndum um það sem á ensku heitir second hand föt og vintage-föt (stundum kallað tímabilsflíkur eða tímabilstíska). Á þessu er þó greinarmunur sem í grófum dráttum er þessi: Second hand er hugtak notað yfir föt sem hafa áður verið í eigu og notuð af einhverjum öðrum. Vintage stendur aftur á móti fyrir föt sem eru af miklum gæðum og gjarnan er talað um að vintage föt séu eldri en 20 ára. Vintage stendur hér fyrir tímabil.

 

Notuð föt í verslun Angelo

Ekki eltast við tískuna

Júlía segir Angelo Caroli hafa byrjað að safna notuðum flíkum á sjöunda áratugnum og selt þær síðan til að byrja með úr skottinu á bílnum sínum. „Angelo hefur alltaf lagt áherslu á gæði og endingu og er ekki með offramboð af fötum eins og oft er í vintage-búðum Fyrirtækið hans hefur náð að lifa lengi en mér finnst það aldrei hafa átt jafn mikið erindi og nú. Tískuheimurinn gengur út á að fá fólk til að eltast við nýjasta „trendið“ en fyrir mér er það hugarfar sem virkar ekki þegar til lengri tíma er litið og drepur alla sköpunargleði. Markmið tískugeirans er vissulega að hvetja til meiri neyslu. Við eigum hins vegar að vera óhrædd við að klæðast fötum sem okkur þykja falleg óháð öllum tískustraumum markaðarins og skapa okkar eigin stíl.“

Neytendablaðið júní 2019

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.