Ilmefni geta valdið ofnæmi

Ilmefni eru algeng í ýmsum neysluvörum jafnvel í vörum ætlaðar börnum.

Ilmefni hafa verið sérstaklega undir smásjánni enda hefur ilmefnaofnæmi færst í aukana. Ótal vörur innihalda ilmefni og er sérstakt áhyggjuefni að efnin séu notuð í vörur ætlaðar börnum. Börn eru viðkvæmari fyrir óæskilegum áhrifum sem ilmefni geta valdið og geta myndað með sér ilmefnaóþol. Ekki er ráðlagt að nota t.d. bleyjur, krem, blautþurrkur og þess háttar vörur sem innhalda ilmefni enda engin ástæða til. Úrvalið af vörum án þessara efna er orðið mjög gott í dag enda aukin krafa frá neytendum að geta valið vörur án ilmefna.

Samkvæmt reglum er skylt að merkja á umbúðir ef húð- og snyrtivara inniheldur eitt af þeim 26 ilmefnum sem Evrópusambandið hefur skilgreint sem ofnæmisvaldandi. Þetta eru efni með flóknum og löngum heitum, eins og Butylphenyl methylpropional, d-Limonene og Hydroxycitronellal, sem fæstir neytendur leggja á minnið. Ekki er skylt að setja einhvers konar viðvörun á umbúðir ef vara inniheldur einhver hinna 26 efna. Nóg þykir að setja heitið á efninu en ef  neytandi veit ekki að t.d. d-Limonene hefur verið skilgreint sem ofnæmsivaldandi þá hjálpar það lítið.

Hér koma vottuð umhverfismerki sterk inn. Í Svansmerktum vörum ætluðum börnum eru engin ilmefni leyfileg. Í Svansmerktum snyrti- og húðvörum ætluðum fullorðnum er ekki leyfilegt að nota ilmefnin 26 sem skilgreind hafa verið sem ofnæmisvaldandi.

Neytendur sem vilja alfarið forðast ilmefni geta notað Kemiluppen smáforritið og ætti þá einungis velja vörur sem fá A í einkunn.

Það eru ekki bara börn sem geta myndað óþol gegn ilmefnum og ætti því almennt að stilla ilmefnanotkun í hóf. Ilmefni er að finna í fjölmörgum vörum og má nefna mýkingarefni, þvottaefni, hreingerningarefni, ilmkerti auk húð- og snyrtivara.  Í dag er úrvalið af Svansmerktum vörum mjög mikið en sumar vörur geta þó ekki fengið svansvottun líkt og mýkingarefni fyrir þvott. Mýkingarefni innihalda alls kyns efni – ilmefni þar á meðal – og ætti því að fara varlega í að nota þau og alls ekki í barnafötin. Borðedik getur komið í stað mýkingarefnis til að afrafmagna föt en getur einnig nýst til að ná vondri lykt úr fötum.

„Fyrir viðkvæma húð“

Hér að neðan má lesa grein úr Neytendablaðinu um villandi markaðssetningu á snyrtivörum sem innihalda ilmefni:

Algengt er að framleiðendur haldi því fram að húð- og hárvörur þeirra séu mildar eða „sensitive“ og henti því viðkvæmri húð þrátt fyrir að vörurnar innihaldi ilmefni sem vitað er að geta valdið ofnæmisviðbrögðum. Frá Danmörku berast þær fréttir að umhverfisráðherrann, Lea Wermelin, ætli að beita sér fyrir því að fullyrðingin „sensitive“ verði bönnuð á snyrtivörum innan Evrópusambandsins innihaldi þær ofnæmisvaldandi efni.

Villandi markaðssetning

Dönsku Neytendasamtökin Tænk kærðu markaðssetningu á Nivea raksturskremi til Miljøstyrelsen (dönsku umhverfisstofnunarinnar) árið 2016. Byggði kæran á því að raksturskremið væri markaðssett sem milt eða „sensitive“ þrátt fyrir að innihalda fimm ilmefni sem eru á lista Evrópusambandsins yfir ofnæmisvaldandi efni. Að mati Tænk eiga neytendur að geta treyst því að vara sem sögð er „mild“ eða „fyrir viðkvæma húð“ sé laus við ofnæmisvaldandi efni. Miljøstyrelsen var á sama máli og taldi markaðssetninguna óheimila. Þegar niðurstaðan lá fyrir lagði Tænk fram aðra kæru vegna vegna fjölda húð- og snyrtivara sem allar áttu það sameiginlegt að innihalda þekkta ofnæmisvalda en vera samt sem áður markaðssettar sem „sensitive“.

Breytt um skoðun

Hátt í þremur árum síðar lá niðurstaða Miljøstyrelsen loksins fyrir og þótt málið væri sambærilegt raksturskremsmálinu frá 2017 taldi stofnunin að þessu sinni að ekki væri um villandi markaðssetningu að ræða. Ástæðan fyrir þessari stefnubreytingu var sögð vera sameiginlegt regluverk Evrópusambandsins. Það geti nefnilega verið misjafnt á milli landa hvað teljist villandi í skilningi laganna. Talsmaður Miljøstyrelsen segir stofnunina ekki hafa treyst sér til að fella þann úrskurð að fullyrðingin „sensitive“ sé villandi þar sem ekki sé víst að sú niðurstaða stæðist fyrir Evrópudómstólnum. Reglurnar miða við að „meðalneytandinn“,  sem er vel upplýstur og athugull, þurfi að upplifa markaðssetninguna sem villandi svo hægt sé að halda því fram með óyggjandi hætti fyrir dómstólum að svo sé. Það sé hins vegar stór munur á því hvað neytendur í einstaka Evrópulöndum upplifi sem villandi. Talsmaðurinn neitar því ennfremur að stofnunin hafi skipt um skoðun eða verið beitt pressu af hálfu iðnaðarins. Hún þurfi hins vegar að vera handviss um að niðurstaðan haldi fyrir dómstólum og það sé ekki tryggt miðað við orðalagið í núverandi reglum.

Niðurstaðan harðlega gagnrýnd

Tænk gagnrýnir þessa stefnubreytingu harðlega og segir hana óskiljanlega enda sé stutt síðan Miljøstyrelsen fór í herferð og hvatti ungt fólk til að velja vörur án ilmefna. Þá sýni rannsókn sem Tænk lét gera að 60% neytenda telja að ef vara er merkt sem „sensitive“ innihaldi hún ekki ofnæmisvaldandi ilm- og rotvarnarefni.

Dönsku Astma- og ofnæmissamtökin eru einnig forviða yfir niðurstöðunni. Þau benda á að ilmefnaofnæmi sé vaxandi vandamál í Evrópu og áhættan aukist því oftar sem fólk er útsett fyrir ilmefnum því ofnæmi geti þróast yfir langan tíma. Neytendur sem sjá merkingu eins og „fyrir viðkvæma húð“ muni trúa því að varan sé örugg og því sé verið að rugla þá í ríminu með markaðssetningu sem þessari. Í húð- og snyrtivörubransanum í Danmörku eru deildar meiningar um útspil Miljøstyrelsen. Hjá samtökum danskra framleiðenda, VKH, ríkir undrun og segir formaðurinn Henrik Karup Jørgensen að niðurstaðan sé áfall fyrir iðnaðinn og í andstöðu við fyrri yfirlýsingar frá yfirvöldum. Hjá samtökum sem gæta hagsmuna alþjóðlegra snyrtivörukeðja kveður við annan tón. Þar á bæ þykir niðurstaðan eðlileg og bent er á að rík þröf sé fyrir fullyrðingu eins og „sensitive“ því henni sé beint að fólki með viðkvæma húð sem þó hafi ekki endilega ofnæmi fyrir ilmefnum. Þá viti fólk sem þjáist af ilmefnaofnæmi að það þarf að skoða innihaldslýsingu og leita eftir þeim 26 ilmefnum sem skylt er að merkja á umbúðir þar sem um þekkta ofnæmisvalda er að ræða.

Ráðherra stendur með neytendum

Eftir mikla gagnrýni á úrskurð Miljøstyrelsen gaf umhverfisráðherrann, Lea Wermelin, það út að hún standi með neytendum í þessu máli. Hún sagði að vernda þurfi neytendur gegn skaðlegum efnum og villandi markaðssetningu. Allt of margir þjáist af ilmefnaofnæmi og lofaði ráðherrann að berjast fyrir því að Evrópulöggjöfinni verði breytt.

Claus Jørgensen, verkefnastjóri hjá Tænk, segir gott að ráðherra ætli að taka málið upp á Evrópuvettvangi. „Jafnvel þótt franskir og spænskir neytendur líti ilmefni öðrum augum og séu jafnvel vanir ilmefnum í bleyjum og vörum fyrir börn þá eiga þeir líka á hættu að þróa með sér ofnæmi fyrir ilmefnum. Stjórnvöld í Evrópu verða að standa saman á móti sterkum hagsmunum framleiðenda.“ Claus segir ennfremur að fari svo að Evrópusambandið verði tregt í taumi verði Danmörk að ryðja brautina líkt og gert var með paraben og bisfenól-A í pelum á sínum tíma.

Umhverfismerki einfalda málið

Hér á landi eru mörg dæmi um húð- og snyrtivörur sem eru markaðssettar sem mildar eða fyrir viðkvæma húð þrátt fyrir að innihalda efni sem geta verið ofnæmisvaldandi. Það er því mikilvægt fyrir neytendur að vera vakandi þar til skorið hefur verið úr um það hvort markaðssetning af þessu tagi telst villandi. Þau 26 ilmefni sem staðfest hefur verið að geta valdið ofnæmisviðbrögðum eru á sérstökum lista Evrópusambandsins yfir efni sem skylt er að merkja á umbúðir. Neytendur sem vilja forðast þessi efni verða því að þekkja þau með nafni og rýna í innihaldslýsingu vörunnar. Það er þó til einfaldari leið því vottuð umhverfismerki geta hjálpað neytendum að forðast skaðleg efni. Birgitta Stefánsdóttir, starfsmaður Svansins hjá Umhverfisstofnun, bendir á að hin umræddu 26 ilmefni séu bönnuð í Svansvottuðum vörum en þar að auki megi finna merki dönsku astma- og ofnæmissamtakanna á mörgum vörum hér á landi sem, rétt eins og Svansmerkið, tryggir að varan innihaldi ekki þessi efni. „Það er bagalegt að leyfilegt sé að nota orð eins og „sensitive“ fyrir vörur sem innihalda efni sem búið er að skilgreina sem ofnæmisvaldandi. Þessar vörur eru þá í samkeppni við vörur sem bera áreiðanlegar umhverfismerkingar en merki eins og Svanurinn er trygging fyrir neytendur sem vilja forðast skaðleg efni í sínu daglega lífi.“

Neytendablaðið október 2020.

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.