Mikil neysla koffíndrykkja

Koffíndrykkir eru orðnir hluti af daglegri neyslu unglinga og hafa lýðheilsuyfirvöld áhyggjur af stöðu mála.

Frá því að koffínríkir orkudrykkir hófu innreið sína á íslenskan markað árið 2008 hafa þeir náð að festa sig í sessi og taka í dag umtalsvert pláss í mörgum matvöruverslunum. Þessir drykkir eru í raun orðnir hluti af daglegri neyslu unglinga.

Neikvæð áhrif koffíns á líkamann hafa lengi verið þekkt og má þar nefna hækkun á blóðþrýstingi, hjartsláttartruflanir, magaverk og höfuðverk. Minna er hins vegar talað um það hvaða áhrif neysla koffíns hefur á andlega þætti s.s. kvíða, pirring eða svefnleysi. Saman geta þessir líkamlegu og andlegu þættir haft gríðarlega neikvæð áhrif á heilsuna ef koffíns er neytt í of miklum mæli.

Neyslan fer vaxandi

Í rannsókn frá árinu 2018 kom í ljós að 28% grunnskólanemenda (8.–10. bekk) drukku eina eða fleiri dósir af koffíndrykkjum á dag. Hlutfall framhaldsskólanema sem neyttu koffíndrykkja daglega eða oftar var 55%. Niðurstöður sýndu einnig að um 78% unglinga sofa of lítið eða sjö klukkustundir eða minna og þeir sem segjast sofa lítið drekka fjóra koffíndrykki eða meira á dag. Þessar niðurstöður vöktu athygli og í framhaldinu var haldið „Norrænt málþing um koffíndrykki og ungt fólk á vegum yfirvalda hérlendis.

Árið 2020 var gerð rannsókn á koffíndrykkjaneyslu barna og ungmenna. Matvælastofnun hafði þá  sérstaklega beðið svokallaða áhættumatsnefnd að vinna slíka rannsókn í ljósi stöðunnar hér á landi. Skýrslu nefndarinnar má sjá hér.

Niðurstöður sýndi m.a. að þriðjungur koffíndrekkandi ungmenna á aldrinum 13-17 ára fór yfir viðmiðunarmörk Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). Þá er miðað við það koffínmagn sem getur haft neikvæð áhrif á svefn. Um helmingur 18-20 ára ungmenna fóru yfir þessi viðmiðunarmörk.

Í sérstöku áhættumati fyrir grunnskólanema kom fram að um 40-70% ungmenna í 8.-10. bekk hafa fengið koffíndrykki gefins í tengslum við íþróttir eða hópastarf samanborið við 10% framhaldsskólanema. Virðist því sem þessum drykkjum sé markvisst haldið að grunnskólabörnum "...þar sem koffín er vanabindandi efni veldur þetta áhyggjum m.t.t. mögulegra neikvæðra heilsuáhrifa til lengri tíma litið. Mikilvægt er því að takmarka aðgengi ungmenna að orkudrykkjum." segir á heimasíðu Landlæknis.

Grípa til aðgerða í Noregi

Áhyggjur af mikilli koffíndrykkju barna og unglinga einskorðast ekki við Ísland. Í Noregi íhuga yfirvöld að grípa til aðgerða.

Sala á koffíndrykkjum í Noregi hefur tvöfaldast frá árinu 2019 og eru börn og unglingar stór markhópur. Í rannsókn sem norsku neytendasamtökin, Forbrukerrådet, gerðu árið 2021 kom í ljós að nærri helmingur allra unglingsdrengja neytti koffíndrykkja vikulega. Merkja mátti aukningu í neyslu hjá 10–15 ára og meðal stúlkna. Þá sýndi rannsóknin að Monster var vinsælasti koffíndrykkurinn í Noregi og Red Bull sá næst vinsælasti.

Bann á sölu koffíndrykkja til barna

Norska stórþingið hefur nú beint því til stjórnvalda að setja 16 ára aldurstakmark á sölu koffíndrykkja. Er vísað til þeirra heilsufarsvandamála sem hlotist geta af of mikilli koffínneyslu og þar á meðal eru neikvæð áhrif á tannheilsu. Þá sýni nýjar rannsóknir að aukna sykurneyslu barna og unglinga megi að hluta skýra með aukinni koffíndrykkjaneyslu.

Forbrukerrådet styður þessa aðgerð enda áhyggjuefni hversu mikil og hversdagsleg neyslan sé. Samkvæmt rannsókn Forbrukerrådet drekka 25% barna á aldrinum 10–12 ára koffíndrykki í viku hverri. Það sé ógnvekjandi staðreynd enda séu þessir drykkir ekki ætlaði börnum og því ætti ekki að selja þeim þá.

Falin varúðarmerking

Neytendasamtökin hafa í gegnum tíðina gagnrýnt markaðssetningu þessara drykkja enda er markhópurinn börn og unglingar þrátt fyrir að koffínríkari drykkirnir séu ekki ætlaðir yngri en 18 ára. Þá er ekki skylt að setja varúðarmerkingu framan á umbúðir og lengi vel þurfti varúðarmerkingin ekki einu sinni að vera á íslensku. Neytendasamtökin telja augljóst að ef ástæða þykir til að vara við ákveðinni vöru eigi að tryggja með öllum ráðum að skilaboðin komist til neytenda.

 

 

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.