Staðlar eru allt um lykjandi og heimur án staðla væri í raun óhugsandi. Til að fræðast um málið tókum við Helgu Sigrúnu Harðardóttur tali en hún er framkvæmdastjóri Staðlaráðs.
Staðlar hljóma kannski ekki mjög spennandi, eða hvað? „Það fer nú kannski eftir því hvern þú spyrð,“ segir Helga Sigrúnog hlær. „Staðlar eru nefnilega alveg ótrúlega spennandi fyrirbæri. Svo eru þeir eins og súrefni, lífsnauðsynlegir, allt í kringum okkur en að mestu ósýnilegir. Það eru til nokkrar tegundir staðla; aðferðarstaðlar, gæðastaðlar, prófunarstaðlar, kerfisstaðlar og svo margir grunnstaðlar sem taka á undirstöðuatriðum eins og máli, vog og stærðfræðitáknum. „Helga Sigrún bendir á að mjög margt af því sem við gerum og notum dags daglega byggi á stöðlum. „Virkni greiðslumiðlunar, hvort sem greitt er með kortum, símum, úrum eða beint á vefnum er stöðluð og við getum notað símana okkar á mismunandi símkerfum um allan heim. Rafrænar lausnir, fjarskipti og samvirkni ólíkra kerfa er möguleg af því hagsmunaaðilar hafa komið sér saman um hvernig best er að gera hlutina. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að neytendur eigi þátt í því samtali, sem einn hagaðila en Neytendasamtökin hafa átt fulltrúa í stjórn Staðlaráðs um langt árabil.“
Helga Sigrún segir erfitt að ímynda sér heiminn án staðla. „Staðlar verða til þegar hagsmunaaðilar svara spurningunni „Hvernig er best að gera þetta?“ þegar horft er fram á veginn til að búa til bestu mögulegu lausnir. Af því að þeirri spurningu hefur verið svarað, getum við neytendur auðveldlega flakkað á milli vörumerkja þegar við kaupum okkur síma, tölvur, sjónvörp og bíla. Símkort frá hvaða þjónustuaðila sem er passar í símana okkar, tölvurnar tala við þráðlaus net, hvaðan sem þau eru fengin, bluetooth-kerfi bílanna virka líka eins óháð bíltegund og við getum treyst því að eldsneyti passar fyrir bílinn okkar óháð því hvar við kaupum það. Án staðla væri þetta ekki mögulegt.“
Það er líka mikilvægt fyrir neytendur að vita að staðlar verða stundum hluti af löggjöf. Sem dæmi má nefna þolhönnunarstaðla við hönnun mannvirkja, og þar höfum við skrifað okkar eigin þjóðarviðauka því á Íslandi þarf t.d. að tryggja að hús séu jarðskjálftaheld. Annað dæmi er ákvörðun löggjafans um að vísa til íslenska jafnlaunastaðalsins í jafnréttislöggjöfinni til að ná fram breytingum sem miða að því að vinnuveitendur megi ekki mismuna fólki sem vinnur sambærileg störf í launum. Nýleg rannsókn leiðir í ljós að launamunur milli kynja hefur dregist verulega saman eftir að krafan var gerð.
Helga Sigrún segir að langflestir íslenskir staðlar séu evrópskir að uppruna en svo hafi líka verið skrifaðir séríslenskir staðlar sem taki mið af aðstæðum hér á landi. „Á vettvangi Staðlaráðs hefur byggingarstig húsa verið skilgreint þannig að þegar við kaupum okkur húsnæði á tilteknu byggingarstigi, þar sem miðað er við staðalinn ÍST 51, er alveg ljóst hvað á að vera fullfrágengið og hvað ekki. Það er nú heldur betur falin neytendavernd í því, að ekki sé talað um einföldun í samningagerð, einfaldara eftirlit o.s.frv.
Margir muna eflaust þá tíma þegar sérstakt hleðslutæki fylgdi hverri farsímategund þar sem hver framleiðandi var með eigin lausn. Þetta hefur breyst þökk sé stöðlum sem tryggja samvirkni þó að það takist ekki alltaf í fyrstu umferð að fá alla framleiðendur um borð í sama bátinn. Helga Sigrún segir mikilvægt að halda „teikniborðinu virku“ því þó að hérlendis séu í gildi um 30.000 staðlar opnast ný tækifæri til að auka samvirkni á hverjum degi og það sé hægt að gera miklu betur á mörgum sviðum. „Það er sérlega mikilvægt að hagsmunaaðilar skilgreini grunngerð ýmissa kerfa sem fyrirsjáanlegt er að við þurfum að koma okkur upp vegna þróunar t.d. í opinberri þjónustu, á fjármálamörkuðum og vegna orkuskipta. Nú er unnið að nokkrum slíkum verkefnum á vettvangi Staðlaráðs.“ Helga Sigrún segir að þar gildi hið gamla lögmál um að vel skuli vanda það sem lengi skal standa og slík vinna sé til þess fallin að auka hagræði, skilvirkni og sjálfbærni, og stuðla að opinni og gagnsærri stjórnsýslu og aukinni samfélagslegri ábyrgð. „Tilvikum fækkar þar sem við lendum í að kaupa okkur „millistykki“ til að hlutirnir virki og við búum á upphafsmetrum til trausta farvegi fyrir fjölbreyttar vörur sem eiga það sameiginlegt að uppfylla staðlaðar kröfur um virkni og öryggi. Staðlar létta okkur lífið, gera það öruggara og betra,“ segir Helga Sigrún að lokum.
Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.
Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.