Fréttir

Sendingagjöld Íslandspósts

Samkvæmt nýsamþykktum breytingum á lögum um póstþjónustu er Íslandspósti nú heimilt að innheimta endastöðvagjald sem á að því gefnu að það taki mið af kostnaði við póstmeðferð,  upphæð þess sé í samræmi við gæði þjónustu og gjaldið gegnsætt. Íslandspóstur lagði í sumar á endastöðvagjald, sem í gjaldskrá er kallað sendingargjald; 400 kr. fyrir sendingar frá Evrópu og 600 kr. fyrir sendingar frá löndum utan Evrópu. Að auki leggst á umsýslugjald á allar sendingar, frá 450 kr. að 995 kr. Móttökugjald sem lagt er á neytendur fyrir sendingar utan Íslands verður því að lágmarki 850 kr. fyrir sendingar frá Evrópulöndum og 1.050 kr. fyrir sendingar frá löndum utan Evrópu.   

Neytendasamtökin sendu inn umsögn um frumvarpið þar sem mótmælt var að kostnaði vegna rekstrarvanda Íslandspósts væri velt á herðar neytenda á þennan hátt. Í umsögninni er því mótmælt að gjaldið væri lagt á herðar neytenda án þess að fyrir lægi greining á því hver kostnaður vegna erlendra sendinga væri í raun. Neytendasamtökin hafa ítrekað óskað eftir gögnum sem liggja til grundvallar endastöðvagjöldunum, en forstjóri Íslandspósts hefur svarað því til að þau séu ekki til. Samtökin hafa bent Íslandspósti og umhverfis- og samgöngunefnd alþingis að það brjóti beinlínis í bága við 17. grein póstþjónustulaga enda eigi gjöldin að byggja á raunkostnaði við að veita þjónustuna.

Þá bentu Neytendasamtökin á í umsögn sinni að réttara væri að ráðast í hagræðingaraðgerðir áður en gjaldið yrði sett á, eitthvað sem nýráðin forstjóri hefur gert, en einungis eftir að þessu gjaldi hefur verið komið á.

Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er stærsti hluti vanda Íslandspósts vegna sendinga frá Asíu. Þeirri röksemd hefur nýr forstjóri Íslandspóst hrundið í orði og á borði, með skipulagsbreytingum og eignasölu. Samkvæmt Alþjóðapóstsamningnum fá lönd í Asíu að halda eftir meginþorra þess póstburðargjalds sem sendandi greiðir. Samt sem áður er þetta nýja gjald lagt á sendingar frá öllum löndum. Séu lélegir samningar ástæða vanda Íslandspósts telja Neytendasamtökin réttast að íslensk stjórnvöld réðust að rót vandans í stað þess að seilast í vasa íslenskra neytenda. Margir hafa spurt sig hvort með endastöðvagjaldinu sé verið að greiða niður óráðsíu undanfarinna ára og taps á samkeppnishluta Íslandspósts, en það væri háalvarlegt mál.

Neytendasamtökin hafa lengi gagnrýnt háan kostnað vegna póstsendinga sem hamlar samkeppni og stuðlar að hærri verðlagningu verslana á Íslandi með því að reisa ígildi verndarmúra. Þess vegna hafa samtökin beint málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem gjaldið gæti brotið í bága við EES samninginn. Málið er nú til skoðunar hjá ESA.

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.