Fréttir

Þetta þarftu að vita um Temu

Poetra.RH/Shutterstock.com

Kínverska vefverslunin Temu var stofnuð í september 2022 og hefur náð undraverðum vexti á örskömmum tíma. Í byrjun árs hafði Temu-appið verið sótt tæplega 50 milljón sinnum af neytendum um heim allan.

Temu hefur fengið sinn skref af gagnrýni. Margar vörur þykja af litlum gæðum, markaðssetning er ágeng og grunur er um að sumar vörur séu framleiddar við óviðunandi aðstæður. Hraðan vöxt Temu má meðal annars rekja til gegndarlausrar markaðssetningar. Sem dæmi auglýsti Temu í auglýsingahléi Ofurskálarinnar (e. Super Bowl) nú í febrúar, en vart er hægt að finna dýrari auglýsingapláss. Telja sérfræðingar að kostnaður við markaðssetningu Temu sé svo hár að fyrirtækið sé enn að borga með flestum vörum.

Verðið lyginni líkast
Temu líkist að mörgu leyti Shein, sem er annar kínverskur vefverslunarrisi. Á meðan Shein selur mestmegnis föt og fylgihluti selur Temu allt milli himins og jarðar, eða 25 milljón vörutegundir að eigin sögn. Temu býður svo lágt verð að undrum sætir. Er hið lága verð skýrt þannig að milliliðir hafi verið teknir út og neytendur kaupi beint af seljendum. Í flestum tilfellum virðist verðið þó ekki duga fyrir hráefninu, hvað þá framleiðslukostnaði. Sem dæmi er hægt að finna strigaskó fyrir 2.000 kr., þráðlaus heyrnartól fyrir 1.600 kr. og plasthylki utan um síma fyrir 135 kr.

Hér má sjá dæmi um vöruúrvalið. Allar vörur eru á afslætti, þær fá allar góð meðmæli og því er gjarnan borið við að vara sé við það að seljast upp.

Leikjavæðing verslunar
Temu nýtir samfélagsmiðla til fulls og vinnur með áhrifavöldum sem deila út afsláttarkóðum og fá greitt fyrir að auglýsa Temu-appið. Viðskiptavinir sem deila afsláttarkjörum til vina og fjölskyldu geta einnig fengið afsláttarkóða eða gjafir að launum. Þá geta notendur unnið sér inn afslátt með því að fara á Temu-appið á hverjum degi og taka þátt í leikjum og annarri afþreyingu. Þessi leikjavæðing miðar að því að halda neytendum við efnið og innkaupin, en líkt og dæmin sanna getur slíkt verið ávanabindandi. Þegar við bætist nær óendanlegt vöruútboð á ótrúlega lágu verði þarf kannski ekki að undra að fólk falli í freistni.

Temu gerir einnig út á svokallaðan útundanótta (e. FOMO eða Fear of missing out) en það er gömul brella að láta neytendum líða eins og þeir séu að missa af stórgóðu tilboði. Vörurnar eru ýmist við það að verða uppseldar eða eru á tilboði sem rennur út eftir nokkra klukkutíma. Reyndar virðast allar vörur vera á tilboði en samkvæmt íslenskum lögum, sem og í Evrópu, verða seljendur að geta sýnt fram á að tilboðsverð sé raunverulegt. Það þýðir að vara verður að hafa verið seld á „fyrra verði“ í tiltekin tíma. Fyrra verð kemur aldrei fram á vef Temu.

Of góð meðmæli?
Allar vörur í verslun Temu fá frekar góða einkunn, en ómögulegt er að vita hvort meðmælin eru sönn. Miðað við fyrirferðarmikið meðmælasvindl á netinu má ætla að ekkert sé að marka stjörnugjöfina, sér í lagi þar sem það er fyrirtækið sjálft sem skellir stjörnunum fram.

Which? skoðaði meðmæli um Temu á Trustpilot, en þar geta neytendur skrifað meðmæli um vörur og þjónustu. Í ljós kom að stór hluti þeirra sem gáfu fyrirtækinu fimm stjörnur í einkunn voru neytendur sem deildu jafnframt afsláttarmiðum og áttu því hagsmuna að gæta. Trustpilot hefur fjarlægt um 1.700 meðmæli sem talin voru fölsuð eða sett inn í markaðslegum tilgangi. Út frá einkunnagjöf neytenda á Trustpilot eru viðskiptavinir Temu ýmist mjög ánægðir eða mjög óánægðir. Um 50% gefa Temu bestu einkunn eða 5 stjörnur og 31% einungis eina stjörnu. Sjá meira um meðmælasvindl hér.

Gortað af afrakstrinum
Vinsældir myndskeiða sem á ensku nefnast „Haul videos“ eru ótrúlega miklar. Í myndskeiðunum má sjá kaupglaða viðskiptavini opna hverjar Temu-plastumbúðirnar á fætur öðrum. Vörunum er lýst fyrir áhorfendum, fötin mátuð og umsögn jafnvel gefin. Myllumerkið Temuhaul á TikTok er með meira en 2 milljarða áhorf og Shein var í fyrra með 5,4 milljarða áhorf á á Tiktok.

Eru vörurnar öruggar?
Fyrirtæki eins og Temu, Shein og Amazon eru nokkurs konar vef-markaðstorg. Þau bjóða upp á fjölbreytt úrval af vörum frá mörgum ólíkum framleiðendum. Flest fyrirtæki af þessu tagi hafa ekki fyrir því að sannreyna hvort vörur standist öryggiskröfur eða séu falsaðar. Neytendur þurfa að hafa í huga að þegar keypt er vara frá landi utan Evrópska efnahagssvæðisins eru þeir innflytjendur og ábyrgir fyrir því að varan sé hæf og heimil til innflutnings inn á svæðið. Þannig þurfa vörur að uppfylla evrópska öryggisstaðla og vera rétt vottaðar, og innflytjandinn getur þurft að sýna yfirvöldum fram á slíkt. Fjölmargar vörur á Temu eru frá vörumerkjum sem eru óþekkt, í það minnsta á Vesturlöndum, og margar vörur eru án nokkurs vörumerkis.

Which? gerði gæðakönnun á rafmagnshiturum fyrri hluta árs og fengu hitarar keyptir á Temu falleinkunn. Í öðru tilfelli skoðaði Which? ódýr hleðslutæki og rafmagnsklær frá fjölda vefverslana, Temu þar á meðal, sem í mörgum tilfellum þoldu ekki lágmarksálagspróf. Ítölsku neytendasamtökin, Altroconsumo, keyptu fjölbreyttan varning af Temu og stóðust margar vörurnar ekki skoðun.

Finna má fjölda vara á Temu sem eru eftirlíkingar með tvisti. Hér má sjá Ilmvatnið COOC sem er augljós stæling á Chanel’s Coco.

Grunur um nauðungarvinnu
Temu hefur einnig legið undir ámæli fyrir að selja vörur sem framleiddar eru í Xinjiang- héraði af Úígúum. Eru kínversk stjórnvöld grunuð um að halda fleiri hundruð þúsund Úígúum í nauðungarvinnu undir því yfirskyni að þeir séu í þjálfunarbúðum. Fyrirtækið viðurkenndi fyrir þingnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings að það sinnti ekki eftirliti með sínum birgjum eða fyrirtækjum sem selja í gegnum Temu. Þau eru fleiri en 80.000 talsins að sögn Temu.

Er óhætt að versla á Temu?
Samkvæmt Which? virðist sem reynsla viðskiptavina sé bæði mjög góð en einnig séu margir sem telji vörugæðin ekki nógu mikil. Þá hafa ýmsar rannsóknir á varningi keyptum af Temu, sýnt að margar vörur standa ekki þær öryggiskröfur sem gerðar eru innan Evrópusambandsins. Af öryggisástæðum er ráðlagt að forðast vörur eins og leikföng, öryggisbúnað, raftæki, snyrtivörur og augljósar eftirlíkingar.

Temu hefur einnig legið undir ámæli fyrir að nota svokallaða hulduhönnun (e. dark pattern) en þá er hönnun vísvitandi beitt til að blekkja notendur. Einnig skorti upplýsingar um það hver sé raunverulegur seljandi vöru en það eru upplýsingar sem neytendur eiga rétt á. Þá skorti á allt gegnsæi hvað varðar meðmæli á síðunni, en allar vörur fá afbragðseinkunn sem er mjög grunsamlegt.

Góður skilaréttur
Skilaréttur Temu er ríkari en almennt gerist eða 90 dagar frá kaupdegi. Frá því að neytandi gerir kröfu um að skila vöru hefur hann 14 daga til að senda hana til baka. Which? segist hafa af því fregnir að oft sé ekki gerð krafa um að vara sé send til baka. Verð er svo lágt að það svarar ekki kostnaði fyrir seljanda að koma vörunni aftur í sölu, heldur er henni fargað ónotaðri, og er því ekki alltaf gerð sú krafa að vörunni sé skilað. Hér má lesa meira um þessa óumhverfisvænu þróun.

Fréttir í sama dúr

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Staðan í Vaxtamálinu

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.