Fréttir

Tjón vegna samráðs metið á 62 milljarða króna

Fréttatilkynning frá Félagi atvinnurekenda, Neytendasamtökunum og VR

Ólögmætt samráð stóru skipafélaganna Eimskips og Samskipa kostaði íslenskt samfélag tæplega 62 milljarða króna á árunum 2008 til 2013. Þar af var kostnaðarauki neytenda 26 milljarðar króna sem rekja má beint til hækkana gjaldskrár skipafélaganna umfram almennt verðlag. Lántakendur verðtryggðra lána greiddu um 17,4 milljarða aukalega vegna hækkunar vísitölu sem tilkomin er vegna samráðsins, og er það varlega áætlað. Þetta er á meðal niðurstaðna frummats á tjóni vegna samkeppnisbrota Samskipa og Eimskips, sem ráðgjafarfyrirtækið Analytica vann fyrir Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR.

Samráðsbrotum skipafélaganna er lýst ýtarlega í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SE) í máli Samskipa sem var birt í lok ágúst sl. Að mati Analytica leiddi samráðið til þess að vísitala neysluverðs hækkaði um 0,7% umfram það sem gera hefði mátt ráð fyrir ef gjaldskrár skipafélaganna hefðu haldist óbreyttar að raungildi. Áætlað er að kostnaðarauki fyrirtækja í útflutningi hafi numið um 12,7 milljörðum, viðskiptavina í flutningsmiðlun um 3,7 milljörðum og viðskiptavina í landflutningum um 1,9 milljörðum. Þessar tölur eru á verðlagi 2. ársfjórðungs síðasta árs, um það leyti sem SE birti ákvörðun sína.

Í greiningu Analytica er farið ýtarlega yfir einstaka matsþætti og forsendurnar að baki þeim. Analytica bendir á að gjaldskrár skipafélaga í nágrannalöndunum hafi farið lækkandi á þeim tíma, sem samráðið stóð yfir, en hins vegar hækkuðu þær verulega hjá Samskipum og Eimskipi. Afkoma íslensku skipafélaganna var sömuleiðis mun betri en helstu erlendu skipafélaga á sama tíma.

Mat Analytica er frummat, byggt m.a. á gögnum sem er að finna í ákvörðun SE í máli Samskipa, en ýtarlegra mat á tjóni einstakra viðskiptavina eða hópa viðskiptavina getur átt eftir að fara fram, t.d. vegna skaðabótamála á hendur skipafélögunum.

„Þetta er dýrkeypt og hrikaleg aðför að neytendum, sem ekki má endurtaka. Það væri mikill fælingarmáttur fólginn í að auðvelda neytendum að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota, til dæmis með innleiðingu tilskipunar 2014/104/ESB í íslensk lög eða að sett verði sambærileg lög.  Þá þarf að skýra lög og heimildir fyrir almannaheillasamtök að efna til hópmálsókna og gera þær að raunverulegum kosti í svona málum,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

„Þessar tölur varpa ljósi á það hversu dýrkeypt samkeppnisbrot geta reynst íslensku atvinnulífi. Það er mikilvægt að hafa skilvirkt samkeppniseftirlit, sem upplýsir slík brot, og sömuleiðis að afleiðingar samkeppnisbrota séu þess eðlis að þær fæli fyrirtæki frá slíku athæfi,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það er þess vegna mikilvægt að fyrirtæki láti reyna á rétt sinn til skaðabóta af hálfu stóru skipafélaganna. Sum fyrirtæki hafa þegar stigið fyrstu skrefin í þeim efnum.“

Skipafélögin sýndu launafólki og neytendum í landinu algjört virðingarleysi með samráði sín á milli og nú sjáum við hvað það kostaði samfélagið. Þetta undirstrikar enn og aftur mikilvægi þess að efla Samkeppniseftirlitið sem gegnir lykilhlutverki við að verja hagsmuni almennings. Þessi niðurstaða er mikilvægt innlegg í kjaraviðræðurnar – öflugt Samkeppniseftirlit er ein forsenda þess að við semjum til réttlátrar framtíðar“, segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Gerast félagi í Neytendasamtökunum

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.