Fréttir

Villandi „eingreiðslutilboð“ Almennrar innheimtu

Þessa dagana er Almenn innheimta að senda skilaboð til fólks sem tekið hefur smálán og eru til innheimtu hjá fyrirtækinu. Um er að ræða staðlaðan texta þar sem lántakendum er boðið að greiða upp heildarskuld með eingreiðslu undir formerkjum „eingreiðslutilboðs“. Í textanum kemur jafnframt fram að allur áfallinn kostnaður tengdur skuldinni falli niður.

Þeir sem hafa leitað til samtakanna hafa allir lagt þann skilning í tilboðið að um sé að ræða endanlegt uppgjör á öllum útistandandi kröfum, enda sérstaklega kveðið á um fjárhæð „heildarskuldarinnar“ og ekki koma fram neinar upplýsingar um kröfunúmer í textanum.

Í öllum málunum sem samtökunum hefur borist tengdum „eingreiðslutilboðinu“ hafa útistandandi kröfur verið fleiri en ein. Heildarfjárhæð allra útistandandi krafna er þar með mun hærri en sem nemur þeirri fjárhæð sem kemur fram í tilboðinu. Lántakendur eru því flestir undir því yfirskini að um kostaboð sé að ræða þar sem dágóður afsláttur yrði veittur gegn uppgreiðslu krafnanna.

Svona hljóða skilaboðin frá Almennri innheimtu:

„Góðan dag

Við höfum til innheimtu skuld frá kröfuhafanum Ecommerce2020 ApS, sem við viljum bjóða þér að klára fyrir fullt og allt. Okkur langar að koma til móts við þig og fella niður allan áfallinn kostnað á skuldinni. Heildarskuldin í dag er X þar af er höfuðstóllinn Y.

Við viljum bjóða þér að klára málið með eingreiðslu að upphæð Y.

Við sýnum því skilning að þú getir kannski ekki greitt upphæðina strax og því getum við sent þér greiðsluhlekk sem þú getur greitt um mánaðarmótin eða samkvæmt samkomulagi.“

Í ljósi umdeildra og á tíðum ólögmætra starfshátta Almennrar innheimtu hvöttu Neytendasamtökin lántakendur til að fá nánari skýringar á þessu „kostaboði“. Í ljós kom að einungis er verið að bjóða afslátt af einni kröfu en ekki heildarskuldinni. Orðalag „eingreiðslutilboðsins“ er að mati samtakanna afar villandi þar sem auðveldlega má misskilja orðalag um heildarskuld sem allar útistandandi kröfur. 

Þar sem Neytendasamtökin hafa séð mörg dæmi  um að Almenn innheimta innheimti ólögmæt lán, og hafi þar að auki sett himinháan innheimtukostnað ofan á slíkar kröfur, vara þau fólk við að taka tilboðinu nema ljóst sé að viðkomandi skuldi raunverulega höfuðstól lánanna.

Því miður er ekkert opinbert eftirlit með fyrirtækinu sem virðist geta hagað sér að vild og hefur þar af leiðandi verið mikilvægur hlekkur í því smálánabraski sem fengist hefur að viðgangast hér á landi og reynst mörgum dýrkeypt.

Fréttir í sama dúr

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Staðan í Vaxtamálinu

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.