Fréttir

70 ár frá undirbúningsfundi

Sveinn Ásgeirsson

Í ár eru 70 ár frá undirbúningsfundi að stofnun Neytendasamtakanna en segja má að afmælisdagar samtakanna séu tveir. Þann 26. janúar 1953 var boðað til fundar um stofnun Neytendasamtakanna. Tildrög fundarins má rekja til tveggja útvarpserinda sem Sveinn Ásgeirsson hagfræðingur hélt í Ríkisútvarpinu síðla árs 1952. Ræddi Sveinn almennt um bága stöðu íslenskra neytenda og tók fjölda dæma af ýmsu sem betur mætti fara. Erindin vöktu verðskuldaða athygli og úr varð að Sveinn, ásamt Jóhanni Sæmundssyni prófessor og Jónínu Guðmundsdóttur, þá var formaður húsmæðrafélags Reykjavíkur, boðuðu til fundarins fyrir hönd ýmissa áhugamanna eins og það var orðað. Fundurinn var vel sóttur og tóku margir til máls. Kosin var bráðabirgðastjórn sem skyldi gera uppkast af lögum og undirbúa framhaldsstofnfund. Sá fundur var haldinn 23. mars og markaði formlega stofnun Neytendasamtakanna.

Fyrsti formaður

Sveinn Ásgeirsson hagfræðingur var fyrsti formaður Neytendasamtakanna og bar hitann og þungann af starfseminni fyrstu fimmtán árin. Sveinn fæddist í Reykjavík 17. júlí 1925. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1944, fyrrihluta prófi í lögfræði við HÍ 1945–1950, stundaði nám við Stokkhólmsháskóla frá 1945 og lauk þaðan fil.kand. prófi í þjóðhagfræði, bókmenntasögu, heimspeki og listasögu.

Sveinn var fjölmenntaður og fjölhæfur maður. Hann hóf að sinna blaðamennsku á námsárunum, varð landsþekktur sem stjórnandi einhverra vinsælustu skemmtiþátta í sögu Ríkisútvarpsins á árunum 1952–1960, var vel ritfær, afkastamikill rithöfundur um margvísleg efni, þýddi ýmis erlend rit og sinnti útgáfumálum. Hann var hægur maður og ljúfur í viðkynningu, vel að sér um margvísleg málefni og eldhugi þegar því var að skipta, einkum hvað varðaði neytendamál og málefni blindra. Hann var sæmdur Gulllampanum, æðsta heiðursmerki Blindrafélagsins 1985, og gerður að heiðursfélaga Neytendasamtakanna árið 1986. Sveinn lést 7. júní 2002.

Úr Sögu Neytendasamtakanna sem Ragnhildur Guðjónsdóttir ritaði

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.