Fréttir

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

iStock.com/recep aktas

VR og Neytendasamtökin fagna dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem höfðað var gegn Samkeppniseftirlitinu vegna breytinga sem gerðar voru á búvörulögum. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð Alþingis hafi brotið í bága við stjórnarskrá og frumvarp um breytingar á búvörulögum hafi ekki náð áskildum fjölda umræðna á þingi samkvæmt 44. gr. stjórnarskrárinnar. Sú breyting sem gerð var á búvörulögum og samþykkt á Alþingi í mars á þessu ári hefur því ekki lagagildi.

Frumvarp um breytingar á búvörulögum var lagt fram undir lok síðasta árs. Það tók umtalsverðum breytingum í meðförum atvinnuveganefndar og gerðu fjölmargir aðilar alvarlegar athugasemdir við þær breytingar sem fólu í sér undanþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá samkeppnislögum. Í sameiginlegri umsögn VR, Neytendasamtakanna, Samtaka verslunar og þjónustu og Félags atvinnurekenda kom fram að breytingarnar myndu skaða hagsmuni neytenda, launafólks og verslunar og vega að forsendum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem þá voru nýundirritaðir. Þær myndu óhjákvæmilega leiða til hækkunar á verði á kjötvörum og fóðra verðbólguna. Sjá umsögn samtakanna til atvinnuveganefndar Alþingis.

Athugasemdir við frumvarpið beindust einnig að þeirri handvömm sem var við meðferð málsins á Alþingi. Breytingar atvinnuveganefndar fólu efnislega í sér nýtt frumvarp sem ekki hafði fengið meðferð í samræmi við ákvæði stjórnarskrár, þ.e. að fara í gegnum þrjár umræður.

Eftir samþykkt frumvarpsins brugðust kjötafurðastöðvar við með uppkaupum og verðlag á kjötvörum hækkaði. Þeirri kröfu var beint til Samkeppniseftirlitsins að það brygðist við þessari þróun. Samkeppniseftirlitið taldi sig hins vegar bundið af lagabreytingunni og gæti því ekki brugðist við með þeim hætti sem krafist var og það hefði ellegar gert. Í framhaldi af var höfðað dómsmál gegn Samkeppniseftirlitinu og hefur Héraðsdómur Reykjavíkur nú fellt dóm. Í dómnum er tekið undir þau sjónarmið að breytingar atvinnuveganefndar á upprunalega frumvarpinu feli í raun í sér nýtt frumvarp. Hið nýja frumvarp nefndarinnar fór í gegnum tvær umræður á þingi síðastliðið vor, ekki þrjár eins og kveðið er á um í stjórnarskrá. Meðferð þingsins á málinu stangast því á við stjórnarskrá og frumvarpið hefur ekki lagagildi.

VR og Neytendasamtökin studdu við þessa málsókn. „Þessi dómur er áfellisdómur yfir vinnubrögðum Alþingis en sýnir svart á hvítu að hagsmunaðilar geta ekki komið bakdyramegin að lagasetningu þingsins,“ segir Halla Gunnarsdóttir, varformaður VR og starfandi formaður. „Það er mikilvægt að Samkeppniseftirlitið taki sameiningar kjötafurðarstöðva til tafarlausrar skoðunar til hagsbóta fyrir neytendur og að Alþingi læri af þessu,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Sjá dóminn í heild sinni.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.