Fréttir

Bönkunum stefnt fyrir dóm

Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum voru í liðinni viku birtar samtals sex stefnur í Vaxtamálinu svokallaða, er varða skilmála og vaxtaákvarðanir lána með breytilegum vöxtum. Í þessari viku verða málin gegn Arion banka og Landsbankanum þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur en mál Íslandsbanka í Héraðsdómi Reykjaness. Lögfræðistofa Reykjavíkur rekur málin fyrir hönd neytenda. Neytendasamtökin standa straum af kostnaði við málareksturinn og njóta til þess veglegs styrks frá VR, en munu einnig sækja í nýjan málskotssjóð Samtaka fjármálafyrirtækja tengdum úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

Neytendasamtökin tilkynntu um ætlan sína í maí síðastliðnum og óskuðu eftir þátttöku almennra lántaka. Viðbrögð fóru fram úr björtustu vonum og hafa nú rúmlega 1.500 manns skráð sig til þátttöku vegna á sjötta þúsund lána. Enn eru fleiri að bætast við og hægt er að skrá sig til þátttöku og frá frekari upplýsingar á vaxtamalid.is. Þátttaka í verkefninu er brýn öllum þeim sem vilja halda til haga hugsanlegum rétti sínum til endurgreiðslu ofgreiddra vaxta, sem ella kann að fyrnast.

Í júní voru bönkunum send erindi þar sem óskað var eftir afhendingu afrita af skilmálum lána með breytilegum vöxtum ásamt greiðsluyfirlitum, bæði vegna útistandandi lána og lána sem hafa verið greidd upp á síðastliðnum 4 árum. Gögnin eru nauðsynleg til þess að hægt sé meta lögmæti skilmálanna og umfang hugsanlegra endurkrafna.

Gagnaöflun hefur gengið misvel vegna umfangs málsins, en einnig standa enn yfir viðræður við Íslandsbanka og Arion banka um með hvaða hætti nauðsynleg gögn verði afhent svo hægt sé að sannreyna útreikninga bankanna, eða reikna út mögulega oftöku þeirra. Ákveði bankarnir að hafna gagnaahendingu eða tefja hana frekar en orðið er telja Neytendasamtökin það skýr brot á lögum um persónuvernd, en þar segir að almenningur eigi skýlausan rétt á að fá afhent þau gögn sem fyrirtæki hafa unnið með og um þá. En það væru líka undarlegir viðskiptahættir, svo ekki sé fastara að orði kveðið, að neita viðskiptavinum sínum um gögn og koma þannig í veg fyrir að þeir geti sannreynt hvort útreikningar bankans standist.

Neytendasamtökin telja að banki geti ekki að réttum lögum vikið sér undan því að afhenda viðskiptavinum sínum umbeðin gögn um lán og greiðslur, og hafa til skoðunar að ná fram rétti neytenda í málinu, þar á meðal að leita til Persónuverndar.   

Nánari upplýsingar, svör við helstu spurningum og skráning til þátttöku á vaxtamalid.is.

Um dómsmálin:
Í dómsmálunum sem í vikunni verða þingfest reynir á lögmæti algengustu skilmála bankanna um breytilega vexti í neytendalánum og gerð krafa um endurgreiðslu oftekinna vaxta. Byggt er á því að skilmálar bankanna skorti gagnsæi og skýrleika sem leiði  til þess að vaxtaákvarðanir séu háðar hentistefnu bankanna á hverjum tíma. Flest málin snúa að fasteignalánum, en einnig almennum skuldabréfalánum. Elsta lánið sem málsóknir snúa að var tekið 2006, en það nýjasta fyrr á þessu ári. Umfangsmesta dómkrafan er upp á tæplega 6 millj. kr. Þó að í öðrum málum sé krafist lægri endurgreiðslufjárhæða, þá eru oft þeim mun meiri hagsmunir til framtíðar litið. Nánari upplýsingar um málsóknirnar er að finna á vaxtamalid.is.

Um stefnurnar:
Í máli gegn Landsbankanum er gerð krafa um að bankinn endurgreiði hjónum oftekna vexti af óverðtryggðu fasteignaláni. Lánið var að fjárhæð kr. 6,5 millj., tekið 2019 og greitt upp tveimur árum síðar. Stefnufjárhæðin er 83 þúsund krónur. Byggt er á því að skilmálar lánsins um breytilega vexti hafi verið ólögmætir og lánið hafi átt að bera vexti sem Seðlabanki Íslands ákvarðar með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum óverðtryggðum lánum. Í stefnu er byggt á því skilmálarnir uppfylli ekki kröfur um gagnsæi og skýrleika sem leiða af lögum um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, sbr. 36. gr. c. – eins þau ákvæði er rétt að skýra samkvæmt tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

Í öðru máli gegn Landsbankanum er stefnt vegna tveggja skuldabréfalána sem tekin voru árið 2006. Lánin voru upphaflega að fjárhæð kr. 2,3 millj og voru greidd upp sl. sumar. Stefnufjárhæðin er í báðum tilvikum ríflega 1,7 millj. krónur. Byggt er á því að skilmálar lánsins um breytilega vexti hafi verið ólögmætir og lánið hafi átt að bera vexti sem Seðlabanki Íslands ákvarðar með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum verðtryggðum lánum. Í skilmálum segir að lánið beri kjörvexti sem Landsbankinn ákveður, en ekkert sagt um aðstæður eða skilyrði fyrir vaxtabreytingum. Í stefnu er byggt á því að skilmálarnir uppfylli ekki kröfur um skýrrleika og gagnsæi sem leiða af lögum um neytendalán nr. 142/1994 og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, sbr. 36. gr. c. – eins þau ákvæði er rétt að skýra samkvæmt tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

Í máli gegn Arion banka er gerð krafa um að bankinn endurgreiði hjónum oftekna vexti af verðtryggðu fasteignaláni. Lánið var að fjárhæð kr. 5,4 millj., tekið 2017 og greitt upp fjórum árum síðar. Stefnufjárhæðin er 340 þúsund krónur. Byggt er á því að skilmálar lánsins um breytilega vexti hafi verið ólögmætir og lánið hafi átt að bera vexti sem Seðlabanki Íslands ákvarðar með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum verðtryggðum lánum. Í stefnu er byggt á því skilmálarnir uppfylli ekki kröfur um gagnsæi og skýrleika sem leiða af lögum um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, sbr. 36. gr. c. – eins þau ákvæði er rétt að skýra samkvæmt tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

Í máli gegn Íslandsbanka er gerð krafa um að bankinn endurgreiði hjónum oftekna vexti af verðtryggðu fasteignaláni og þess krafist að staðfest verði að bankanum hafi verið óheimilt að hækka vexti af láninu. Lánið var að fjárhæð kr. 57 millj., og var tekið í janúar 2021. Stefnufjárhæðin er 80 þúsund krónur. Byggt er á því að skilmálar lánsins um breytilega vexti hafi verið ólögmætir og því hafi bankanum verið óheimilt að nýta heimild í skilmálanum til þess að hækka vextina af láninu. Í stefnu er byggt á því skilmálarnir uppfylli ekki kröfur um gagnsæi og skýrleika sem leiða af lögum um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, sbr. 36. gr. c. – eins þau ákvæði er rétt að skýra samkvæmt tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

Í öðrum máli gegn Íslandsbanka reynir á skilmála sem Hæstiréttur hefur þegar lýst ólögmætan með dómi í máli nr. 623/2016. Í stefnu er byggt á því að bankinn hafi ekki brugðist rétt við dóminum, þar sem bankinn hefur haldið áfram að innheimta upphaflega vexti lánsins, þrátt fyrir að vaxtaskilmáli veðskuldabréfsins hafi verið dæmdur ólögmætur. Lánið var tekið 2007 og greitt upp sl. vor. Stefnufjárhæðin er 5,9 millj. króna. Byggt er á því að skilmálar lánsins um breytilega vexti séu ólögmætir og því hafi lánið átt að bera vexti sem Seðlabanki Íslands ákvarðar með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum verðtryggðum lánum. Tvö mál af þessum toga verða nú þingfest.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.