Fréttir

Neytendablaðið er komið út

Haustblaðið okkar er stútfullt af áhugaverðu efni sem enginn neytandi má missa af. Þar má meðal annars finna umfjöllun um bílastæðamál en óhætt er að segja að mikil ringulreið ríki í þeim málaflokki. Sektargreiðslur geta verið himinháar og það er alls óvíst hvort að innheimta þeirra standist lög.

Við segjum frá nýstárlegri markaðssetningu í Danmörku þar sem áhrifavaldar eru í aðalhlutverki og danska kirkjan kemur við sögu.

Réttur notenda heilbrigðisþjónustu er okkur ofarlega í huga að þessu sinni. Við lítum til Finnlands þar sem miklar breytingar hafa verið gerðar á umgjörð heilbrigðiskerfisins á undanförnum árum.  Systursamtök okkar sinna áhugaverðu verkefni sem snýst um ráðgjöf til notenda heilbrigðisþjónustu svo sem hvert þeir geta leitað telji þeir á sér brotið, og hvaða úrræði séu í boði. Við tökum Juliu Lumijärvi tali en hún heldur utan um verkefnið.

Hvíta litarefnið títandíoxíð hefur verið bannað í matvælum frá árinu 2022 en það er leyft í lyfjum. Hvernig stendur á því?

Við segjum frá neytendavænum aukefna-gagnagrunni frönsku neytendasamtakanna Que Choisir og forvitnumst um það hvers vegna umdeilt aukefni hefur verið notað í brauðosta.

Rétturinn til viðgerðar er mikilvægt skref í átt að hringrásarhagkerfi, en hvaða þýðingu hefur hann í raun og veru?

Dropshipping færist mjög í vöxt en í raun er um einskonar sýndarverslun að ræða. Við upplýsum um það helsta sem þarf að hafa í huga þegar vörur eru keyptar á netinu í gegnum dropshopping.

Við segjum frá viðamiklum netsvikum sem teygði anga sína víða.  Markmiðið var ekki síst að safna persónuupplýsingum frá neytendum.

Úrvalið af jurtamjólk er orðið mikið og gott en hvað er jurtamjólk eiginlega og má nota hugtakið „mjólk“ yfir þessar vörur?

Þetta og meira í Neytendablaðinu.

Ef þú ert ekki þegar félagi er einfalt mál að bæta úr því hér.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.