-Af hverju ekki á Íslandi líka?
Ríkisstjórnin í Noregi hefur kynnt tillögur sínar um að frá 1. október 2025 geti heimili gert fastverðssamninga um rafmagn á 40 aura/kWh, sem jafngildir um 5 íslenskum krónum á hverja kílóvattstund rafmagns. Í samanburði er raforkuverð til heimila á Íslandi 10-13 kr/kWh og fer hækkandi. Með þessu verður raforka til heimila meira en helmingi lægri í Noregi en á Íslandi. En undanfarið hefur raforkuverð í Suður-Noregi verið allt að þrefalt hærra en á Íslandi.
Neytendasamtökin sjá ekkert því til fyrirstöðu að hægt sé að tryggja lágt raforkuverð til íslenskra heimila, nema ef vera skyldi viljinn. En samtökin hafa lengi lagt áherslu á verðöryggi rafmagns til heimila og hvetja íslensk stjórnvöld til að skoða norsku leiðina. Hér má sjá nánar um tillögur Neytendasamtakanna.
Þann 12. desember 2023 samþykkti stjórn Neytendasamtakanna ályktun um raforku á sanngjörnu verði:
„Núverandi áform stjórnvalda og háværar kröfur einstakra markaðsaðila um breytingar á lögum um raforku fela í sér verulega hættu á verðhækkunum til heimila. Lög skylda sveitarfélög til að afhenda heimilum landsins vatn á viðráðanlegu verði og með afar hóflegri arðsemi. Hið sama á að gilda um raforku. Ríkið hefur þegar skuldbundið sig til þess, sbr. Evróputilskipun 2009/72/ESB.
Stjórn Neytendasamtakanna krefst þess að þingmenn tryggi að þak verði sett á arðsemi raforku til heimila.“
Á aðalfundi Neytendasamtakanna þann 22. október 2024 var eftirfarandi ályktun samþykkt:
„Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024 krefst þess að stjórnvöld setji arðsemisþak á sölu rafmagns til heimila. Raforka er ein forsenda búsetu á Íslandi og afar ólík vörum á frjálsum markaði. Heimilin neyðast nú til að keppa við stórfyrirtæki um rafmagn, sem meðal annars hefur leitt til 13% verðhækkunar síðustu tólf mánuði.
Heimilin nota aðeins 4,6% af allri framleiddri raforku á Íslandi og stjórnvöld verða að tryggja þeim ekki bara afhendingaröryggi heldur einnig verðöryggi.
Með arðsemisþaki á sölu rafmagns til heimila væri raforka sett undir sama hatt og kalt og heitt vatn og flutningur á raforku, þar sem nú þegar er þak á arðsemi.“
Aðalfundur Neytendasamtakanna krefst þess að stórir raforkuframleiðendur verði skyldaðir til að veita 5% af framleiðslu sinni til heimila og selja með takmarkaðri arðsemi. Ódýrt rafmagn til heimila er réttmætt gjald fyrir nýtingu sameiginlegra náttúruauðlinda og stuðlar að þjóðarsátt um nauðsynlegar virkjanir.