Fréttir

Ferðamál eru framtíðin

Einnota drykkjarmálum fylgir bæði mengun og sóun en kaffi í einnota drykkjarmálum er selt í gríðarlegu magni úti um allan heim á ári hverju. Í ástralska neytendablaðinu Choice kemur fram að þrír milljarðar einnota kaffimála séu seldir í Ástralíu á hverju ári. Fæst kaffimálin eða plastlokin eru endurunnin og áströlsku umhverfisverndarsamtökin Take3 segjast finna þúsundir kaffimála og plastloka í hreingerningarherferðum sínum um strandir landsins. Mörg pappamál eru ekki endurvinnanleg þar sem þau eru húðuð að innan með plastfilmu.

Íslendingar láta ekki sitt eftir liggja í kaffidrykkju. Ekki liggur fyrir hversu mikið er selt af  pappamálum á íslenskum kaffihúsum en það hleypur væntanlega á einhverjum þúsundum. Samkvæmt upplýsingum Neytendablaðsins hefur Kaffitár alfarið skipt yfir í pappamál sem eru að fullu endurvinnanleg og Te og kaffi eru í þann mund að skipta út pappamálum fyrir umhverfisvænni tegund. Báðar keðjurnar veita viðskiptavinum sínum afslátt ef þeir mæta með ferðamál líkt og flest kaffihús gera í dag. Samkvæmt upplýsingum Neytendablaðsins eru þeir þó í miklum minnihluta. 

Margnota mál umhverfisvænni

Í Viktoríuháskóla í Kanada var gerð rannsókn á vistspori pappamálanna með plastloki og það borið saman við þrjár tegundir margnota bolla eða ferðamála. Því fylgir ákveðin orkunotkun að framleiða hvort heldur sem er einnota pappamálin með plastloki eða hinar ólíku tegundir ferðamála. Orkunotkunin var mæld og í ljós kom að það er jafn orkufrekt að framleiða eitt ferðamál úr gleri og 15 pappamál með plastloki. Ef ferðamálið er úr plasti jafnast það á við 17 pappamál og ef það er úr keramíki jafnast það á við 29 pappamál. Það þarf því ekki að nota ferðamálin ýkja mikið til að jafna umhverfisáhrifin hvað orkunotkunina varðar. 

Með ferðamálið í veskinu

Guðrún Ósk Óskarsdóttir, starfsmaður leigjendaþjónustunnar, er sólgin í gott kaffi sem hún sést iðulega sötra úr ferðmáli. Guðrún hefur átt nokkur ferðamál í gegnum tíðina en heldur mikið upp á það nýjasta. Neytendablaðið ákvað að forvitnast nánar um málið og komst að því að Guðrún hefur notað margnota bolla í um tíu ár. Geri aðrir betur.

Guðrún segist aðspurð hafa átt nokkrar tegundir ferðamála í gegnum tíðina. „Ég hef keypt bolla á bensínstöðvum og einn bollinn kom með stórri vél sem pabbi keypti frá DeWalt verkfæraframleiðandanum. Þá hef ég líka átt stóran bolla sem var til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini. Flesta bollana hef ég þó keypt hjá Kaffitári. Ég hef átt nokkra KeepCup úr plasti, sem hafa enst vel og verið alveg hreint ágætir. Mér hefur þó fundist að smám saman komi plastbragð/-lykt sem hefur áhrif á gæði kaffisins. Þess vegna á ég nú glerbolla frá KeepCup. Ég hafði smá áhyggjur af því að glerbolli myndi ekki ná að halda kaffinu heitu en það hefur ekki verið vandamál.“ Guðrún segist sérstaklega ánægð með nýjasta bollann sem er úr gleri. „Þetta er besti bolli sem ég hef átt og ég er ekki síst ánægð með hvað hann er fallegur og lítill. Hann kemst vel í veskið hjá mér enda er ég alltaf með hann með mér, meira að segja þegar ég fer til útlanda. Þá kemur ekkert aukabragð eða -lykt af kaffinu, ég þarf ekki að hafa samviskubit yfir að vera sífellt að henda einnota bollum og síðast en ekki síst fæ ég afslátt af kaffinu þegar ég mæti með ferðamálið mitt,“ segir Guðrún að lokum. 

Grein úr Neytendablaðinu 2. tbl 2017

Fréttir í sama dúr

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Aðalfundur 22. október

Staðan í Vaxtamálinu

Smálánabaráttan

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.