Fréttir

Hverju lofa flokkarnir neytendum?

Við erum öll neytendur og því afar mikilvægt að stjórnmálaflokkar hafi skýra stefnu í neytendamálum og að neytendur séu upplýstir um hana, ekki síst nú í aðdraganda Alþingiskosninga. Neytendasamtökin telja brýnt að stórefla neytendavernd, bæta innheimtulög, skýra heimildir til hópmálsókna og skaðabóta til einstaklinga vegna samkeppnislagabrota svo eitthvað sé nefnt. Samtökin inntu alla flokka í framboði til Alþingis svara við fimm spurningum um neytendamál.

Neytendavernd og stjórnskipun neytendamála
Flokkarnir telja allir mikilvægt að efla neytendavernd og eyða óvissu um stjórnskipan neytendamála. Sumir flokkanna telja rétt að gera úttekt á stöðu neytendamála áður en lengra er haldið og horfa jafnvel til þess hvernig málum er háttar á hinum Norðurlöndunum.
Í svörum flokkanna kom fram að þeir vilja efla neytendavernd og styrkja eftirlitsstofnanir. Einnig eru hugmyndir um að sameina Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið.
Sjá nánar svörin hér.

Hámark innheimtukostnaðar og eftirlit með innheimtu
Allir stjórnmálaflokkarnir eru sammála um að endurskoða þurfi innheimtulögin. Langflestir flokkar vilja setja hámark á innheimtukostnað eða tryggja með öðrum hætti að innheimtukostnaður sé sanngjarn og að eftirlit með innheimtustarfsemi sé skilvirkt.
Sjá nánar svörin hér.

Lög um hópmálsóknir
Flestir stjórnmálaflokkar eru sammála Neytendasamtökunum um brýna þörf á skýrari lögum um hópmálsóknir og skýrari heimildum fyrir almannaheillasamtök að efna til hópmálsókna.
Sjá nánar svörin hér.

Skaðabætur vegna samkeppnislagabrota
Flokkarnir eru almennt hlynntir því að setja skýrari heimildir fyrir neytendur að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota. Sumir flokkar vilja innleiða tilskipun ESB 2014/104 í íslensk lög, aðrir ekki.
Sjá nánar svörin hér.

Brýn neytendamál á næsta kjörtímabili
Meðal atriða sem stjórnmálaflokkarnir nefna: Auka stöðugleika í gengismálum, efla stjórnsýslu neytendamála með samlegð og hagræðingu að leiðarljósi, Auka stuðning við Neytendasamtökin og Neytendastofu, jafna stöðu neytenda um allt land, auka aðgengi neytenda að réttarúrræðum, tryggja að fjármálakerfið þjóni heimilum og fyrirtækjum, vinna gegn kennitöluflakki og auka gagnsæi, styrkja neytendavernd almennt og upplýsa neytendur um samband umhverfisverndar og neytendaverndar.
Sjá nánar svörin hér.

Það er greinilegt að neytendamál eru frambjóðendum ekki bara ofarlega í huga, heldur eru þeir sammála helstu baráttumálum samtakanna, þó aðferðirnar og áherslurnar séu mismunandi milli flokka. Hlakka Neytendasamtökin til að vinna með stjórnmálaflokkum að eflingu neytendamála á næsta kjörtímabili og munu samtökin gera sitt til að þeir standi við loforðin.

Fréttir í sama dúr

Samkeppni slátrað – um hvað snýst málið?

Hópmálsókn í Evrópu vegna öndunarvéla frá Philips

Vaxtamálið – fyrning krafna

Neytendur upplýstir um vöruskerðingu- ný lög í Frakklandi

Ósanngjarnar kröfur Isavia vegna Base Parking

Arðsemisþak á raforku til heimila

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.