Fréttir

Kynnt undir verðbólgunni

Neytendasamtökin hafa að undanförnu birt upplýsingar  um verðhækkanir hjá birgjum. Tilgangurinn er að sjálfsögðu sá að veita birgjunum aðhald. En það eru fleiri en birgjar sem hækka verð þessa dagana og því miður eru stjórnvöld ekki barnanna best.

Nú er í gangi útboð á svokölluðum WTO tollum. Þessir tollkvótar eru vegna aðildar okkar að Aljóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og er aðildarlöndum WTO skylt að heimila vissan innflutning landbúnaðarvara á lágum tollum. Nú bregður svo við að landbúnaðarráðuneytið ákvað að hækka þessa tolla sem eru ákveðin krónutala. Sem dæmi má nefna að tollur á osti hækkar úr 191 kr. pr. kg í 205 kr., tollur á kjúklingum fer úr 267 kr. í 286 kr. Loks má nefna að tollar á endur og gæsir hækka úr 366 kr. í 393 kr. Þessar hækkanir eru rúmlega 7% og fara beint út í verðlagið. Stjórnvöld bera því við að þessar hækkanir séu vegna tengingar þessara krónutölutolla við svokallað SDR gengi. Rétt er að minna á að það er ekkert sem segir að stjórnvöldum beri að gera þetta.

Þann 1. ágúst hækka svo mjólkurvörur í verði samkvæmt ákvörðun svokallaðrar sexmannanefndar en sú nefnd starfar á ábyrgð landbúnaðarráðherra og ákveður heildsöluverð mikilvægustu mjólkurvaranna. Þannig hækka mjólkurvörur almennt um 3,6% en smjör um rúmlega 11%. Þessar hækkanir hafa verið gagnrýndar af mörgum, þar á meðal Neytendasamtökunum.

Minnt er á að þessar ákvarðanir stjórnvalda hækka ekki aðeins verð á viðkomandi vörum heldur leiðir þetta einnig til hækkunar á verðtryggðum lánum heimilanna. Þar sem nú eru mjög viðkvæmir tímar er fráleitt að stjórnvöld gangi fram með þessum hætti. Því skora Neytendasamtökin á stjórnvöld að draga til baka þessar hækkanir og leggja þar með sitt að mörkum til að tryggja sem best efnahagslegan stöðugleika.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.