Áherslumál

Hér er að finna yfirlit um helstu áherslumál Neytendasamtakanna um nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum. Samtökin hafa barist fyrir sumum þeirra um hríð en önnur mál eru ný. Neytendasamtökin áforma kynningu málaskrárinnar fyrir ráðherrum og þingflokkum Alþingis.

Mörg þessara mála eru til komin fyrir ábendingar félaga samtakanna. Félagar Neytendasamtakanna eru eindregið hvattir til að senda tillögur að málefnum sem samtökin ættu að beita sér fyrir. Það er til dæmis hægt að gera hér.

Arðsemisþak á raforku

Lög skylda sveitarfélög til að afhenda heimilum landsins vatn á viðráðanlegu verði og með afar hóflegri arðsemi. Hið sama á að gilda um raforku. Ríkið hefur þegar skuldbundið sig til þess, sbr. Evróputilskipun 2009/72/ESB. Neytendasamtökin krefjast þess að þak verði sett á arðsemi raforku til heimila.

Sjá nánar hér og hér.

Krafa um stjórnarsetu í Úrvinnslusjóði

Neytendasamtökin vilja að fulltrúi neytenda og fulltrúi umhverfis- og náttúruverndar verði skipaðir í stjórn Úrvinnslusjóðs. Úrvinnslusjóður er í eigu ríkisins, fjármagnaður af neytendum, og gegnir mikilvægu hlutverki við innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Það skýtur skökku við að fulltrúar atvinnulífsins skipi meirihluta stjórnar en að hvorki fulltrúar neytenda né fulltrúar umhverfis- og náttúruverndar eigi þar sæti.

Sjá nánar hér og hér.

Aukinn stuðningur við leigjendur

Neytendasamtökin hafa frá árinu 2011 sinnt lögfræðiráðgjöf, milligöngu og aðstoð við leigjendur við að ná fram rétti sínum. Mikil eftirspurn er eftir þjónustunni og er hún vel þekkt meðal fólks á leigumarkaði. Fyrirspurnir eru um 1.000 á ári og fer heldur fjölgandi.  Hlutfall erlendra ríkisborgara hefur farið úr því að vera um fimmtungur árið 2019 í tæpan þriðjung árið 2024. Samtökin hafa frá upphafi gefið út ársskýrslur Leigjendaaðstoðarinnar sem gefa mikilvæga innsýn í þróun leigjendamála og þess ágreinings sem upp kemur í samningum og samskiptum leigjenda og leigusala. Mikilvægt er að tryggja samfellu og þekkingu í þjónustu við leigjendur. Þar sem stuðningur hins opinbera hefur ekki nægt til reksturs þjónustunnar hafa samtökin leitað til og fengið fjárstuðning frá stéttarfélögum. Neytendasamtökin óska eftir því að þríhliða samband Neytendasamtakanna, viðeigandi ráðuneytis og stéttarfélaganna um rekstur leigjendaaðstoðarinnar verði formgert og eflt.

 

Kærunefnd húsamála taki við málum á ensku og stytti meðferðartíma

Málsmeðferð kærunefndar húsamála er allt að 7 mánuðir og er brýnt að stytta hann.

Þá hafa Neytendasamtökin lengi og ítrekað kallað eftir því að nefndin taki við kærum á ensku, en nefndin hefur hingað til vísað frá kærum á ensku.  Þörfin er brýn þar sem tæplega þriðjungur þeirra sem leita til Leigjendaaðstoðarinnar talar ekki íslensku og fer sá hópur vaxandi.

Hámark innheimtukostnaðar

Neytendasamtökin telja brýnt að gerð verði breyting á innheimtulögum í þá veru að innheimtukostnaður verði aldrei hærri en höfuðstóll kröfu. Slík löggjöf er í gildi í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku. Neytendasamtökin hafa fengið dæmi þess að tiltölulega lág krafa hafi nær fjórfaldast á sex vikum við innheimtu. Það jafngildir rúmlega 2.400% hækkun á ársgrundvelli.

Hópmálsóknir

Neytendasamtökin hafa lengi talað fyrir endurskoðun laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og nauðsyn þess að almannaheillasamtök hafi rýmri heimildir til að hefja hópmálssóknir. Með því að rýmka heimild til hópmálsókna er hagsmunasamtökum eins og Neytendasamtökunum, tryggðar raunhæfar leiðir til að krefjast viðeigandi réttarúrræða fyrir neytendur. Þar á meðal að krefjast dómsúrskurðar um bann við ólögmætri háttsemi, viðurkenningar á skaðabótakröfum eða kröfum um hæfilegt endurgjald. Oft er um að ræða mál þar sem fjárhagslegt tjón hvers neytanda er tiltölulega lítið, sem dregur úr hvata til að leita réttar síns fyrir dómstólum. Hins vegar geta samanlagðar kröfur neytenda numið verulegum fjárhæðum og haft þýðingarmikil áhrif á heildarhagsmuni þeirra. Skýr og raunhæf heimild til hópmálsókna myndi ekki aðeins tryggja betri réttarvernd neytenda heldur einnig hafa fælingarmátt gagnvart ólögmætum viðskiptaháttum og mögulegum brotum á samkeppnislögum.

Fyrir liggur að Ísland þurfi að innleiða ESB tilskipun nr. 2020/1828 um samræmda löggjöf aðildarríkja um hópmálssóknir með upptöku gerðarinnar í ESS-samninginn (sjá hér). Telja Neytendasamtökin nauðsynlegt að stjórnvöld hagi innleiðingunni með fljótvirkum hætti til að tryggja aðgengi neytanda að dómstólum.

Aðild að málum

Tryggja þarf rétt almannaheillafélaga til aðildar að málum er varða almannaheill. Það þýðir að Neytendasamtökin (og önnur almannaheillasamtök) gætu borið mál undir eftirlitsstofnanir eins og Neytendastofu, til að fá úr því skorið hvort tilteknir samningsskilmálar séu sanngjarnir eður ei.  Slíkt kæmi í veg fyrir að einstakur neytandi þurfi að kvarta og fara fyrir málinu. Miklir hagsmunir geta verið undir og er því mikilvægt að slík málsmeðferð taki skjótan tíma. Í inngangsorðum ESB gerðarinnar (ESB) 2017/2394 (sjá hér), er bent á mikilvægi þess að samtök neytenda geti sent tilkynningar til eftirlitsaðila og að neytendasamtök skuli hafa vald til að gefa út viðvaranir til bærra aðila ef grunur leikur á að aðilar brjóti gegn ákvæðum reglugerðarinnar. Færi því vel á því að Neytendasamtökin fengju slíkt hlutverk.

Úrskurðir um bætur

Neytendur eiga að fá bætt tjón sem ósanngjarnir skilmálar eða háttsemi valda. Það er þó oft erfitt fyrir einstaka neytendur að sýna fram á tjónið með beinum hætti. Í dag getur neytandi leitað til úrskurðarnefnda, hverra úrskurðir eru þó ekki í öllum tilvikum lagalega bindandi. Tryggja þarf lagalega bindandi úrlausnarleiðir fyrir neytendur til að fá tjón bætt. Eftirlitsstofnun sem úrskurðar um ósanngjarna skilmála ætti einnig að úrskurða um bætur til neytenda.

Skilyrt gjafsókn

Tilkynni söluaðili úrskurðaraðila innan ákveðins tíma að hann uni ekki úrskurði þarf söluaðilinn ekki að una honum. Neytendasamtökin vilja, líkt og í Danmörku, að úrskurði viðurkenndur úrskurðaraðili neytanda í vil og tilkynni söluaðili að hann fari ekki að úrskurðinum, geti neytandi sótt rétt sinn fyrir dómi og fái til þess gjafsókn.

Upphæðirnar sem neytendum eru úrskurðaðar, og sem söluaðilar koma sér hjá að greiða, eru frá rúmum 70 þúsund krónum upp í rúma eina milljón króna og það svarar ekki kostnaði fyrir neytendur að sækja þær í gegnum dómstóla.  Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hóf störf árið 2020. Á þeim fimm árum hefur úrskurðum verið hafnað 16 sinnum, þar af 7 sinnum af sama aðila. Mikill fælingarmáttur fælist í því að neytendum gæfist kostur á að fara með málin fyrir dóm.

Lenging kvörtunarfrests í 3 ár

Kvörtunarfrestur vegna galla hefur verið lengdur í Svíþjóð og er nú minnst 3 ár, samanborið við 2 ár hér á landi og umræða er hafin um slíkt hið sama í Danmörku. Neytendasamtökin skora á íslensk stjórnvöld að fara sömu leið og er það í takt við aukna áherslu á endingartíma vara í tengslum við hringrásarhagkerfið, ábyrga neyslu og virðingu við umhverfið.

Skaðabætur til neytenda vegna samkeppnislagabrota

Virk samkeppni hefur jákvæð áhrif á verð, gæði og nýsköpun og tilraunir til að koma í veg fyrir samkeppni eru aðför að neytendum. Ráðast þarf í víðtækar aðgerðir sem ýta undir og efla samkeppni og auðvelda þarf neytendum að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota, sbr.  innleiðingu Evrópusambandstilskipunar 104/2014 (eða sambærilegrar lagasetningar).

Neytendasamtökin benda á að þeir sem verða fyrir samkeppnislagabrotunum þ.e.a.s. neytendur, bera skarðan hlut frá borði þar sem erfitt er að fá hlut sinn réttan. Neytendasamtökin krefjast þess að stjórnvöld setji tafarlaust af stað vinnu til að bæta úr úrræðaleysi neytenda og breyta lögum. Með því yrðu íslenskir neytendur jafnt settir og neytendur í Evrópu, og jafnframt væri mikill fælingarmáttur í slíkum lögum. Neytendur treysta á virka samkeppni og tilraunir til að koma í veg fyrir eðlilega samkeppni er aðför að neytendum.  Sjá nánar hér.

Skyldumæting eða „No-show reglur“ flugfélaga

Sum flugfélög hafa í skjóli skilmála sinna meinað farþegum að nýta seinni flugmiða í ferð sem bókuð er í einu lagi, hafi hann einhverra hluta vegna ekki nýtt fyrri fluglegginn. Missi fólk af flugi eða ferðatilhögun breytist er farþegum gert að kaupa nýjan miða í tilvikum þar sem fyrra flug var ekki nýtt. Neytendasamtökin geta ekki séð að það skipti flugfélag máli þótt fyrri leggur sé nýttur eða ekki enda búið að greiða fyrir þjónustuna. Þessi svokallaði „No-show skilmáli“ er að mati Neytendasamtakanna verulega ósanngjarn og í alla staða óeðlilega íþyngjandi. Úrskurðaryfirvöld og dómstólar í Þýskalandi, Belgíu, Austurríki, Frakklandi og á Spáni, svo einhver Evrópulönd séu nefnd,  hafa talið þessi vinnubrögð óheimil og lagt sektir á flugfélög sem honum beita. Neytendasamtökin telja að taka þurfi af allan vafa um að beiting skyldumætingarákvæða sé óheimil.

Réttur til að fá sundurliðaðan reikning

Samkvæmt 34. gr. laga 42/2000 um þjónustukaup er seljanda þjónustu gert skylt að afhenda kaupanda sundurliðaðan reikning, krefjist hann þess. Ber neytanda ekki skylda til að greiða seljanda fyrir þjónustu fyrr en hann hefur fengið reikninginn og haft tækifæri til að yfirfara hann. Slíku ákvæði er ekki fyrir að fara í lögum um vörukaup né í fyrirhuguðum markaðssetningarlögum. Telja Neytendasamtökin nauðsynlegt að ráða bót á því. Neytendasamtökin telja eðlilegt að neytendur geti fortakslaust og ávallt krafist sundurliðaðs reiknings og neitað að greiða fyrir hið keypta nema að slíkur reikningur liggi fyrir.

Innheimtuaðgerðir stöðvist ef mál er fyrir lögboðinni úrskurðarnefnd

Algengt er að ágreiningur um réttmæti krafna sé borinn undir viðurkennda úrskurðaraðila.

Ekkert í lögum kemur í veg fyrir að kröfuhafi haldi áfram innheimtu á meðan málsmeðferð stendur þó að það mætti færa rök fyrir því að slíkir innheimtuhættir færu í bága við vísireglu innheimtulaga um „góða innheimtuhætti.“

Í lögum 81/2019 er kveðið á um að ekki megi höfða mál, séu mál til meðferðar hjá viðurkenndum úrskurðaraðila. Neytendasamtökin telja að sama skapi mikilvægt að innheimtuaðgerðir séu stöðvaðar á meðan mál eru til meðferðar enda verulega íþyngjandi fyrir neytendur að berjast á tveimur vígstöðum í senn.

Kærunefnd úrskurði í málum heilbrigðisfyrirtækja

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa (KVÞ) úrskurðar í allflestum ágreiningsmálum milli neytenda og fyrirtækja um kaup á vörum eða þjónustu, að því gefnu að málið heyri ekki undir aðrar sértækari nefndir. Heilbrigðisþjónusta fellur þó ekki undir starfssvið KVÞ, en í lögum um nefndina kemur fram að þau nái ekki til „þjónustu sem fagfólk í heilbrigðisþjónustu veitir sjúklingum í því skyni að meta, viðhalda eða endurheimta heilsu þeirra, þ.m.t. að ávísa lyfjum, skammta þau og afgreiða lyf og lækningatæki.“ Neytendasamtökin telja KVÞ túlka lögin allt of þröngt og þannig að öll möguleg ágreiningsefni sem tengjast kaupum á heilbrigðisþjónustu falli utan þeirra, jafnvel þótt ágreiningur varði ekki þjónustuna sjálfa, heldur viðskiptahætti, markaðssetningu, verðmerkingar, endanlegt verð, innheimtuaðferðir og þess háttar. Neytendur geta því ekkert leitað með ágreining sem snýr að viðskiptaháttum einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja og úr því þarf að bæta

Bann við auglýsingum dýrra lána

Dönsk stjórnvöld hafa sett strangar reglur um kostnað og markaðssetningu á dýrum neytendalánum. Neytendasamtökin telja brýnt að sama leið verði farin hér á landi og hafa sent stjórnvöldum erindi þess efnis.

Neytendasamtök um alla Evrópu hafa um þessar mundir miklar áhyggjur af þeirri þróun sem miðar að því að fá fólk til að kaupa strax en greiða síðar (e. Buy now, pay later). Slík lán eru dýr og leiða neytendur oft í kostnaðarsaman lánavítahring. Bæði á Íslandi og í Danmörku eru lög sem segja til um hámarks árlega hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK) neytendalána. Í báðum löndum nemur hámarkið 35% (auk Seðlabankavaxta).

Árið 2020 settu dönsk stjórnvöld hömlur á markaðssetningu lána með hærri ÁHK en 25%. Hömlurnar eru ekki síst til höfuðs smálánum og ná bæði til auglýsinga í sjónvarpi, útvarpi og á samfélagsmiðlum en líka til beinna samskipta eins og sms-skilaboða.

Neytendasamtökin telja þessar dönsku reglur um markaðssetningarhömlur til eftirbreytni, enda megi skilgreina dýr neytendalán/smálán líkt og aðrar vörur sem geta haft skaðleg áhrif á líf fólks. Markaðssetning smálána og annarra dýrra neytendalána er þess utan oft mjög aðgangshörð eins og hefur einnig sýnt sig hér á landi. Samtökin skora á stjórnvöld að fara að dæmi Dana og tryggja ríka neytendavernd á neytendalánamarkaði.

Franska magnskerðingarákvæðið

Algengt er að framleiðendur skerði magn vöru en verð helst óbreytt. Þetta kallast magnskerðing (e. Shrinkflation), sjá nánar hér. Í Frakklandi er gerð krafa um að neytendur séu upplýstir, sé magn vöru er skert án þess að verð lækki að sama skapi. Þessar upplýsingar skal setja á vöruna sjálfa eða hjá verðmerkingum og verða þær aðgengilegar í tvo mánuði eftir að vöruskerðingin kemur til framkvæmda í verslunum sem eru 400 fermetrar eða stærri. Neytendasamtökin krefjast sömu reglna hér á landi.

Næringargildismerkingar / Nutri-Score

Skiljanlegar og aðgengilegar upplýsingar um næringargildi matvæla eru afar mikilvægar fyrir neytendur og auðveldar þeim að taka upplýsta ákvörðun. Margar Evrópuþjóðir hafa innleitt Nutri-Score kerfið en þá er upplýsingum um næringargildi vöru komið til skila með því að gefa vörunni eina „einkunn“.  Aðferðin er í einföldu máli sú að mæla jákvæð næringaráhrif (magn trefja, próteins, ávaxta, grænmetis og hnetu) og neikvæð áhrif (magn sykurs, mettaðrar fitu og salts) auk hitaeiningafjölda. Stig eru gefin fyrir jákvæða og neikvæða þætti og með ákveðinni reikniaðferð er einkunnin fundin út.

Mataræði vegur þungt þegar lífsstílssjúkdómar eru annars vegar og kostnaður samfélagsins vegna sjúkdóma sem mætti fyrirbyggja er mikill. Það er því til mikils að vinna að beina fólki í átt að heilbrigðari lífsstíl. Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld til að innleiða Nutri-Score kerfið hér á landi. Sjá nánar hér

Afnám tolla

Neytendasamtökin krefjast afnáms tolla. Tollar hækka vöruverð, auka verðbólgu, auk þess að skekkja og draga úr samkeppni

-Útboðsfyrirkomulag á úthlutun tollkvóta í landbúnaði skekkir samkeppni.

-Þátttaka innlendra framleiðenda og afurðastöðva í kaupum á tollkvóta skekkir samkeppni.

-Tollar eru á vörum sem ekki eru framleiddar hér á landi (t.d. sum blóm, franskar kartöflur o.fl.) eða þarfnast ekki verndar.

-Tollmúrar og aðrar varnir í mörgum greinum, svo sem fyrir verksmiðjuframleiðslu próteins (svo sem eggja-, kjúklingakjöts- og svínakjötsverksmiðjur) eru skaðlegar samkeppni.

Hvergi í aðildarríkjum OECD og Evrópusambandsins eru tollar hærri en á Íslandi, Noregi og Sviss. Þess vegna er matvælaverð hvergi hærra en einmitt í þessum löndum.

Tollar hækka vöruverð, neytendur kaupa minna og markaðurinn dregst saman. Tollar draga úr hvata til nýsköpunar, þar sem samkeppnisforskotið verður álögur á aðra, en ekki gæði vöru. Allt samfélagið tapar á tollum. Tollar og verndarhyggja eru hamlandi stuðningur sem leiða til taps neytenda og framleiðenda þegar litið er til lengri tíma. Þessi hamlandi stuðningur er hluti af gamalli og hverfandi arfleifð sem verður að láta af. Þess í stað þarf að leggja áherslu á styðjandi stuðning, stuðning við nýsköpun og beinan stuðning við bændur. Íslenskir bændur og aðrir matvælaframleiðendur hafa sýnt að þeim er heilt yfir er treystandi til að framleiða holl og góð matvæli. Matvælaframleiðendur verða að treysta eigin framleiðslu. Treysta verður neytendum til að velja, en láta af kröfum um tollmúra og neyslustýringu. Sjá nánar hér. 

Eftirlit með innheimtu verði á einni hendi

Neytendasamtökin telja mikilvægt að  eftirlit með frum- og milliinnheimtustarfsemi sé allt á sömu hendi, þ.e. hjá Fjármálaeftirlitinu óháð því hver sjái um innheimtuna. Byggist sú skoðun fyrst og fremst á því að eftirlit með innheimtustarfsemi verði að vera raunhæft og virkt.

Í dag er staðan þannig að innheimtufélög í eigu lögmanna eru að nafninu til undir eftirliti Lögmannafélags Íslands (LMFÍ). Neytendasamtökin geta fullyrt að eftirlit LMFÍ með innheimtufélögum í eigu lögmanna er gagnslaust og úrræðin bitlaus. LMFÍ framkvæmir ekki frumkvæðisrannsóknir og hefur ekki valdheimildir til að stöðva innheimtu sem brýtur gegn lögum. Telji einhver á sér brotið er eina úrræði viðkomandi að senda kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna og rökstyðja mál sitt gegn lögmanni líkt og um málflutning sé að ræða. Þar er stórfelldur aðstöðumunur kvartanda sem jafnan er leikmaður, annars vegar og þess sem kvartað er yfir, sem jafnan er félagsmaður í Lögmannafélaginu og ætti að hafa yfirburðaþekkingu á lögum og reglum sem gilda. Komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að lögmaður hafi brotið gegn innheimtulögum, á sá sem sendi málið fyrir nefndina, á hættu að vera stefnt af hálfu lögmannsins til ógildingar úrskurði nefndarinnar eins og dæmi sýna. Þess utan telja Neytendasamtökin ófært að félagasamtökum sé gert að hafa eftirlit með eigin félagsmönnum og að félagasamtökum sé yfirhöfuð falið svo mikilvægt eftirlitshlutverk. Með lögum 55/2018 voru gerðar breytingar á innheimtulögum til að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8302/2014. Þær breytingar sem gerðar voru komu hins vegar ekki til móts við athugasemdir umboðsmanns, þvert á móti, og því hefur löggjafavaldið enn ekki farið að tilmælum umboðsmanns frá árinu 2014 að mati Neytendasamtakanna.

Óháð úttekt á tölfræðilíkani Creditinfo

Mikilvægt er að tölfræðilíkan lánshæfismats sé tekið út af óháðum aðila sem sannreyni getu þess til að reikna út líkur á greiðslufalli, og að aðferðafræði líkansins sé aðgengileg og opin öllum. Neytendasamtökin hafa ítrekað kallað eftir slíkri úttekt, meðal annars í Umsögn um starfsleyfi Creditinfo árið 2020 (sjá hér).  Persónuvernd tók undir með Neytendasamtökunum í bréfi til Seðlabankans og Atvinnuvegaráðuneytisins 14. jan. 2022 (sjá hér). 

Í því samhengi má benda á að í Danmörku er það fjármálaeftirlitið sem fer með eftirlit með fjárhagsupplýsingastofum, en á Íslandi má deila um hvort raunverulegt frumkvæðiseftirlit sé með starfseminni.

Neytendasamtökin á fjárlög

Neytendasamtökin á Íslandi eru einu neytendasamtökin á Norðurlöndum sem ekki eru á fjárlögum en mikilvægt er að samtökin búi við fyrirsjáanleika og stöðugleika í rekstri.

Benda má á að á Íslandi er haldið úti gífurlega stórum og valdamiklum sérhagsmunaiðnaði sem veltir líklega um 5 milljörðum króna árlega og er með 188 manns á launaskrá samanborið við 6 starfsmenn Neytendasamtakanna og rúmlega 100 milljóna króna árlega veltu. Neytendasamtökin hafa frá árinu 1953 veitt hinu opinbera og sérhagsmunaöflum aðhald, en enginn má við margnum. Þrátt fyrir að vera hlutfallslega fjölmennustu samtök neytenda á Norðurlöndum og þó víðar væri leitað, þá er styrkur þeirra hve minnstur hér á landi, sé litið til stuðnings stjórnvalda og fjölda starfsmanna. Samtök neytenda eru nauðsynlegt  mótvægi og aðhald í samfélaginu, en eru aldrei sterkari en stjórnvöld hverju sinni vilja og sýna í verki með stuðningi.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.