Fréttir

Mun „no show skilmálinn“ heyra sögunni til?

Það er sérkennilegt þegar neytendum er refsað fyrir að nýta ekki þjónustu sem þeir hafa þegar greitt fyrir. Slíkt hafa þó mörg flugfélög leyft sér að gera en nú verður kannski breyting á.

Á árinu 2017 gagnrýndu Neytendasamtökin að flugfélög gætu meinað farþegum að nýta seinni flugmiða í ferð sem bókuð er í einu lagi hafi viðkomandi einhverra hluta vegna ekki nýtt fyrri fluglegginn. Slíkt gerist ef fólk til dæmis missir af flugi eða þarf óvænt að flýta eða seinka ferð. Þegar það síðan hyggst nýta flugið til baka er því gert að kaupa nýjan miða þar sem fyrra flugið var ekki nýtt. Neytendasamtökin geta ekki séð að það skipti flugfélag máli þótt fyrri leggur sé nýttur eða ekki enda búið að greiða fyrir þjónustuna. Þessi svokallaði „no show skilmáli“ er að mati Neytendasamtakanna verulega ósanngjarn og í alla staða óeðlilega íþyngjandi.

Neytendasamtökin sendu á sínum tíma fyrirspurn á Icelandair og WOW air og óskuðu eftir upplýsingum hvort slíkir skilmálar væru hjá félögunum. Í svari WOW air kom fram að enginn no show skilmáli væri í gildi. Svar Icelandair var hins vegar óskýrt og svaraði ekki spurningu Neytendasamtakanna að öðru leyti en að vísa til afstöðu alþjóðasamtaka flugfélaga og ferðaskrifstofa (IATA). Fulltrúar Neytendasamtakanna áttu í framhaldinu fund með Icelandair þar sem farið var yfir málin og var skilningur á því að hægt væri að gera betur. Síðan þá hafa engin mál ratað á borð Neytendasamtakanna þar sem Icelandair á í hlut.

Nú hafa neytendasamtök víða í Evrópu fengið nóg af þessum skilmálum sem því miður hafa viðgengist hjá allt of mörgum flugfélögum. Belgísku neytendasamtökin Test Achat eru í dómsmáli gegn KLM og Air France. Neytendasamtök í Þýskalandi, Austurríki og á Spáni hafa þegar unnið slík mál fyrir dómi og í lok árs 2018 sendu neytendasamtök víða í Evrópu erindi til fjölmargra flugfélaga og hvöttu til þess að látið yrði af þessum viðskiptaháttum. Evrópusamtök neytenda (BEUC) sendu þar að auki erindi á Framkvæmdarráð ESB og fóru fram á að no-show skilmálinn verði alfarið bannaður.

Þessir furðulegu viðskiptahættir – að meina viðskiptavinum að nýta þjónustu sem þeir hafa greitt fyrir – mun því vonandi heyra sögunni til innan skamms.

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.