Fréttir

Niceair óskar eftir gjaldþrotaskiptum

Neytendasamtökunum hefur borist nokkur fjöldi fyrirspurna frá farþegum sem eiga kröfu á flugfélagið Niceair. Hér eru svör við helstu spurningum.

Gjafabréf & inneignir

Hafi farþegar keypt gjafabréf beint af flugfélaginu, eða eiga inneignarbréf þá þurfa þeir að lýsa kröfum sínum í þrotabú félagsins.

Upplýsingar um skiptastjóra ættu að verða aðgengilegar hér eftir að hann hefur verið skipaður. Þau sem eiga kröfu á flugfélagið geta þannig beint henni til skiptastjórans.

Hafi farþegar hinsvegar keypt gjafabréf af þriðja aðila (svo sem stéttarfélagi) þá er réttur til endurgreiðslu almennt veikur, þótt undantekningar gætu verið á því. Þegar WOW air varð gjaldþrota ákváðu til dæmis mörg stéttarfélög að endurgreiða félögum sínum í ljósi aðstæðna.

Dæmi er um að fólk eigi inneignir vegna flugs sem ekki var farið í fyrra þegar hætt var við flug til Bretlands. Þessar inneignir falla í sama flokk og gjafabréf. Viðkomandi hefur samþykkt inneignina og of langt er um liðið til að hægt sé að gera kröfu á kortafyrirtækið.

Endurgreiðsla á flugmiðum greiddum með greiðslukortum

Hafi flugmiðar verið greiddir með greiðslukortum er nærtækast að hafa samband við þann viðskiptabanka sem sér um greiðslukortið og óska eftir aðstoð við að fá færsluna bakfærða. Einnig er hægt að setja sig í samband við kortafyrirtækin og óska eftir þeirra aðstoð.

Aflýst flug

Þegar flugi er aflýst kemur til skoðunar Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega nr. 261/2004 – sjá nánar á www.ns.is/flug.

Samkvæmt reglugerðinni er það „flugrekandi“ sem er ábyrgur gagnvart farþegum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem samtökin hafa þá er Niceair ekki flugrekandi heldur ferðaskrifstofa. Eiginlegur flugrekandi er Hifly/ Hifly Malta.

Þannig þyrftu farþegar að senda kröfu til Hifly og fara fram á að það standi við skuldbindingar sínar í samræmi við Evrópureglugerðina.

Samkvæmt upplýsingum frá ECC í Möltu að þá er netfang flugfélagsins: hifly@hifly.aero.

Ef flugfélagið hafnar ábyrgð þá væri næsta skref að fara með málið til flugmálayfirvalda í því landi sem atvikið átti sér stað. Þannig ef flugröskun átti sér t.d. stað á leið frá Íslandi að þá væri það Samgöngustofa sem væri eftirlitsaðili með reglugerðinni og gæti tekið ákvörðun í málinu. Ef röskunin átti sér stað þegar verið var að fljúga heim til Íslands frá öðru landi að þá væri það flugmálayfirvöld í því landi sem væri bær til að taka ákvörðun í málinu. Hægt er að sjá lista yfir öll flugmálayfirvöld eftir löndum hér:

https://transport.ec.europa.eu/system/files/2023-04/2004_261_national_enforcement_bodies-2023-04.pdf

Réttur til bóta

Farþegar geta átt rétt á stöðluðum skaðabótum á grundvelli Evrópureglugerðar um réttindi flugfarþega sé fluginu aflýst með minna en tveggja vikna fyrirvara. Fjárhæð bótanna fer eftir því hvert og hvaðan er verið að fljúga. Fyrir flug sem er á milli 1.500 km og 3.500 km (eða flug á milli tveggja EES landa) þá eru bæturnar 400 evrur á hvern farþega. Til að sækja þann rétt þarf að leggja inn kröfu á hendur flugfélaginu.

Þeir sem óska eftir nánari upplýsingum geta sent okkur póst á ns@ns.is með málavaxtalýsingu og gögnum.

Fréttir í sama dúr

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Aðalfundur 22. október

Staðan í Vaxtamálinu

Smálánabaráttan

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.