Fréttir

Réttur farþega ef flugfélag fer í gjaldþrot

(fréttin hefur verið uppfærð)

Neytendasamtökunum hafa borist fjöldi erinda frá neytendum vegna flugfélagsins Wow Air.

Neytendur hafa fyrst og fremst áhyggjur af stöðu sinni komi til rekstrarstöðvunar félagsins og flugi þeirra þar með aflýst. Það sem brennur helst á neytendum er hvaða úrræði standa til boða til að fá farmiða sína endurgreidda og rétt til bóta ef fyrirtækið fer í þrot.

Endurgreiðsla á flugmiðum

Hafi flugmiðar verið greiddir með greiðslukortum er nærtækast að hafa samband við þann viðskiptabanka sem sér um greiðslukortið og óska eftir aðstoð við að fá færsluna bakfærða. Einnig er hægt að setja sig í samband við kortafyrirtækin og óska eftir þeirra aðstoð.

Neytendasamtökunum hafa einnig borist fyrirspurnir um hvað sé hægt að gera hafi fólk komist í fyrri fluglegg bókunar en heimflugi er aflýst af framangreindum ástæðum. Í þeim tilfellum virðist einnig vera hægt að setja sig í samband við banka og kortafyrirtæki sem að taka þá málið til skoðunar og bakfæra hugsanlega færsluna að hluta.

Hafi farmiðar verið greiddir með Netgíró, er hægt að óska eftir endurgreiðslu. Samkvæmt svörum Netgíró ábyrgist fyrirtækið endurgreiðslu farmiða geti aðilar sýnt fram á að þjónustan hafi ekki verið afhent.

Ef farmiðar hafa aftur á móti verið greiddir með gjafabréfi, millifærslu eða með peningum stendur fólki eflaust ekki annað til boða en að leggja inn almenna kröfu á hendur flugfélagsins eða eftir atvikum lýsa almennri kröfu í þrotabú félagsins.

Réttur til bóta

Farþegar geta átt rétt á stöðluðum skaðabótum á grundvelli Evrópureglugerðar um réttindi flugfarþega sé fluginu aflýst með minna en tveggja vikna fyrirvara. Fjárhæð bótanna fer eftir því hvert og hvaðan er verið að fljúga. Fyrir flug sem er á milli 1.500 km og 3.500 km (eða flug á milli tveggja EES landa) þá eru bæturnar 400 evrur á hvern farþega. Ef flugið er lengra en 3.500 km (t.d. frá Íslandi til Bandaríkjanna) þá er upphæð bótanna 600 evrur á hvern farþega. Til að sækja þann rétt þarf að leggja inn kröfu á hendur flugfélaginu. Fari það í þrot þyrfti aftur á móti að lýsa almennri kröfu í þrotabúið.

 

Uppfært 28/3/19 kl. 11:00

Neytendasamtökunum barst í morgun eftirfarandi tilkynning frá Borgun:

Endurkröfuréttur korthafa vegna gjaldþrots WOW

Vegna gjaldþrots flugfélagsins WOW Air, vill Borgun hf. koma eftirfarandi á framfæri.

Allir Mastercard kredit- og debit korthafar sem fá ekki flug með WOW air vegna gjaldþrots eiga rétt á endurgreiðslu.

Ef korthafi er staddur erlendis þegar flug er fellt niður og þarf að kaupa flug heim með öðru flugfélagi eru þau kaup ekki tengd endurkröfurétti vegna þess flugs sem fellt var niður.

Með endurkröfubeiðni þarf að fylgja með afrit af bókunarstaðfestingu flugs.

 

Uppfært 28/3/19 kl. 13:00

Á heimasíðu Samgöngustofu má nálgast upplýsingar fyrir farþega í tengslum við rekstrarstöðvun WOW AIR. Þar er m.a. birtur listi yfir flugfélög sem bjóða farþegum WOW air sérstök afsláttarkjör á fluggjöldum til að aðstoða þá við að komast á leiðarenda á sérstökum flugleiðum. Þannig hefur Icelandair, Norwegian, Wizz air og EasyJet boðið farþegum WOW sérstök kjör á flugmiðum, sjá nánar á vefsíðu Samgöngustofu hér.

Fréttir í sama dúr

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Aðalfundur 22. október

Staðan í Vaxtamálinu

Smálánabaráttan

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.