Fréttir

Sparisjóður Strandamanna sér að sér

Neytendasamtökin fagna því að Sparisjóður Strandamanna hafi loksins ákveðið að hætta viðskiptum við Almenna innheimtu ehf. (Sjá hér)

Almenn innheimta hefur haft þann eina starfa að innheimta kröfur vegna smálána og þrátt fyrir að lánin brytu í bága við lög um neytendalán hefur ekki verið hægt að stöðva innheimtustarfsemina þar sem hún fellur utan eftirlits FME. Rúmt ár er síðan Neytendasamtökin hvöttu Sparisjóð Strandamanna fyrst til að hætta viðskiptum við Almenna innheimtu og koma þannig í veg fyrir aðgang fyrirtækisins að greiðslumiðlunarkerfinu. Núna hefur ný stjórn Sparisjóðsins gefið það út að viðskiptum við Almenna innheimtu verði hætt og er það mikilvægt skref í baráttunni við ólöglega smálánastarfsemi.

Gætu þurft að loka reikningum

Því miður er björninn ekki alveg unninn. Smálánafyrirtækin hafa stundað það að skuldfæra af reikningum lántakenda þrátt fyrir að ekki liggi fyrir bein heimild til þess. Í mörgum tilvikum hafa þau tekið út alla fjárhæð inn á reikningum fólks, nánast um leið og fé er lagt inn á reikningana um mánaðarmót. Því miður reynist afar erfitt að koma í veg fyrir þessa ósvinnu. Það er mikilvægt að þeir sem telja sig hafa ofgreitt láti loka þeim bankareikningi eða kreditkorti sem smálánin hafa verið lögð inn á til að koma í veg fyrir óvæntar og óheimilar skuldfærslur. Hafi slíkar skuldfærslur farið í gegn er um að gera að hafa samband við bankann og gera kröfu um endurgreiðslu. Í þeim tilvikum sem Neytendasamtökin vita af, hafa bankarnir og kortafyrirtækin staðið sig vel í að aðstoða viðskiptavini sína við endurheimt fjárins. Samtökin gera ráð fyrir að svo verði áfram, en óska jafnframt eftir að fá að vita ef svo er ekki. Hægt er að koma ábendingum til samtakanna með því að senda tölvupóst á smalan@ns.is.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.